Skip to content

2.sætið á Norðlenska Greifamótinu

Meistaraflokkur karla í handbolta stóð í ströngu um helgina þar sem þeir tóku þátt í Norðlenska Greifamótinu á Akureyri. Mótið sem er æfingarmót er stór hluti af undirbúningi liðsins fyrir Olís deildina sem hefst 9.september n.k.

Alls tóku 6 karlalið þátt í mótinu, þar af 5 lið sem leika í efstu deild og enduðu strákarnir mótið í 2.sæti eftir að hafa tapað úrslitaleik gegn Stjörnunni á laugardag.

Gróttu-liðið hóf leik á fimmtudag gegn heimamönnum í KA. Strax frá fyrstu mínútu var talsverð harka í leiknum og allt í járnum og var staðan í hálfleik 10-10. Áframhald var á hörkunni í byrjun síðari hálfleik en þegar um 10 mínútur voru liðnar af honum lokaðist Gróttu-vörnin og Hreiðar Levý skellti í lás fyrir aftan og skoraði KA ekki í 12 mínútur náði Gróttu-liðið 6 marka forystu á þeim kafla. KA menn komu þó til baka en á endanum dugði áhlaup þeirra ekki og vann Grótta eins marks sigur 24-25.

Markahæstir Gróttu í leiknum: Jóhann Reynir 9 mörk, Sveinn José, Ágúst Emil og Sigfús Páll með 3 mörk hvor.

Á föstudag spilaði Gróttu-liðið við ÍR-inga og eftir að staðan hafði verið jöfn 11-11 í hálfleik og 17-17 um miðjan síðari hálfleikinn skipti Gróttu-liðið um gír og sigldi nokkuð örugglega framhjá sprækum ÍR-ingum sem tefldu fram nokkuð ungu liði og unnu að lokum 6 marka sigur 22-28.

Markahæstir Gróttu í leiknum: Jóhann Reynir 9 mörk, Árni Benedikt og Hannes Grimm 5 mörk hvor. En einnig ber að nefna frammistöðu Gellis Michaelssonar sem fór hamförum sóknarlega og átti hverja perlu stoðsendinguna á fætur annari á línumenn liðsins.

Á laugardag fór svo fram úrslitaleikur mótsins þar sem Grótta og Stjarnan leiddu saman hesta sína, eftir að hafa byrjað leikinn af miklum krafti tóku Stjörnumenn hægt og rólega yfir leikinn í fyrri hálfleik og leiddu að honum loknum 11-14. Stjörnumenn héldu áfram öllum völdum á vellinum fram í miðjan síðari hálfleik en þá kom vítamínssprauta í Gróttu-liðið sem gaf í og minnkaði muninn í 1 mark þegar skammt lifði leiks, það dugði því miður ekki og fóru Stjörnumenn með sigur af hólmi 26-22.

Markahæstir Gróttu í leiknum: Jóhann Reynir með 9 mörk og Magnús Öder með 7 mörk.

Leikirnir voru kærkomnir í undirbúning liðsins fyrir átökin í Olís-deildinni og mikilvægt fyrir hópinn að fá þessa leiki til að spila sig saman. Mörg ný andlit leika nú með Gróttu liðinu frá því í fyrra og mun Gróttasport fara á stúfana næstu daga og kynna nýja leikmenn nánar á næstu dögum.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print