Skip to content

Freyja íþróttakona Gróttu 2022

Íþróttakona Gróttu 2022 var valin fimleikakonan Freyja Hannesdóttir á athöfn sem var haldin í Hátíðarsal Gróttu miðvikudaginn 11 janúar til að fagna íþróttaárinu 2022 hjá félaginu. 

Freyja Hannesdóttir hefur æft áhaldafimleika hjá Gróttu í 10 ár. Hún er með skýr markmið og leggur mikið á sig til að ná þeim. Hún er mikilvægur liðsfélagi í meistaraflokki Gróttu og fyrirmynd æfingafélagana. Hún varð Íslandsmeistari unglinga árið 2021 og keppti með unglingalandsliðinu það sama ár. Árið 2022 var fyrsta ár Freyju í fullorðinsflokki og stimplaði hún sig strax inn í hóp þeirra bestu. Á Íslandsmótinu keppti hún á tvíslá og slá og komst í úrslit á báðum áhöldum þar sem að hún varð í 5. sæti. Hún var í bikarliði Gróttu sem að varð í 3. sæti af samtals 9 liðum sem að kepptu á Bikarmóti FSÍ. Freyja kom sterk inn í veturinn og var valin í æfingahóp fyrir Noður Evrópumót. Á Haustmóti FSÍ varð hún í 4. sæti í fjölþraut og sigraði á stökki og varð í 3. sæti á tvíslá. 

Aðrar sem voru tilnefndar til íþróttakonu Gróttu eru Katrín Anna Ásmundsdóttir handbolta og knattspyrnukonan Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print