Skip to content

Magnús Örn ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna

Knattspyrnudeild Gróttu hefur gengið frá ráðningu Magnúsar Arnar Helgasonar sem þjálfara meistaraflokks kvenna. Magnús tekur við af Guðjóni Kristinssyni sem hefur þjálfað Gróttuliðið frá því að meistaraflokkur kvenna var settur á laggirnar hjá félaginu í janúar 2016. Undir stjórn Guðjóns endaði Grótta í 4. sæti 2. deildar kvenna í sumar en í fyrra var liðið í 6. sæti.

Magnús Örn er Gróttufólki að góðu kunnur en hann hefur þjálfað yngri flokka félagsins síðustu tíu ár við góðan orðstír. Magnús er 29 ára gamall, fæddur og uppalinn Seltirningur. Hann lék upp yngri flokkana með Gróttu og var í meistaraflokki frá 2007-2012. Haustið 2014 tók Maggi við sem yfirþjálfari yngri flokka og sinnti því starfi í þrjú ár. Vorið 2016 var Gróttuleiðin gefin út en Maggi, ásamt Bjarka Má Ólafssyni, hafði veg og vanda að útgáfu þessarar handbókar knattspyrnudeildarinnar sem hefur vakið verðskuldaða athygli í fótboltaheiminum.

Á liðnu tímabili stýrði Magnús Örn 2. flokki kvenna, 3. flokki karla ásamt Óskari Hrafni Þorvaldssyni og 6. flokki kvenna ásamt Eydísi Lilju Eysteinsdóttur. Þá kom Maggi inn í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna í maí og aðstoðaði við þjálfun liðsins þegar tækifæri gáfust. Meðfram starfi sínu hjá Gróttu hefur Magnús sinnt einstaka verkefnum fyrir KSÍ en hann fór meðal annars með U17 landsliði kvenna í milliriðil fyrir EM í mars. Magnús Örn er með UEFA-A þjálfaragráðu og B.Sc gráðu í íþróttafræði frá HR.

Stjórn knattspyrnudeildar fagnar ráðningu Magnúsar:

,,Með ráðningu Magga, sem verður í fullu starfi hjá Gróttu, gefst tækifæri til að setja enn meiri kraft í meistaraflokk kvenna sem á undanförnum árum hefur fest sig í sessi. Maggi er þekktur fyrir mikinn eldmóð, faglegan metnað og drífandi starf í þágu félagsins og höfum við miklar væntingar til hans. Stjórn knattspyrnudeildar þakkar um leið fráfarandi þjálfara, Guðjóni Kristinssyni, fyrir gríðarlega mikilvægt framlag í þágu uppbyggingarstarfs flokksins.”

Magnús Örn hafði þetta um málið að segja:

„Þetta er mjög spennandi verkefni og ég hlakka mikið til að byrja. Ég tek við góðu búi af Gauja sem hefur unnið frábært starf síðustu þrjú tímabil við að koma meistaraflokki kvenna á laggirnar. Nú þarf að halda uppbyggingunni áfram og nýta kraftinn og orkuna sem hefur einkennt fótboltann í Gróttu að undanförnu.’’

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print