Skip to content

Uppskeruhátíð knattspyrnudeildarinnar

Uppskeruhátíð knattspyrnudeildar Gróttu fór fram í hátíðarsal Gróttu í gær. Í fyrsta holli var 5. – 8. flokkur þar sem flokkarnir voru fengnir upp, þjálfarar sögðu nokkur orð og allir fengu viðurkenningarskjöl. Í lokin var krökkunum síðan boðið upp á ís frá Kjörís svo allir fóru glaðir heim.

Í seinna hollinu komu 2. – 4. flokkur, og gaman var að sjá hvað margar stelpur úr Gróttu/KR komu, þrátt fyrir að þeirra uppskeruhátíð hafi verið haldin í KR í síðustu viku. Þjálfarar sögðu nokkur orð um liðið tímabil og nokkrar skemmtilegar sögur komu fram, enda viðburðarríkt sumar á enda hjá flokkunum.

Þeir sem tóku þátt í landsliðsverkefnum á vegum KSÍ á árinu voru fengnir upp og heiðraðir, og eins og sést á meðfylgjandi myndum voru það ansi margir!

Einnig voru 4 leikmenn sem spiluðu landsleik á árinu, en það voru þeir Grímur Ingi Jakobsson, Hákon Rafn Valdimarsson, Krummi Kaldal Jóhannsson og Orri Steinn Óskarsson, en þeir fengu innrammaða mynd af sér úr fyrsta landsleiknum sínum.

Útskriftarárangur úr 2. flokki, krakkar fædd 1999, voru útskrifaðir úr yngri flokkum með rós.

Sjálfboðaliða verðlaunin voru veitt í þriðja skiptið og í ár var það okkar eini sanni Eyjólfur Garðarsson sem hneppti verðlaunin. Eins og allt Gróttufólk þekkir þá er Eyjó ljósmyndari og er gríðarlega duglegur að koma og taka myndir af öllum aldurshópum í Gróttu, og erum við honum mjög þakklát.

Dómaraverðlaun voru veitt í fyrsta sinn, en það var hann Markús Þórðarson úr 4. flokki sem hlaut verðlaunin, eftir að hafa sýnt mikinn áhuga fyrir dómgæslu í sumar.

Hákon Rafn Valdimarsson hlaut Ísbjarnarbikarinn, en þetta er í 15 skipti sem verðlaunin eru veitt. Ísbjarnarbikarinn hlýtur leikmaður í 2. flokki sem hefur skarað fram úr á tímabilinu. Að uppskeruhátíðinni lokinni var boðið upp á pizzur frá Dominos 🍕

Þjálfarar og stjórnarmenn þakka fyrir liðið tímabil og hlakka til þess næsta!

Fleiri myndir má finna á facebook síðu knattspyrnudeildarinnar.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print