Hópaskipting í fimleikum hefur það að leiðarljósi að iðkendur fái þjálfun við hæfi. Til að framfarir eigi sér stað hjá iðkendum er mikilvægt að æfingar séu hæfilega krefjandi, þá er alltaf einhver hvatning til staðar. Því mega æfingar hvorki vera of erfiðar né of léttar þannig að iðkandinn missi ekki áhugann. Því er mikilvægt að iðkendur innan hvers hóps séu á sama/svipuðu getustigi svo þeir fái þjálfun við hæfi svo þeir megi þroskast og njóta þjálfunarinnar.
Í fimleikadeild Gróttu er iðkendum skipt í 10-16 manna hópa þar sem einstaklingsmiðuð þjálfun er höfð að leiðarljósi. Þau viðmið sem notuð eru til að raða í hópa eru m.a.:
- Færni iðkandans á áhöldum
- Skilningur á æfingum, reglum og fyrirmælum
- Styrkur og hraði
- Reglur FSÍ og FIG.
Í ljósi þess sem hér hefur komið fram er ekki í öllum tilvikum hægt að gera ráð fyrir því að vinkonur/vinir geti verið saman í hóp. Vilji vinkonur/vinir æfa saman er reglan sú að sá iðkandi sem er lengra kominn þurfi að færa sig niður um hóp, slíkt er þó einungis mögulegt í þeim tilvikum þar sem laust pláss er í viðkomandi hóp.
ÆFINGARTÍMINN
Er allt frá 1 klst. til 21 klst. í viku. Þeir iðkendur sem eru lengra komnir þurfa lengri æfingartíma. Af þessum sökum getur vikulegur fjöldi æfinga hjá einstaklingum á sama aldri verið mismunandi. Þegar iðkendur hafa náð tökum á grunnæfingum þurfa þeir lengri æfingatíma þar sem þeir þurfa að ná tökum á fleiri og flóknari æfingum.
GRUNNHÓPAR STÚLKNA
A - HÓPAR
Grunnhópar í fimleikum fyrir 5 og 6 ára stúlkur. Markmiðið er að vekja áhuga á fimleikum, kenna jákvæðan aga og reglur sem gilda í salnum. Lögð er áhersla á einbeitingu, vinnusemi og að iðkendur njóti þess að æfa sig. Áhersla er lögð á að iðkendur kynnist þeim áhöldum sem notuð eru í áhaldafimleikum og hópfimleikum kvenna og byrji að byggja upp góðan grunn fyrir áframhaldandi fimleikaiðkun.
A hópar æfa tvisvar sinnum í viku í 60 mínútur í senn og fylgja viðburðadagatali grunnhópa.
B - HÓPAR
Grunnhópar í fimleikum fyrir 7 ára stúlkur (2. bekkur). Markmiðið er að viðhalda áhuga á fimleikum, kenna jákvæðan aga og reglur sem gilda í salnum. Lögð er áhersla á einbeitingu, vinnusemi og að iðkendur njóti þess að æfa sig. Val fimleikaæfinga miðar að því að byggja upp góðan grunn fyrir áframhaldandi fimleikaiðkun.
B hópar æfa tvisvar – þrisvar sinnum í viku í 80 mínútur og fylgja viðburðadagatali grunnhópa. Iðkendur hafa val um að bæta við þriðju æfingunni í viku.
D - HÓPAR
Grunnhópar í fimleikum fyrir 8 ára stúlkur (3. bekkur). Markmiðið er að viðhalda áhuga á fimleikum, kenna jákvæðan aga og reglur sem gilda í salnum. Lögð er áhersla á einbeitingu, vinnusemi og að iðkendur njóti þess að æfa sig. Val fimleikaæfinga miðar að því að byggja upp góðan grunn fyrir áframhaldandi fimleikaiðkun. Iðkendur í D hópum taka þátt á mótum í 6.þrepi fimleikastiga Íslands. Æskilegt er að iðkendur í D hópum taki þátt á sumaræfingum.
D hópar æfa þrisvar sinnum í viku í 80-100 mínútur í senn og fylgja viðburðadagatali grunnhópa.
Eftir 3. bekk geta iðkendur valið að fara í keppnishóp í áhaldafimleikum eða keppnishóp í hópfimleikum, iðkendum er leiðbeint áfram eftir því hvar þeirra styrkleikar liggja.
GRUNNHÓPAR DRENGJA
S - HÓPAR
Grunnhópar í fimleikum fyrir 5-8 ára drengi. Markmiðið er að viðhalda áhuga á fimleikum, kenna jákvæðan aga og reglur sem gilda í salnum. Lögð er áhersla á einbeitingu, vinnusemi og að iðkendur njóti þess að æfa sig. Áhersla er lögð á að iðkendur kynnist þeim áhöldum sem notuð eru í áhaldafimleikum (gólf, bogahestur, hringir, stökk, tvíslá og svifrá) og hópfimleikum (trampólín, dýna og gólf). Val fimleikaæfinga miðar að því að byggja upp góðan grunn fyrir áframhaldandi fimleikaiðkun.
Fimleikadeild Gróttu býður upp á hópfimleika fyrir drengi eldri en 8 ára.
ÁHALDAFIMLEIKAR STÚLKNA OG KVENNA
Í áhaldafimleikum er æft og keppt á eftirfarandi áhöldum: Stökki, tvíslá, slá og gólfi.
Áhaldafimleikar eru einstaklingsíþrótt, stundum er liðakeppni þar sem æfingar einstaklinga telja saman til stiga.
E - HÓPAR
Framhaldshópar í áhaldafimleikum fyrir 7-12 ára stúlkur sem að ráða við skylduæfingarnar í 6. þrepi fimleikstigans og eru að byrja að æfa skylduæfingarnar í 5. þrepi.
E-hópar stúlkna 9-12 ára taka þátt í tveimur mótum í 5. eða 6. þrepi, eftir færni hvers og eins.
F - HÓPAR
Framhaldshópar í áhaldafimleikum kvenna fyrir 9-12 ára stúlkur sem ráða við skylduæfingar í 5. þrepi og eru að æfa erfiðari og flóknari æfingar en eru í þrepinu.
F-hópar stúlkna taka þátt í tveimur mótum í 5. þrepi.
L - HÓPAR
Keppnishópar í áhaldafimleikum kvenna fyrir þá iðkendur sem lokið hafa 5. þrepi og eru tilbúnir til að æfa og keppa í 3. og 4. þrepi fimleikastigans.
Stúlkur í 4. þrepi keppa á þremur vinamótum og stúlkur í 3. þrepi keppa á FSÍ mótum timabilsins. L hópar fara í æfingabúðir erlendis annað hvert ár.
M - HÓPAR
Keppnishópar í áhaldafimleikum kvenna fyrir þá iðkendur sem lokið hafa 3. þrepi og eru tilbúnir til að æfa og keppa í 1. og 2. þrepi og frjálsum æfingum.
M hópar eiga að taka þátt í öllum verkefnum og mótum innanlands sem þjálfarar telja að þær eigi erindi í. Verkefnin geta m.a. Verið þátttaka í inntökuprófi í úrvalshópa FSÍ og mæta á aðrar æfingar og landsliðverkefni sem FSÍ boðar þær á. M hópar fara árlega á alþjóðlegt mót á vegum félagsins og æfingabúðir annað hvert ár.
HÓPFIMLEIKAR / STÖKKFIMLEIKAR
Eru hópíþrótt þar sem keppt er á þremur áhöldum í dansi, dýnustökkum og trampólíni. Í hópfimleikum er hópaskipting meira í anda þess sem fólk þekkir úr boltagreinum. Skipt er í flokka eftir aldri og fara áherslur í æfingum eftir aldri og getu iðkenda. Flokkarnir eru frá 4. Flokki upp í Meistaraflokk og aukast erfiðleikakröfurnar eftir því sem líður á.
Þeir sem eru lengra komnir keppa eftir alþjóðlegum TeamGym reglum en þeir sem eru komnir skemmra á veg keppa eftir sömu reglum með undanþágum.
Í hópfimleikum er keppt í kvenna, karla og blönduðum flokki og eru að lágmarki 6 sem keppa í einu á hverju áhaldi og er það frammistaði liðsins í heild sem ákvarðar einkunnina. Áhöldin eru þrjú, gólf, trampólín og dýna.
1. FLOKKUR / MEISTARAFLOKKUR
2. FLOKKUR
Markmiðið að æfa og keppa eftir reglum í hópfimleikum. Keppt er eftir flokkum og er iðkendum skipt upp eftir aldri og er þá miðað við fæðingarár iðkenda.
3. FLOKKUR STÚLKNA
4. FLOKKUR
KK. YNGRI
KK. ELDRI
STUBBAFIMI
Stubbafimi er ætluð yngstu iðkendunum á aldrinum 1, 2, 3 og 4 ára. Þar er áhersla lögð á grundvallarhreyfigetu með fjölbreyttum æfingum og á að hafa gleði og gaman. Kennt er á laugardagsmorgnum. Í hverjum hópi er takmarkaður fjöldi og ef hóparnir fyllast þarf að skrá barnið á biðlista.
Í 2ja ára stubbafimi er gert ráð fyrir þátttöku foreldra. Uppbygging tímanna er þannig að foreldrar og iðkendur geta notið sín saman.
Eldri stubbar eru án foreldra á æfingu.
FULLORÐINSFIMLEIKAR
Krefjandi alhliða hreyfing fyrir konur og karla frá 18-99 ára. Bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Ekki er nauðsynlegt að hafa fimleikagrunn bara áhuga. Tímarnir skiptast í upphitun fjölbreyttar fimleikaæfingar og þrekæfingar. Skemmtilegir tímar fyrir fólk sem vill vera í formi og stunda fimleika í góðum félagsskap.