Katrín Anna og U18 ára landsliðið í 8.sæti á HM

Undanfarna daga og vikur hefur U18 ára landsliðs kvenna staðið í ströngu á HM í Norður-Makedóníu. Katrín Anna Ásmundsdóttir úr Gróttu lék á mótinu og stóð sig frábærlega líkt og liðið í heild sinni. Í riðlakeppninni vann Ísland tvo leiki gegn Svíum og Alsíringum og gerði jafntefli við Svartfjallaland. Í milliriðlum vann liðið báða sína leiki gegn heimasætunum í Norður-Makedóníu og Íran.

Með þeim úrslitum var liðið komið í 8 liða úrslit og lék háspennuleik gegn Hollendingum. Því miður tapaðist sá leikur með minnsta mun og liðið lék því um 5. – 8.sæti. Þar voru Frakkar sterkari í fyrri leiknum en í leiknum um 7.sætið þurfti vítakeppni að skera út um sigurvegara. Ísland beið lægri hluti og 8.sætið staðreynd sem er besti árangur sem íslenskt kvennalandslið hefur náð á HM.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju stelpur og þjálfarar!

Myndir: HSÍ og IHF

Sjö stelpur í U15 ára landsliðinu

Um helgina fara fram æfingar hjá U15 ára landsliði kvenna. Við eigum hvorki fleiri né færri en sjö fulltrúa í hópnum að þessu sinni. Það eru þær:

Arndís Áslaug Grímsdóttir
Dóra Elísabet Gylfadóttir
Elísabet Ása Einarsdóttir
Embla Hjaltadóttir
Helga Sif Bragadóttir
Margrét Lára Jónasdóttir
Marta Sif Þórsdóttir

Við óskum stelpunum hjartanlega til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis á æfingunum undir stjórn landsliðsþjálfaranna, Díönu Guðjónsdóttur og Jóns Brynjars Björnssonar

Katrín Anna og Katrín Scheving í U18

Þessa dagana æfir U18 ára landslið kvenna undir stjórn landsliðsþjálfaranna Ágústar Þórs Jóhannssonar og Árna Stefáns Guðjónssonar. Upphaflega var eingöngu einn fulltrúi frá Gróttu í hópnum, Katrín Anna Ásmundsdóttir sem hefur verið fastamanneskja í liðinu undanfarin ár. Núna hefur nafna hennar, Katrín Scheving einnig verið valin í hópinn. Við eigum því tvo fulltrúa í hópnum.

Til hamingju með valið, Katrín Anna og Katrín Scheving og gangi ykkur vel !

Kjartan Kári og Orri Steinn léku með U19 í Króatíu 

Kjartan Kári Halldórsson og Orri Steinn Óskarsson léku með U19 ára landsliði Íslands í milliriðlum undankeppni EM 2022 í síðastliðinni viku. Liðið lék þrjá leiki og fóru þeir fram í Króatíu. Ísland tapaði sínum fyrsta leik 1-2 gegn Króatíu en Orri Steinn Óskarsson skoraði eina mark Íslands. Í öðrum leik liðsins gerði Ísland 1-1 jafntefli og var það aftur Orri Steinn sem skoraði eina mark Íslands. U19 ára landsliðið endaði svo mótið á glæsilegum 3-0 sigri gegn Rúmeníu og hafnaði í öðru sæti riðilsins með fjögur stig, en Rúmenía fór áfram í lokakeppni EM eftir að hafa endað í efsta sæti riðilsins með sex stig. Grótta er hreykið af því að eiga flotta fulltrúa í liðinu og óskar Kjartani og Orra til hamingju með árangurinn!

Lilja Lív og Emelía léku með U17 í milliriðlum

Lilja Lív Margrétardóttir og Emelía Óskarsdóttir léku með U17 ára landsliði Íslands í milliriðlum undankeppni EM 2022 í síðastliðinni viku. Liðið lék þrjá leiki undir stjórn Magnúsar Arnar Helgasonar. Í fyrsta leik gerði Ísland 1-1 jafntefli við Finnland en unnu síðan 1-0 sigur gegn Slóvakíu í öðrum leik sínum. Síðasti leikur stelpnanna var gegn Írlandi og vann Ísland glæsilegan 4-1 sigur, þar sem Emelía Óskarsdóttir skoraði eitt mark liðsins. Sigurinn dugði liðinu þó ekki, þar sem Ísland endaði í öðru sæti riðilsins, jafnt að stigum og Finnland en Finnland fór áfram þar sem þær voru með betri markatölu. Svekkjandi niðurstaða en engu að síður glæsilegur árangur hjá stúlkunum. Grótta er hreykið af því að eiga flotta fulltrúa í liðinu og óskar Lilju, Emelíu og Magga til hamingju með árangurinn 🇮🇸👏🏼

Fimm í U15 ára landsliðinu

Á föstudaginn var valið í U15 ára landslið kvenna. Þar eigum við fimm frábæra fulltrúa; þær Arndísi Áslaugu Grímsdóttur, Dóru Elísabetu Gylfadóttur, Elísabetu Ásu Einarsdóttur, Helgu Sif Bragadóttur og Margréti Láru Jónasdóttur.

Landsliðsæfingarnar fara fram dagana 4. – 6.mars undir stjórn landsliðsþjálfaranna Díönu Guðjónsdóttur og Jóns Brynjars Björnssonar.

Við óskum okkar stelpum til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis.

Katrín Anna valin í U18

Rétt í þessu var valið í U18 ára landslið kvenna. Okkar stelpa, Katrín Anna Ásmundsdóttir var valin í hópinn og æfir hann dagana 2. – 6.mars.

Þjálfarar U18 ára landsliðsins eru þeir Ágúst Þór Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson.

Við óskum Katrínu Önnu hjartanlega til hamingju með valið og óskum henni góðs gengis.

Lilja Lív og Lilja Scheving í hóp U17 ára landsliðsins

Gróttukonurnar Lilja Lív Margrétardóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving eru í hóp sem Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U17 kvenna, valdi fyrir æfingar 17.-19. febrúar. 

Æfingarnar fara fram í Skessunni í Hafnarfirði og eru liður í undirbúningi liðsins fyrir milliriðla EM 2022. Ísland er þar í riðli með Írlandi, Slóvakíu og Finnlandi og verður leikið á Írlandi 23.-29. mars.

Vel gert stelpur!