Skip to content

Fyrsti sigur vetrarins í hús gegn KA!

Gróttu-strákar héldu norður til Akureyrar í gærmorgun þar sem á dagskránni var leikur við heimamenn í KA um kvöldið. Fyrir leikinn var Gróttu-liðið án stiga í 11 sæti deildarinnar en KA-menn með 4 stig í 6 sæti deildarinnar. Það var því gríðarlega mikilvægur leikur framundan enda báðum liðum spáð baráttu í neðri helmingi deildarinnar og máttu Gróttu-strákar alls ekki við því að missa KA-menn lengra frá sér.

Leikurinn á Akureyri bar sér þó merki þess hvað íþróttirnar geta verið mikið sameiningartákn og snúast ekki alltaf um sigra og töp en KA-menn stóðu fyrir fallegu framtaki þar sem allur ágóði af miðasölu leiksins rann til ungrar fjölskyldu að norðan sem ganga nú gegnum erfiða tíma. Gróttu-strákar tóku að sjálfsögðu þátt í þessu framtaki og borguðu sig inn á sinn eigin leik og styrktu þar með málefnið, auk þess borguðu fullt af stuðningsmönnum sem sátu heima á Seltjarnarnesi sig „inn“ á leikinn og styrktu þar með málefnið, frábært framtak í alla staði og var fallegt að sjá liðin hita bæði upp í bolum merktum fjölskyldunni.

En að leiknum sjálfum, okkar menn byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust meðal annars í 2-4 eftir 10 mínútna leik, þá vöknuðu KA-menn af værum blundi og tóku öll völd á vellinum, mikið var um tæknifeila og skotklikkum hjá Gróttu-strákum sem leiddi til hraðaupphlaupa og auðveldra marka KA-liðsins sem á örskotsstundu voru komnir með 4 marka forskot eftir um 25 mínútna leik. KA-menn leiddu að lokum 14-10 í hálfleik þar sem Gróttu-liðið átti í miklum vandræðum með þétta vörn KA-manna og skoruðu eins og áður segir aðeins 10 mörk. Hreiðar Levý í raun eini leikmaðurinn með lífsmarki í fyrri hálfleik og hélt okkur inni í leiknum.

Síðari hálfleikur byrjaði ekki vel af okkar hálfu og juku KA-menn muninn í 16-11 strax í byrjun hans. Þá fór Gróttu-dísel vélin að malla hraðar, Bjartur Guðmundsson kom inná og tók algjörlega yfir leikinn sóknarlega, eitthvað sem vantaði í fyrri hálfleik og byrjuðu Gróttu-strákar hægt og rólega að saxa á forskot heimamanna og umræddur Bjartur jafnaði svo loksins leikinn 17-17 á 42 mínútu, í kjölfarið fylgdu 2 önnur Gróttu-mörk í röð og munurinn skyndilega orðinn 17-19 Gróttu í vil og 15 mínútur eftir. Það eygði í fyrsta sigurinn.

Loka mínúturnar voru ansi skrautlegar og fengu liðin sinn skerf af 2ja mínútna brottvísunum, m.a Hreiðar Levý fékk 2 mínútur á einhvern óskiljanlegan hátt. Gróttu-strákar héldu 1-2ja marka forskoti áfram og þegar um 40 sekúndur lifði leiks fékk Hannes Grimm dauðafæri í stöðunni 21-22 til að klára leikinn en ákvað að vippa yfir markið af línunni, sjón var sögu ríkari en hélt spennu í leiknum. KA menn fóru í sókn sem rann út í sandinn en fengu fríkast þegar leiktíminn var liðinn. Eingöngu fríkastið var eftir sem skytta KA-manna stillti sér upp til að taka, hann átti ótrúlegt skot á markið sem endaði í samskeytunum og út og fögnuðu Gróttu-menn langþráðum og mikilvægum sigri.

Frábær sigur og sérstaklega í ljósi þess að í liðið í gær vantaði 3 lykilleikmenn, þá Sigfús Pál, Leonharð og Vilhjálm sem glíma allir við meiðsli.

Markahæstir í Gróttu-liðinu

Bjartur Guðmundsson – 4 mörk

Sveinn Jose Rivera – 4 mörk

Jóhann Reynir – 4 mörk

Alexander Jón – 3 mörk

Einar var ánægður með sina menn í gær

Magnús Öder – 3 mörk

Árni Benedikt – 2 mörk

Ágúst Emil – 2 mörk

Hreiðar Levý var frábær í markinu og varði 15 skot í markinu eða 43%.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print