Fyrstu A-landsleikir Orra Steins 

Orri Steinn Óskarsson lék sinn fyrsta A-landsleik þegar Ísland mætti Lúxemborg í undankeppni EM 2024 föstudaginn 8. september. Orri kom inn á í hálfleik en leikurinn tapaðist 1-3. Orri var síðan í byrjunarliði Íslands á Laugardalsvelli mánudaginn 11. september þegar liðið tók á móti Bosníu og Hersegóvínu. Ísland vann dramatískan 1-0 sigur en Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands í uppbótartíma. Orri Steinn spilaði allan síðari leikinn og stóð sig gríðarlega vel! Hákon Rafn Valdimarsson var einnig í landsliðshópnum og var á bekk Íslands í báðum leikjunum. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af Orra og Hákoni og óskum við Orra Steini innilega til hamingju með fyrstu landsleikina! Svo sannarlega frábærar fyrirmyndir fyrir unga Gróttukrakka!

Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir 

Rakel valin í æfingahóp U19 ára landsliðsins

Gróttukonan Rakel Lóa Brynjarsdóttir hefur verið valin í æfingahóp U19 ára landsliðsins. Margrét Magnúsdóttir, landsliðsþjálfari U19 kvenna, hefur valið hóp sem æfir dagana 16.-18. janúar. Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ, en einnig leikur liðið æfingaleik við Stjörnuna á Samsungvellinum. Liðið undirbýr sig fyrir æfingamót sem það tekur þátt í á Algarve í Portúgal 14.-22. febrúar næstkomandi.
Til hamingju Rakel og gangi þér vel!

Kjartan Kári valinn í hóp U21 ára landsliðsins

Davíð Snorri Jónasson, landsliðsþjálfari U21 karla, hefur valið hóp sem tekur þátt í æfingum dagana 3. og 4. nóvember. Gróttumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er í hópnum. Æfingarnar fara fram á Víkingsvelli og eru liður í undirbúningi liðsins fyrir vináttuleik gegn Skotlandi 17. nóvember ytra. Á æfingunum verða aðeins leikmenn sem leika á Íslandi, en lokahópur fyrir leikinn gegn Skotlandi verður tilkynntur síðar. Til hamingju Kjartan!

Arnfríður Auður valin í æfingahóp fyrir úrtaksæfingar U16 kvenna í október

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur valið æfingahóp til að taka þátt í úrtaksæfingum dagana 24. – 26. október. Æft verður í Miðgarði, Garðabæ. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir, betur þekkt sem Aufí, er í þessum hóp en Aufí er einungis 14 ára gömul. Til æfinga að þessu sinni eru valdir 32 leikmenn frá 16 félögum. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega hreykið af því að eiga fulltrúa í þessum hóp og óskar Aufí góðs gengis á æfingunum!

Sara Björk í Póllandi með U15

Gróttukonan Sara Björk Arnarsdóttir tók nýverið þátt í UEFA development mótinu í Póllandi með U15 ára landsliðinu. Liðið lék þrjá leiki og fór með sigur í tveimur þeirra. Fyrsti leikurinn var gegn Tyrkjum og var Sara Björk í byrjunarliði Íslands sem fór með 5-2 sigur. Næsti leikur var gegn Póllandi en liðið tapaði 3-6 og kom Sara inn á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Í þriðja leik Íslands var Sara aftur í byrjunarliði og vann Ísland góðan 2-0 sigur gegn Litháen. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af því að eiga fulltrúa í U15 ára landsliðinu og óskar Söru innilega til hamingju með árangurinn!

Sara Björk á leið til Póllands með U15 ára landsliðinu!

Gróttukonan Sara Björk er í hóp U15 ára landsliðsins sem Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið fyrir UEFA development mót í Póllandi dagana 2. – 9.október. Hópurinn mun æfa tvisvar sinnum áður en haldið er til Pólland og fara þær æfingar fram 30. september og 1. október í Miðgarði.
Til hamingju Sara og gangi þér vel! 💪🏽💙

Fannar Hrafn valinn í Hæfileikamót N1 og KSÍ

Gróttumaðurinn Fannar Hrafn Hjaltason hefur verið valinn til að taka þátt í Hæfileikamóti N1 og KSÍ 2022 dagana 14.- 16. september. Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ. Fannar er fæddur árið 2008 og er gríðarlega efnilegur. Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að eiga fulltrúa í þessum hópi og óskar Fannari góðs gengis á æfingunum!

Katrín Anna og U18 ára landsliðið í 8.sæti á HM

Undanfarna daga og vikur hefur U18 ára landsliðs kvenna staðið í ströngu á HM í Norður-Makedóníu. Katrín Anna Ásmundsdóttir úr Gróttu lék á mótinu og stóð sig frábærlega líkt og liðið í heild sinni. Í riðlakeppninni vann Ísland tvo leiki gegn Svíum og Alsíringum og gerði jafntefli við Svartfjallaland. Í milliriðlum vann liðið báða sína leiki gegn heimasætunum í Norður-Makedóníu og Íran.

Með þeim úrslitum var liðið komið í 8 liða úrslit og lék háspennuleik gegn Hollendingum. Því miður tapaðist sá leikur með minnsta mun og liðið lék því um 5. – 8.sæti. Þar voru Frakkar sterkari í fyrri leiknum en í leiknum um 7.sætið þurfti vítakeppni að skera út um sigurvegara. Ísland beið lægri hluti og 8.sætið staðreynd sem er besti árangur sem íslenskt kvennalandslið hefur náð á HM.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju stelpur og þjálfarar!

Myndir: HSÍ og IHF