Hannes framlengir

Línumaðurinn Hannes Grimm hefur framlengt samning sinn við Gróttu til ársins 2026. Hannes hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið með Gróttu til fjölda ára og á 148 leiki fyrir meistaraflokk félagsins.

Það eru frábær tíðindi að Hannes verði áfram í herbúðum félagsins enda lykilleikmaður liðsins bæði sóknarlega og varnarlega.

Þeir eru vandfundnir meiri Gróttumenn en Hannes Grimm. Hann hefur undanfarin sjö ár þjálfað yngri flokka félagsins við góðan orðstír.

Magnús Örn ráðinn yfirmaður knattspyrnumála

Knattspyrnudeild Gróttu hefur tekið stórt skref í átt að frekari styrkingu og framþróun með því að ráða Magnús Örn Helgason í nýtt og mikilvægt hlutverk sem yfirmann knattspyrnumála. Þessi ráðning markar upphaf nýs kafla í sögu deildarinnar, þar sem lögð verður enn frekari áhersla á fagmennsku og markvissa framtíðarsýn.

Magnús kemur til Gróttu með mikla reynslu og þekkingu á íslenskri knattspyrnu. Hann hefur frá árinu 2021 starfað hjá KSÍ, fyrst sem þjálfari U17 ára landsliðs kvenna og síðar U15 kvenna. Auk þess hefur Magnús í tvö ár stýrt Hæfileikamótun kvenna hjá KSÍ. Fram á vor mun Magnús sinna verkefnum sínum hjá KSÍ meðfram starfinu hjá Gróttu.

Magnús Örn er öllum hnútum kunnugur innan Gróttu enda Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Á þeim tíma var hann m.a. annar höfunda „Gróttuleiðarinnar“ sem er handbók um markmið og hugmyndafræði deildarinnar. Árið 2018 tók hann við meistaraflokki kvenna en undir hans stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019.

Í sínu nýja hlutverki mun Magnús hafa yfirumsjón með margvíslegum þáttum í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Hann mun vinna náið með stjórn deildarinnar, yfirþjálfurum yngri flokka og þjálfurum meistaraflokka karla og kvenna til að tryggja að Grótta haldi áfram að vera í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu.

„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið Magga aftur til okkar, og það í þetta nýja og stóra hlutverk innan deildarinnar. Hans þekking og reynsla verða ómetanleg í áframhaldandi þróun knattspyrnudeildar og við höfum fulla trú á að leiðtogahæfileikar hans muni leiða knattspyrnudeild Gróttu til nýrra hæða,“ segir Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu.

„Það er afar spennandi að taka við þessu nýja starfi. Ég hlakka til að vinna með þeim framúrskarandi þjálfurum sem starfa hjá félaginu, leikmönnum á öllum aldri og auðvitað sjálfboðaliðunum sem eru félaginu dýrmætir. Það er margt sem gengur vel hjá Gróttu og ég mun leggja mitt að mörkum til að svo verði áfram,“ segir Magnús sem skrifaði undir nú síðdegis á Vivaldivellinum.

Ráðning Magnúsar er mikilvægur liður í stefnu Gróttu um að byggja upp öfluga knattspyrnudeild með skýra sýn í bæði uppeldis- og afreksstarfi. Við hlökkum til að sjá árangurinn af þessu samstarfi á komandi misserum og bjóðum Magnús hjartanlega velkominn aftur heim í Gróttu.

Myndir: Eyjólfur Garðarsson 

Antoine og U18 ára landsliðið í 2.sæti

Seinustu daga hefur U18 ára landslið karla með okkar manni Antoine Óskari Pantano leikið á sterku æfingamóti í Þýskalandi sem ber heitið Sparkassen Cup. 6 þjóðum er boðin þátttaka á mótinu og í ár voru það auk Íslendinga, Ungverjar, Slóvenar, Svisslendingar, Hollendingar, Belgar auk heimamanna í Þýskalandi og úrvalsliðs Saar-héraðs en mótið fer einmitt þar fram.

Íslendingar léku í riðli með Belgum, Saar-héraði og Þýskalandi. Ísland vann Saar-hérð og Belga örugglega en tapaði með átta marka mun gegn Þjóðverjum. Í undanúrslitum lék liðið gegn Slóvenum og eftir að hafa verið undir stærstan hluta leiksins jöfnuðu Íslendingar undir lokin og tryggði liðinu vítakeppni. Þar unnu Íslendingar og liðið fékk því farseðilinn í úrslitaleikinn. Þar mætti strákarnir okkar Þjóðverjum aftur. Líkt og í riðlakeppninni voru heimamenn sterkari og Ísland þurfti að láta sér nægja silfurverðlaunin að þessu sinni.

Líkt og liðið í heild sinni stóð Antoine sig vel og skoraði 15 mörk í mótinu. Samhliða því stóð hann varnarleikinn vel. Næsta stóra verkefni U18 ára landsliðs karla er í sumar þegar liðið leikur á EM í ágúst. Það eru því spennandi tímar framundan hjá liðinu.

Myndir: HSÍ – Handknattleikssamband Íslands

Jólatilboð á Gróttu handklæðum

Gróttu handklæði í jólapakkann

Grótta hefur ákveðið að selja hin geysivinsælu og fallegu Gróttu handklæði á sannkölluðu jólatilboði.

Handklæðin kosta núna 3500 kr og eru til sölu hérna í húsinu til klukkan 15.00- en eftir þann tíma að þá er velkomið að hringja í Hörpu, stjórnarmann knattspyrnudeildarinnar, í síma 8960118 til að nálgast handlæðin.

Frábær gjöf í jólapakkann þetta árið- Áfram Grótta.

Tommi til AZ Alkmaar

Tómas Johannessen hefur gengið til liðs við hollenska úrvalsdeildarfélagið AZ Alkmaar og gerir við það þriggja ára samning. Tommi er 16 ára gamall og lék þrátt fyrir ungan aldur lykilhlutverk með meistaraflokki karla í sumar. Hann er uppalinn Seltirningur og Gróttumaður en lék um skeið með Val.

Heimasíða AZ greinir frá skiptunum: http://www.az.nl/nl/nieuws/johannessen-tekent-bij-az…

Þar segir Paul Brandenburg yfirmaður akademíu AZ: „Tómas er framsækinn, teknískur og skapandi miðjumaður. Með þessa eiginleika að vopni getur hann lagt sitt að mörkum fyrir AZ í framtíðinni.”

Tómas er spenntur fyrir komandi tímum: ,,Ég er spenntur fyrir þessu næsta skrefi í mínum ferli. AZ er mjög góður klúbbur sem hentar mínum leikstíl. Ég var á reynslu hjá þeim í nóvember og fékk geggjaðar móttökur frá öllum í klúbbnum. Ég er búin að eiga frábær ár hjá Gróttu frá því ég var 4 ára og síðustu 2 ár með meistaraflokknum hafa reynst mér mjög vel. Lærði mikið þar af þjálfara og öllum leikmönnunum liðsins. Vil því bara segja takk fyrir mig Grótta”

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Tómasi og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þetta stóra skref og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans á næstu misserum.

Andri Fannar valinn í U20 ára landsliðið

Á dögunum var valið í öll yngri landslið karla. Í U20 ára landsliðinu áttum við hinn örvhenta Andra Fannar Elísson. Andri Fannar er búinn að koma vel inn í Gróttuliðið og hefur skorað 29 mörk með liðinu það sem af er Olísdeildinni.

Þjálfarar U20 ára landsliðsins eru Einar Andri Einarsson og Halldór Jóhann Sigfússon. Við óskum Andra Fannari til hamingju með valið sem og góðs gengis á æfingunum næstu daga.

Antoine Óskar valinn í U18 ára landsliðið

Á dögunum var valið í U18 ára landslið karla fyrir næsta verkefni sem verður í lok desember. Í hópnum var Antoine Óskar Pantano líkt og undanfarin skipti. Liðið mun koma saman 18.desember og æfa fram að jólum. Milli jóla og nýárs mun liðið síðan fara á geysisterkt æfingamót í Þýskalandi, Sparkassen Cup.

Antoine Óskar hélt upp á þetta val með virkilega flottum leik með meistaraflokki gegn Selfyssingum þar sem hann skoraði 5 mörk, var með 6 sköpuð færi fyrir liðsfélaga sína og eitt fiskað víti.

Til hamingju Antoine og gangi þér vel !

Antoine framlengir til 2026

Antoine Óskar Pantano hefur skrifað undir nýjan samning við Handknattleiksdeild Gróttu sem gildir út tímabilið 2026. Antoine er 17 ára gamall leikstjórnandi og hefur heldur betur stimplað sig inn í Olísdeildina í vetur með góðri frammistöðu. Hann hefur skorað 11 mörk og skapað 22 marktækifæri fyrir liðsfélaga sína í þeim 9 leikjum sem búnir eru.

Antoine Óskar er lykilleikmaður í U18 ára landsliði karla en liðið endaði endaði í 5.sæti á Opna Evrópumótinu í Svíþjóð og 5.sæti á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Slóveníu síðastliðið sumar.

Það eru miklar gleðifréttir að Antoine leiki í Gróttutreyjunni næstu árin enda framtíðarleikmaður meistaraflokks.

Ari Pétur framlengir til 2026

Ari Pétur Eiríksson hefur framlengt samning sinn við Handknattleiksdeild Gróttu til ársins 2026. Ara Pétur þarf vart að kynna fyrir Gróttufólk enda hefur hann leikið 90 leiki fyrir félagið. Hann er 21 árs gamall og leikur sem hægri skytta. Ari Pétur hefur skorað 17 mörk sem af er Olísdeildarinnar. Þess fyrir utan er hann með 28 sköpuð færi fyrir liðsfélaga sína.

Ari Pétur hefur leikið með flestum yngri landsliðum Íslands. Það eru gleðifréttir að Ari Pétur verði áfram í herbúðum Gróttu. Miklar vonir eru bundnar við þennan uppalda Gróttumann og verður spennandi sjá hann næstu misserin.

Grótta leitar að framkvæmdastjóra

Íþróttafélagið Grótta auglýsir til umsóknar starf framkvæmdastjóra félagsins. Leitað er eftir einstaklingi sem er kraftmikill leiðtogi sem fer fyrir hópi öflugra starfsmanna og vinnur að uppbyggingu Gróttu í takti við framtíðarsýn félagsins. Starfið er fjölbreytt og krefjandi og eru mikil tækifæri fyrir nýjan aðila að hafa mótandi áhrif á félagið.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri Gróttu sem og fjármálum og rekstri mannvirkja um heyra undir Aðalstjórn félagsins. Innan Gróttu starfa þrjár deildir; Fimleikadeild, Handknattleiksdeild og Knattspyrnudeild, með um 1000 iðkendur og tugi þjálfara.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023. Við hvetjum öll kyn til að sækja um. Unnið verður úr umsóknum jafnóðum og þær berast og því hvetjum við umsækjendur til að sækja um sem fyrst.

Helstu verkefni og ábyrgð

·        Ábyrgð á allri starfsemi félagsins, mannauðsmálum, rekstri deilda og fjármálum

·        Stefnumótun og eftirfylgni hennar, markmiðasetning og ferla- og umbótarvinna

·        Rekstraráætlanagerð og tekjuöflun í samstarfi við stjórnir, auk markaðssetning félagins

·        Ábyrgð á innri og ytri upplýsingagjöf í samræmi við stefnu Gróttu og í samvinnu við deildir

·        Umsjón með markaðssetningu Gróttu og stærri viðburðum félagsins

·        Ber ábyrgð á starfsmannahaldi félagsins og skipuleggur verkefni og verksvið

·        Stuðlar að því að efla félagsandann og vinnur að uppbyggingu félagsins

·        Ber ábyrgð á samningum félagsins og vinnur með deildum í samningagerð þeirra

·        Sér til þess að rekstur félagsins, mannvirkja og skrifstofu sé hagkvæmur og árangursríkur

·        Stuðningur við stjórnir deilda og sjálfboðaliða félagsins

·        Rekstur og viðhald mannvirkja og aðstaða félagsins

·        Leiðir samskipti við sérsambönd og opinbera aðila

·        Umsjón aðalstjórnarfunda ásamt eftirfylgni með ákvörðunum funda

·        Önnur tilfallandi verkefni

Menntunar- og hæfniskröfur

·        Mikil hæfni í samskiptum og sterk leiðtoga- og skipulagshæfni

·        Háskólamenntun sem nýtist í starfi

·        Hefur góða innsýn í og reynslu af stjórnun, rekstri og fjármálum

·        Frumkvæði, áræðni og jákvætt viðhorf

·        Sjálfstæð og öguð vinnubrögð

·        Reynsla og þekking á íþróttastarfsemi og rekstri innan íþróttahreyfingarinnar er kostur.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023.
Sótt er um starfið á umsóknarvef Alfreðs: Íþróttafélagið Grótta (alfred.is)
Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á grotta@grotta.is