Skip to content

Vinnan er rétt að byrja

Eins og kunnugt er tryggði meistaraflokkur karla sér sæti í Inkasso-deildinni, næst efstu deild, laugardaginn 22. september, þegar liðið sigraði Hugin fyrir framan fulla stúku í frábæru haustveðri. Gróttuliðið vakti verðskuldaða athygli á árinu en liðið var það yngsta á landinu og nálgaðist leikina á annan hátt en gengur og gerist.

En hvað gerist á næsta ári þegar Grótta mætir öflugri andstæðingum? Eru drengirnir reiðubúnir til að taka næsta skref?

Fréttastofa Gróttusport settist niður með Óskari Hrafni Þorvaldssyni, þjálfara Gróttu, og ræddi við hann um hugrekki, sóknarbolta og framtíðina hjá Gróttu.

Óskar tók við þjálfun meistaraflokks síðasta haust eftir að hafa þjálfað yngri flokka um nokkurt skeið hjá KR og Gróttu. Var eitthvað við meistaraflokksstarfið sem kom Óskari á óvart?

Já, það var eiginlega tvennt sem kom á óvart. Í fyrsta lagi kom á óvart hversu vel það gekk að fá leikmenn til að spila fótbolta á djarfari hátt en hátt en þeir höfðu gert áður. Í framhaldi af því kom á óvart hversu vel það gekk að yfirfæra það sem við gerðum á æfingum yfir í leiki. Það má í raun segja að undirbúningstímabilið hafi gengið vonum framar og að innleiðing leikstílsins hafi tekist betur og hraðar en maður gat látið sig dreyma um. Í því samhengi skipti frábært hugarfar strákanna í liðinu miklu máli.

Upphaflega var aðalmarkmið liðsins ekki að fara upp en á kynningarkvöldinu í maí var ljóst að stefnan var sett í Inkasso-deildina. Á hvaða tímapunkti breyttust markmiðin?

Það er rétt – í upphafi sáum við það ekki sem raunhæft markmið að fara beint upp í 1. deild með mikið breytt lið og annan leikstíl. En leikmenn tóku eiginlega af skarið í æfingaferð á Spáni. Nánar tiltekið á markmiðafundi þann 29. mars, föstudaginn langa. Þá kom í raun og veru í ljós að menn voru sammála um að miðað við spilamennsku liðsins í undirbúningsleikjunum og andann í hópnum var ekkert annað í stöðunni en að stefna að því að fara upp. Okkur var svo spáð efsta sæti deildarinnar og mönnum fannst engin ástæða til að fela markmiðin eitthvað. Það hefði verið mótsögn við eitt af gildum liðsins og knattspyrnudeildar Gróttu sem er hugrekki. Bæði þarftu að þora að gera hlutina inni á vellinum en maður þarf líka að þora að segja þá. Trúa á sjálfan sig. Versta sem gat þá gerst var að menn myndu ekki ná markmiðinu. Og hvað? Hefði eitthvað hræðilegt gerst þá? Það held ég ekki

Kom einhvern tímann upp hjá ykkur þjálfurunum að breyta um stíl og spila “öruggari” fótbolta til að auka líkur á að ná í stig?

Við ákváðum strax að gefa engan afslátt af hugmyndafræðinni til að leikmennirnir myndu venjast því hraðar að spila á þennan hátt. Þessi stefna hefur gefist vel í yngri flokkunum hjá Gróttu og af hverju þá ekki að færa hana alla leið upp í meistaraflokk?

En að því sögðu að þá er að alveg ljóst að eftir 6-0 tapið á móti Vestra á Ísafirði að þá ákváðum við að nálgast grasleikina á annan hátt. Það er mikill munur á því að spila á rennisléttum Vivaldivellinum og misgóðum grasvöllum úti á landi. Svo er það líklega í eðli mannskepnunnar að standa varlega upp þegar þú ert sleginn niður. Svo við vorum mun varkárari en vanalega í útileikjunum við Hugin og Þrótt Vogum sem komu í kjölfarið á leiknum við Vestra þó að grunnstefið hafi verið að verjast hátt og spila boltanum.

En að styrkja liðið, til dæmis í glugganum?

Við fengum Valtý (Má Michelsson) í glugganum en hann passaði fullkomlega inn í prógrammið. Þá kom Pétur Theodór til baka úr Kríu sem var mjög ánægjulegt enda var Björn Axel á leið aftur til Bandaríkjanna. Jú auðvitað komu upp augnablik þar sem menn veltu fyrir sér hvort það væri ef til vill sterkt að sækja reyndari mann hér eða reyndari mann þar. En ég held að það hafi verið eins gott að menn hafi ekki freistast til að sækja liðsstyrk sem hefði stytt þeim leið í átt að markmiðinu. Það hefði ekki verið gott til lengri tíma litið.

Hvernig spratt þessi mikli áhugi Óskars á að spila blússandi, áhættusaman sóknarfótbolta? Er þetta aðferð til að aðgreina sig frá öðrum þjálfurum?

Vildi að ég gæti sagt dramatíska sögu þar sem eldingu sló niður í hausinn á mér. En þetta þróaðist bara einhvern veginn í gegnum árin. Mér þykir skemmtilegra að horfa á sóknarfótbolta á meðan öðrum finnst skemmtilegra að horfa á dýnamísk 0-0 jafntefli með frábærum varnarleik. Mér finnst skemmtilegra að sjá liðið mitt vera með boltann og að liðið mitt taki áhættur. Það tekur mig mjög stuttan tíma að fyrirgefa leikmönnum það að taka áhættur svo lengi sem þeir reyna. Jafnvel þó það sé þríhyrningaspil inni í eigin vítateig. En á erfitt með að fyrirgefa þegar menn þora ekki – bomba fram undir engri pressu og svo framvegis. Og eftir því sem maður þjálfar meira lærir maður meira um sjálfan sig. Við munum ekki spila öðruvísi fótbolta í Inkasso-deildinni. Við munum hjóla í öll lið og reyna að ná frumkvæðinu í leikjum. Og ég veit að strákarnir hafa engan áhuga á neinu öðru.

Með því er ég ekki að segja að það að verjast og það að spila varnarleik til að ná árangri sé einhver glæpur eða höfuðsynd. Nú eða að það sé verra en ég er að gera. Það er bara ekki fyrir mig. Ég ber ekkert minni virðingu fyrir mönnum sem reyna að ná árangri með því að spila varnarleik. Það er engin ein leið til að ná árangri í fótbolta.

Kris van der Haegen, yfirmaður þjálfaramenntunar hjá belgíska knattspyrnusambandinu, hélt erindi hjá KSÍ um daginn þar sem hann talaði mikið um að Belgar legðu í yngri flokka þjálfun sinni áherslu á svipaðar hugmyndir og þú hefur í hávegum: Að taka áhættur og gera mistök til að bæta sig. Af hverju er þetta ekki algengara en raun ber vitni?

Því get ég nú ekki svarað. En það er alveg ljóst að þessi hugmyndafræði hefur verið við lýði í yngri flokkum Gróttu á síðustu árum þar sem krakkarnir hafa verið hvattir til að taka áhættur og gera mistök því ef þú gerir það ekki að þá lærirðu ekki. Framförum leikmanna hefur ekki verið fórnað á altari árangurs. Reynt hefur verið að búa til umhverfi sem er ekki stýrt af óttanum við að misheppnast heldur af kjarkinum til að láta eitthvað heppnast.

Grótta hefur skilgreint sig sem félag sem hugsar vel um fólkið sitt og hjálpar leikmönnum að bæta sig. Ákveðin gildi eru höfð í hávegum og fólk hefur hugmynd um hvert það stefnir. En það er þó mikilvægt að allir átti sig á því að vinnan er rétt að byrja.

Fyrir síðustu fjóra heimaleikina hitti Óskar stuðningsmenn Gróttu um 40 mínútum fyrir leik og ræddi um byrjunarlið og leikplan liðsins. Við spyrjum Óskar hvort að það hafi hjálpað til við að auka áhuga fólks á starfinu.

Ég held að öll samskipti þjálfara og leikmanna við hinn almenna Gróttumann séu af hinu góða og mitt markmið með þessu var að færa fólk nær liðinu. Það var hópur úr þjálfarateymi yngri flokkanna sem lagði mikinn metnað í það að skapa stemningu í kringum síðustu leikina okkar og auðvitað vildi maður taka þátt í því. Tvisvar sýndum við myndband sem við höfðum sýnt liðinu til að fólk myndi fá betri hugmynd um það sem við værum að gera. Tengjast liðinu á annan hátt en að sitja í stúkunni og horfa á leikinn. Eftir því sem fleiri bæjarbúar geta fundið samsvörun með liðinu og telja sig eiga einhvern smá hluta í því þá verður auðveldara að búa til stemningu.

Hvernig sérðu næsta tímabil fyrir þér?

Það er mikilvægt að það komi fram að þó við séum komnir upp um deild að þá verður ekki hvikað frá þeim hugmyndum sem lagt var af stað með í upphafi. Leikstíllinn verður sá sami, aldurssamsetningin svipuð og það verða ekki sóttir leikmenn nema þeir sem við teljum að styrki byrjunarliðið.

Við æfðum mikið á síðasta tímabili en á því næsta munum við bæta í. Við teljum að hópurinn sé tilbúinn til þess og að það sé lykilþáttur í að geta gert góða hluti í deildinni næsta sumar. Við vorum lánsamir að geta bætt þjálfun liðsins með ýmsum nýjungum eins og GPS-mælingum, meiri styrktarþjálfun, nuddara og bætiefnum. Stefnan að sjálfsögðu sett á að gera enn betur í þessum málum með hjálp félagsins og góðra bakhjarla.

Eitthvað að lokum?

Stemningin sem myndaðist í kringum leikina seinni part sumars var frábær og við sem komum að liðinu vonum auðvitað að sú stemning fylgi okkur inn í vorið þegar nýtt tímabil hefst. Við erum ótrúlega þakklátir fyrir stuðninginn og það væri draumur að spila fyrsta leikinn í Inkasso-deildinni fyrir framan fulla stúku!

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Information

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar