Grótta komin í Lengjudeildina!


Þá hafa Gróttukonur lokið sínum síðasta leik í sumar og hafa tryggt sér sæti í Lengjudeildinni að ári!  Grótta endaði í 2. sæti með 34 stig og bestu markatölu deildarinnar! Þessum árangri var fagnað vel á Vivaldivellinum þann 23. september sl. og þökkum við áhorfendum fyrir komuna og stuðninginn. Síðasti leikurinn hjá stelpnunum var merkilegur af fleiri ástæðum en Bjargey Sigurborg Ólafsson spilaði sinn 100. leik fyrir Gróttu og Nína Kolbrún Gylfadóttir spilaði sínar fyrstu mínútur eftir að hafa slitið krossband í fyrra sumar. Frábærar fyrirmyndir báðar tvær!
Til hamingju með árangurinn stelpur, þjálfarar og allir sem að liðinu koma! Sjáumst á Vivaldi á næsta ári! 

6. flokkur karla á Króksmótinu

Tæplega þrjátíu Gróttustrákar úr 6. flokki karla skelltu sér á Sauðárkrók um helgina og léku á Króksmóti Tindastóls. Grótta fór með fimm lið á mótið og stóðu drengirnir sig mjög vel og uppskáru eftir því. Að sögn þjálfaranna spiluðu strákarnir geggjaðan fótbolta á Sauðárkróki! Lið Gróttu hétu eftir meistaraflokks leikmönnum til að vekja athygli drengjanna á þeim fyrirmyndum sem þeir hafa innan félagsins. Liðin hétu Addi Bomba, Kristófer Orri, Arnþór Páll, Kjartan Kári og Júlí Karls.

7. flokkur karla og kvenna á Hamingjumóti Víkings


7. flokkur karla og kvenna léku á Hamingjumóti Víkings í Fossvogi helgina 14. og 15. ágúst. Drengirnir léku á laugardeginum í sól og blíðu en stúlkurnar á sunnudeginum í rigningu og skýjum – en létu veðrið ekki á sig fá. 7. flokkur karla fór með 6 lið á mótið og 7. flokkur kvenna með 5 lið, en liðin hétu eftir leikmönnum meistaraflokks karla og kvenna. Krakkarnir stóðu sig gríðarlega vel á mótinu, en blanda af þrautseigju og leikgleði var ríkjandi hjá Gróttuliðunum.

75 Gróttustelpur á Símamótinu

Stærsta helgi ársins hjá ungum og efnilegum knattspyrnukonum rann upp síðustu helgi þegar hið fræga Símamót fór fram í Kópavogi. Um 3000 stelpur léku á mótinu sem er stærsta knattspyrnumót landsins, og fer sífellt stækkandi. 75 Gróttustelpur héldu á mótið en 5. flokkur Gróttu tefldi fram tveimur liðum sem samanstóðu af 16 stelpum, 6. flokkur kvenna var með 30 stelpur í fimm liðum og 7. flokkur kvenna fór með 29 stelpur í fimm liðum. Mótið var frá föstudegi til sunnudags og leikið var frá morgni til eftirmiðdags. Mótið fór fram með hefðbundnu sniði en hins vegar var breyting á liðsnöfnum í ár, en mótsstjórn Símamótsins hvatti félög til að leggja niður númeraröðun liða á mótinu og þess í stað skíra lið félaganna eftir knattspyrnukonum. Grótta tók að sjálfsögðu þátt í þessu frábæra framtaki og
Gróttuliðin hétu öll eftir meistaraflokksleikmönnum Gróttu. Leikmennirnir kíktu á stelpurnar á mótinu og fannst stelpunum það ansi spennandi.
Gróttustelpurnar upplifðu bæði sigra, töp og jafntefli, en leikgleðin var aldrei langt undan. Það er mikil upplifun að spila á Símamótinu og alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá ungum knattspyrnukonum. Keppendum frá Gróttu fer fjölgandi með ári hverju sem er skýrt merki um uppgang kvennafótboltans á Nesinu. Stelpurnar stóðu sig með prýði á mótinu en umfram allt skemmtu þær sér vel og komu heim á Seltjarnarnesið reynslunni ríkari 🤩

6. flokkur karla á Orkumótinu í Eyjum

Það voru 17 galvaskir Gróttudrengir sem héldu í ævintýraferð á Orkumótið í Eyjum í lok júní, áður þekkt sem Shellmótið eða Tommamótið. Veðrið var frábært þegar siglt var með Herjólfi frá Landeyjahöfn og strax fyrsta daginn fóru strákarnir í bátsferð um Eyjarnar.

Keppni hófst á fimmtudeginum og lék Grótta2 meðal annars á Helgafellsvelli sem er líklega einn af fáum fótboltavöllum í heiminum sem er staðsettur á eldfjalli. Strákarnir í Gróttu2 spiluðu glimrandi fótbolta og náðu 2. sæti í sínum riðli fyrstu tvo dagana. Síðasta daginn öttu þeir svo kappi við mjög öflug lið og gerðu tvö jafntefli en tvö töp staðreynd.

Grótta1 byrjaði mótið rólega en á föstudagsmorgni þurfti heldur betur að vakna því framundan voru leikir við tvö af bestu liðum mótsins: Stjörnuna og Þór (sem enduðu á að leika til úrslita). Báðir leikir töpuðust 2-0 en varnarleikur Gróttudrengja var stórgóður og endaði liðið daginn á frábærum sigri á Keflavík. Lokadaginn gerði Grótta1 svo tvö jafntefli, vann einn leik og tapaði einum og endaði í 11. sæti Orkumótsins.

Það eru þó ekki aðeins afrek innan vallar sem skipta máli á svona stórmóti hjá 10 ára peyjum (eins og Eyjamenn kalla stráka). Hópurinn ver miklum tíma saman og stundum getur tekið á að gista annars staðar en í öruggu skjóli foreldra sinna. Allir voru sammála um að strákarnir hafi komið nokkrum númerum stærri heim frá Eyjum, tilbúnari í að takast á við áskoranir næstu ára innan sem utan fótboltavallarins.

6. flokkur kvenna á Steinullarmóti Tindastóls

6. flokkur kvenna skellti sér á Sauðárkrók síðustu helgi og lék þar á Steinullarmóti Tindastóls. Grótta fór með 5 lið á mótið og stóðu stelpurnar sig ótrúlega vel. Miklar framfarir sáust í spilamennsku hjá Gróttustelpunum og var leikgleðin aldrei langt undan. Veðrið var frábært á Króknum og stemningin með eindæmum góð 🙌🏼
Næst á dagskrá hjá stelpunum er Símamótið sem fer fram næstu helgi í Kópavogi!