Tímabilið blásið af

Þá er orðið ljóst að tímabilinu er formlega lokið. Sumarið 2020 mun seint gleymast – karlaliðið í fyrsta sinn í Pepsi Max og kvennaliðið í fyrsta sinn í Lengjudeildinni. Knattspyrnuhreyfingin mætti mörgum áskorunum vegna heimsfaraldursins en við hjá knattspyrnudeild Gróttu erum stolt af leikmönnum okkar, þjálfurum, starfsmönnum og sjálfboðaliðum fyrir það hvernig þau tókust á við það mótlæti. Pepsi Max ævintýrinu er lokið í bili og munu báðir meistaraflokkarnir okkar spila í Lengjudeildinni að ári. Við hlökkum til næstu verkefna og komum sterkari til leiks þegar að því kemur.
Takk fyrir stuðninginn 💙 Áfram Grótta!

Mynd: Eyjólfur Garðarsson 📸

Söguleg stund á Kópavogsvelli

Það var söguleg stund á Kópavogsvelli þann 14. júní þegar Grótta steig sín fyrstu skref í Pepsi Max deild karla. Staðan var 1-0 fyrir Blikum í hálfleik en lokatölur urðu 3-0. Strákarnir börðust til síðustu mínútu og voru manni færri síðasta hálftíma leiksins eftir að Arnar Þór fékk að líta rauða spjaldið.
Stuðningsmennirnir lögðu sig alla fram við að halda stemningunni uppi í stúkunni sem er ekki síður mikilvægt. Gaman var að sjá hvað margt Gróttufólk lagði leið sína á völlinn til að styðja við bakið á strákunum í kvöld. Mætingin leggur góða línu fyrir sumarið!

Næsti leikur hjá drengjunum er á Vivaldivellinum á laugardaginn kl. 15:45 gegn Valsmönnum!
Áfram gakk 👊🏼💙

Myndir: Eyjólfur Garðarsson

Ástbjörn á láni til Gróttu

KR, Grótta og Ástbjörn Þórðarson hafa komist að samkomulagi um að Ástbjörn leiki með Gróttuliðinu í Pepsi Max deildinni á komandi leiktíð.
Ástbjörn er fæddur árið 1999 og er uppalinn hjá KR í Vesturbænum. Hann fékk sína eldskírn í efstu deild með KR sumarið 2016 þegar hann kom inná í leik gegn Fylki, en hann hefur leikið samtals 11 leiki fyrir KR í efstu deild. Ástbjörn var lánaður til ÍA og Víkings Ólafsvík tímabilið 2018 en í fyrra var hann lánaður á miðju tímabili til Gróttu í Inkasso deildina. Þar lék Ástbjörn stórt hlutverk þegar liðið fagnaði sigri í deildinni og komst uppí Pepsi Max deildina í fyrsta skipti.
Ástbjörn hefur leikið samtals 10 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim 1 mark.

Grótta býður Ástbjörn innilega velkominn aftur til félagsins og væntir mikils af honum í sumar.

Karl Friðleifur til Gróttu

Grótta hefur náð samkomulagi við Breiðablik um að fá Karl Friðleif Gunnarsson að láni fyrir átökin í Pepsi max deildinni á komandi keppnistímabili. Karl Friðleifur er stórefnilegur knattspyrnumaður, fæddur árið 2001 og uppalinn í Kópavoginum hjá Breiðabliki. Hann hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands í gegnum tíðina, en hann hefur leikið samtals 27 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim 7 mörk. Karl steig sín fyrstu skref í efstu deild sumarið 2018 undir stjórn Ágústar Gylfasonar. Karl Friðleifur er frábær viðbót við ungt og spennandi lið Gróttu, sem hefur leik í Pepsi max deild karla þann 14. júní næstkomandi, í fyrsta sinn í sögu félagsins.