Skip to content

Rúmlega 70 Gróttustelpur á Símamótinu

Rúmlega 70 Gróttustelpur spiluðu á Símamótinu helgina 8.-10. júlí, stærsta fótboltamóti landsins, sem er haldið ár hvert í Kópavogi. Grótta fór með 11 lið á mótið, fjögur úr 7. flokki, fimm úr 6. flokki og tvö úr 5. flokki. Leikið var á vallarsvæðum Breiðabliks föstudag, laugardag og sunnudag en mótið hófst með skrúðgöngu á Kópavogsvelli á fimmtudagskvöld. Símamótið verður að teljast hápunktur ársins hjá knattspyrnustúlkum um allt land, þar sem fótbolti er spilaður í þrjá daga og ógleymanlegar minningar skapaðar. Gróttustelpur mættu ákveðnar til leiks, sýndu dugnað og baráttuvilja og spiluðu fallegan fótbolta. Gróttuliðin hétu öll eftir leikmönnum meistaraflokks kvenna líkt og í fyrra og skapaði það góða stemningu. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum kíktu leikmenn meistaraflokks kvenna á sín lið um helgina sem vakti mikla lukku meðal stelpnanna.
Eitt Gróttulið fór heim með bikar og eitt með silfurmedalíu, en öll liðin stóðu sig ótrúlega vel. Grótta Edda Steingríms í 6. flokki sigldi sigri heim í úrslitaleik gegn Víking. Leikurinn fór 4-3 og var gríðarlega spennandi en sigurmarkið var skorað á síðustu mínútunni. Grótta Tinna Bjarkar í 6. flokki komst einnig í úrslit en tapaði naumlega 3-2 gegn Stjörnunni í úrslitaleik og þurftu stelpurnar að sætta sig við silfrið eftir ótrúlegan baráttuleik. Grótta Lilja Lív í 6. flokki komst alla leið í undanúrslit í hæsta styrkleikaflokki 6. flokks á mótinu en laut lægra haldi fyrir Val í undanúrslitum, 3-2, eftir hörkuleik. Grótta Lilja Lív mega þó vera stoltar af því að hafa verið meðal top fjögurra liða af 160 liðum í 6. flokki á mótinu, en Grótta er svo sannarlega hreykið af þeim árangri. Grótta Margrét Rán í 5. flokki komst einnig í undanúrslit og nældi sér í 3. sætið eftir góðan sigur gegn FH.
Gróttustúlkur höfðu beðið lengi í eftirvæntingu eftir Símamótinu og það má segja að það hafi heldur betur staðið undir væntingum. Stelpurnar skemmtu sér vel og eru eflaust farnar að telja niður í næsta Símamót! 

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print