Gróttukonan Rakel Lóa Brynjarsdóttir hefur verið valin í æfingahóp U19 ára landsliðsins. Margrét Magnúsdóttir, landsliðsþjálfari U19 kvenna, hefur valið hóp sem æfir dagana 16.-18. janúar. Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ, en einnig leikur liðið æfingaleik við Stjörnuna á Samsungvellinum. Liðið undirbýr sig fyrir æfingamót sem það tekur þátt í á Algarve í Portúgal 14.-22. febrúar næstkomandi. Til hamingju Rakel og gangi þér vel!
Gróttustelpurnar Rebekka Sif Brynjarsdóttir og Sara Björk Arnarsdóttir hafa verið valdar á úrtaksæfingar U15 ára landsliðsins. Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið 30 stelpna hóp fyrir úrtaksæfingar dagana 11.-13. janúar. Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ. Vel gert stelpur og gangi ykkur vel!
Fyrir jólin árið 2011 ákvað knattspyrnudeild Gróttu að gefa út blað þar sem farið var yfir árið hjá deildinni í máli og myndum. Á þeim tímapunkti óraði líklega engan fyrir því að árið 2022 myndi tólfta blaðið koma út!
Jórunn María Þorsteinsdóttir Bachmann ritstýrði jólablaðinu í ár. Í blaðinu má finna skemmtileg viðtöl, ýmsar fréttir og fróðleik. Í blaðinu er m.a. að finna viðtöl við Jón Jónsson, Emelíu Óskarsdóttur, Kjartan Kára Halldórsson, Magnús Örn Helgason og Huldu Mýrdal. Þá eru yngri iðkendur einnig teknir tali og loks má ekki gleyma þeim fjölmörgu myndum sem prýða blaðið en Eyjólfur Garðarsson á heiðurinn af þeim. Elsa Nielsen sá um uppsetningu blaðsins sem er hið glæsilegasta.
Dreifing hefur gengið vel þökk sé sjálfboðaliðum og ætti Gróttublaðið nú að vera komið í öll hús á Seltjarnarnesi.
Vefútgáfu blaðsins má finna hér: https://issuu.com/nielsenslf/docs/grottublad-2022-web
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Gróttufólki gleðilegra jóla og þakkar kærlega fyrir stuðninginn á liðnu ári 💙
Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur valið æfingahóp til að taka þátt í úrtaksæfingum dagana 24. – 26. október. Æft verður í Miðgarði, Garðabæ. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir, betur þekkt sem Aufí, er í þessum hóp en Aufí er einungis 14 ára gömul. Til æfinga að þessu sinni eru valdir 32 leikmenn frá 16 félögum. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega hreykið af því að eiga fulltrúa í þessum hóp og óskar Aufí góðs gengis á æfingunum!
Gróttukonan Sara Björk Arnarsdóttir tók nýverið þátt í UEFA development mótinu í Póllandi með U15 ára landsliðinu. Liðið lék þrjá leiki og fór með sigur í tveimur þeirra. Fyrsti leikurinn var gegn Tyrkjum og var Sara Björk í byrjunarliði Íslands sem fór með 5-2 sigur. Næsti leikur var gegn Póllandi en liðið tapaði 3-6 og kom Sara inn á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Í þriðja leik Íslands var Sara aftur í byrjunarliði og vann Ísland góðan 2-0 sigur gegn Litháen. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af því að eiga fulltrúa í U15 ára landsliðinu og óskar Söru innilega til hamingju með árangurinn!
Það var frábær stemning á Vivaldivellinum og fjöldi fólks í stúkunni þegar 2. flokkur karla tryggði sér sæti í B-deild Íslandsmótsins í lok september. Andstæðingar Gróttu var lið KR2 sem tefldi fram nokkrum sterkum leikmönnum í leiknum, þar sem jafnræði var með liðunum fyrsta hálftímann. Grótta skoraði tvö mörk rétt fyrir leikhlé og í byrjun seinni hálfleiks gerðu strákarnir út um leikinn og komust í 4-0. Kjartan Kári Halldórsson var með tvö mörk, Benjamin Friesen með eitt og eitt markanna var sjálfsmark. Halldór Orri Jónsson skoraði rétt fyrir leikslok og tryggði Gróttu 5-0 sigur og mikil gleði braust út í leikslok. Í sumar hefur liðsheildin í 2. flokknum verið sterk og leikmenn A- og B-liðsins staðið vel við bakið hvor á öðrum. Við óskum strákunum og þjálfurum þeirra, Arnari Þór Axelssyni og Dominic Ankers, innilega til hamingju með árangurinn!
Tæplega 30 krakkar mæta að staðaldri á æfingar 9.flokks á laugardögum í Íþróttahúsi Gróttu. Arndís María Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir hafa veg og vanda að skipulagningu og æfingum krakkanna en þær eru margreyndar úr þjálfun hjá félaginu og tvær af leikjahæstu leikmönnum Gróttu frá upphafi.
Innihald æfinganna eru leikir með og án bolta auk fjölbreyttra handboltaæfinga sem reyna á samhæfingu, jafnvægi, styrk og hittni. Segja má að mikil einbeiting og mikið stuð sé hjá þessum flotta hópi á laugardögum.
Gróttukonan Sara Björk er í hóp U15 ára landsliðsins sem Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið fyrir UEFA development mót í Póllandi dagana 2. – 9.október. Hópurinn mun æfa tvisvar sinnum áður en haldið er til Pólland og fara þær æfingar fram 30. september og 1. október í Miðgarði. Til hamingju Sara og gangi þér vel! 💪🏽💙
Gróttumaðurinn Fannar Hrafn Hjaltason hefur verið valinn til að taka þátt í Hæfileikamóti N1 og KSÍ 2022 dagana 14.- 16. september. Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ. Fannar er fæddur árið 2008 og er gríðarlega efnilegur. Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að eiga fulltrúa í þessum hópi og óskar Fannari góðs gengis á æfingunum!
Æfingar hjá yngri flokkum félagsins hófust þann 1. september og fór 8. flokkur karla og kvenna vel af stað á sinni fyrstu æfingu. 8. flokkur karla og kvenna er fyrir börn fædd 2017 og 2018 og eru æfingar í vetur inni í íþróttahúsi en á sumrin er fært sig út á Vivaldivöll.
Æfingatímarnir eru eftirfarandi: 8 flokkur kvenna: Þriðjudaga kl. 7:50-8:30 8 flokkur karla: Miðvikudaga kl. 7:50-8:30 8 flokkur kk og kvk: Fimmtudaga kl. 15:45-16:25
Börnin eru sótt í leikskólann á fimmtudögum og á þriðjudögum og miðvikudögum er þeim fylgt í leikskólann að æfingu lokinni. Við hvetjum börn fædd 2017 og 2018 til að koma og prófa fótboltaæfingu Þjálfari flokksins er Hansína Þóra Gunnarsdóttir og henni til aðstoðar eru Agnar Guðjónsson, Helga Sif Bragadóttir og Jóna Guðrún Gylfadóttir.