Um helgina fór fram Bikarmót 2025 í áhalda- og hópfimleikum, þar sem fremsta fimleikafólk landsins keppti um titlana. Mótið var haldið af Fjölni í Egilshöll, og óhætt er að segja að sannkölluð fimleikaveisla átti sér stað. Grótta sendi sex lið til keppni ásamt tveimur gestum í frjálsu þrepi og 2. þrepi fimleikastigans. Liðin stóðu sig með prýði.
Í 3. þrepi A-deild tryggði lið Gróttu sér titil bikarmeistara með frábæra útkomu, 223.196 stig. Liðið skipuðu Mjöll Jónsdóttir, Sigurrós Ylfa Rúnarsdóttir, Þuríður Katrín Kistinsdóttir, Fanney Petrea L. Arnórsdóttir, Sigríður Lára Indriðadóttir og Sunna Mist Sheehen. Það er einnig vert að nefna að Grótta var með yngsta liðið í keppninni, og óskum við þeim innilega til hamingju með stórkostlegan árangur.
Í 3. þrepi B-deild hafnaði lið Gróttu í 2. sæti, og óskum við stelpunum innilega til hamingju með glæsilegan árangur. Liðið skipuðu Guðrún Jakóbína Eiríksdóttir, Margrét Helga Geirsdóttir, Magnea Margrét Þorsteinsdóttir, Hrefna Höskuldsdóttir Rafnar, Sigurlaug Margrét Pétursdóttir og Mirra Kjartansdóttir.
Hópfimleikadeild Gróttu sendi fjögur lið til keppni, og sýndu liðin miklar framfarir. Lið 3. flokks í A-deild hafnaði í 4. sæti, og verður gaman að fylgjast með þeim á Íslandsmeistaramótinu í hópfimleikum, sem fram fer á Akranesi 10.–13. apríl. Óhætt er að segja að framtíðin sé björt í fimleikadeild Gróttu.










