Tinna fyrst í meistaraflokki kvenna til að spila 100 leiki

Tinna Bjarkar Jónsdóttir, fyrirliði Gróttu, náði þeim merka áfanga þann 18. júní sl. að spila sinn 100. leik fyrir Gróttu en hún er fyrsti leikmaður meistaraflokks kvenna sem nær þeim áfanga!
Fyrir leik Gróttu og Álftanes í gær var Tinnu veittur blómvöndur frá knattspyrnudeildinni í tilefni dagsins. Leikurinn endaði þó í svekkjandi 1-1 jafntefli en María Lovísa Jónasdóttir skoraði eina mark Gróttu.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Tinnu innilega til hamingju með þennan glæsilega áfanga!

Þóra María í Gróttu

Þóra María Sigurjónsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Þóra María er 21 ára gamall leikstjórnandi og er öflugur varnarmaður. Hún kemur frá HK þar sem hún hefur leikið seinustu tvö tímabilin. Á nýafstöðnu tímabili skoraði hún 27 mörk með liðinu í Olísdeildinni. Áður en hún kom til HK lék Þóra María með Aftureldingu þar sem hún er uppalin. Hún hefur leikið með öllum yngri landsliðum HSÍ.

Það eru mikill fengur að Þóra María sé komin til Gróttu enda frábær leikmaður sem styrkir liðið mikið.

Frekari fréttir af leikmannamálum má vænta næstu daga.

Ída Margrét í Gróttu

Ída Margrét Stefánsdóttir hefur skrifað undir eins árs lánssamning við Gróttu. Ída Margrét er 20 ára gömul og leikur sem vinstri skytta. Hún hefur bæði leikið í Grill 66-deild kvenna með Val U og í Olísdeildinni með Val seinustu ár. Ída var á láni í Gróttu í fyrra en hún staldraði stutt við þar sem hún var kölluð til baka til Vals. Hún lék fimm leiki og skoraði í þeim 24 mörk.

Ída er öflugur sóknarleikmaður en er líka frábær varnarmaður. Hún var valin besti varnarmaður Grill 66-deildarinnar tímabilið 2020-2021.

Velkomin aftur í Gróttu, Ída !

Grótta fer vel af stað í 2. deild kvenna

Meistaraflokkur kvenna fer vel af stað í 2. deildinni en þær hófu leik á föstudagskvöld. Grótta tók á móti ÍH í fyrsta leik Íslandsmótsins á Vivaldivellinum föstudaginn 20. maí. Heimakonur unnu öruggan sigur en leikurinn fór 9-1 fyrir Gróttu! Mörk Gróttu skoruðu María Lovísa Jónsdóttir (2), Tinna Bjarkar Jónsdóttir (2), Bjargey Sigurborg Ólafsson (2), Lilja Lív Margrétardóttir, Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving.
Næsti leikur hjá stelpunum er á fimmtudaginn á Vopnafirði gegn Einherja.

Gunni Gunn þjálfar Gróttu

Gunnar Gunnarsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna til næstu þriggja ára. Gunnar þarf vart að kynna fyrir Gróttufólki og hvað þá handboltaáhugafólki enda margreyndur þjálfari og landsliðsmaður þar á undan. Gunnar þekkir vel til á Nesinu en hann þjálfaði kvennalið félagsins árin 1998-2000 og aftur 2001-2002. Árið 2000 stýrði hann liðinu alla leið í bikarúrslit og í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn. Tveimur árum síðar fór liðið aftur í bikarúrslit undir stjórn Gunna.

Undanfarin tvö tímabil hefur Gunni þjálfað kvennalið Hauka og náð frábærum árangri með liðið. Áður þjálfaði hann karlalið Víkings og Selfoss en hann hefur einnig þjálfað Elverum og Drammen í Noregi.

Það ríkir mikil ánægja með að Gunnar sé kominn á Nesið enda frábær þjálfari með mikla reynslu. Kára Garðarssyni sem hefur þjálfað liðið undanfarin tvö tímabilin er þakkað mikið og gott starf.

Á myndinni eru Gunnar Gunnarsson og Arnkell Bergmann Arnkelsson varaformaður handknattleiksdeildar að skrifa undir samninginn. Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Heimaleikjakort til sölu

Heimaleikjakort knattspyrnudeildar Gróttu eru komin í sölu. Við hvetjum alla stuðningsmenn til að næla sér í kort á kostakjörum. Handhafar heimaleikjakorta njóta forgangs á völlinn. Sala heimaleikjakorta fer fram í vefverslun grotta.is/knattspyrnudeild/heimaleikjakort

Continue reading

Katrín Anna valin í U18

Rétt í þessu var valið í U18 ára landslið kvenna. Okkar stelpa, Katrín Anna Ásmundsdóttir var valin í hópinn og æfir hann dagana 2. – 6.mars.

Þjálfarar U18 ára landsliðsins eru þeir Ágúst Þór Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson.

Við óskum Katrínu Önnu hjartanlega til hamingju með valið og óskum henni góðs gengis.

Lilja Lív og Lilja Scheving í hóp U17 ára landsliðsins

Gróttukonurnar Lilja Lív Margrétardóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving eru í hóp sem Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U17 kvenna, valdi fyrir æfingar 17.-19. febrúar. 

Æfingarnar fara fram í Skessunni í Hafnarfirði og eru liður í undirbúningi liðsins fyrir milliriðla EM 2022. Ísland er þar í riðli með Írlandi, Slóvakíu og Finnlandi og verður leikið á Írlandi 23.-29. mars.

Vel gert stelpur! 

Lilja Lív og Lilja Scheving á úrtaksæfingum U17 ára landsliðsins

 Gróttukonurnar Lilja Lív Margrétardóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving eru í hóp U17 ára landsliðsins sem æfir saman dagana 10.-12. janúar. Knattspyrnudeild Gróttu er stolt af því að eiga glæsilega fulltrúa félagsins í þessum hóp. 
Næsta verkefni U17 kvenna eru milliriðlar undankeppni EM 2022. Ísland er þar í riðli með Írlandi, Finnlandi og Slóvakíu og verður leikið á Írlandi 23.-29. mars. 

Fimm leikmenn skrifa undir

Það er mikið gleðiefni að segja frá því að þær Signý Ylfa Sigurðardóttir, Edda Björg Eiríksdóttir, Lilja Davíðsdóttir Scheving, Lovísa Davíðsdóttir Scheving og Lilja Lív Margrétardóttir hafa endurnýjuað samninga sína við Gróttu.
Samningarnir við stúlkurnar eru mikið fagnaðarefni fyrir félagið og stuðningsmenn Gróttu, enda er um að ræða efnilegar og öflugar knattspyrnukonur sem verða Gróttuliðinu mikilvægar á komandi tímabili.

Pétur Rögnvaldsson, þjálfari Gróttu, fagnar tíðindunum og segir þau gott veganesti inn í nýtt ár:
„Það býr mikið í öllum þessum stelpum. Allar áttu þær góða spretti síðasta sumar en komandi tímabil getur verið tækifæri fyrir þær til að springa út og verða lykilleikmenn í Gróttuliðinu. Það eru eflaust mörg lið sem stefna á toppbaráttu næsta sumar, en það er frábært fyrir Gróttu að hafa á síðustu þremur mánuðum endursamið við svona stóran hluta liðsins síðustu tvö ár. Það gefur okkur bjartsýni og orku inn í nýtt ár.“