Skip to content

Maggi og Óskar yfirþjálfarar knattspyrnudeildar – Viðtal

Magnús Örn Helgason og Óskar Hrafn Þorvaldsson hafa gengið frá samningum við knattspyrnudeild Gróttu og munu þeir báðir starfa sem yfirþjálfarar ásamt því að þjálfa tvo flokka hvor hjá deildinni. Fréttastofa Gróttusport setti sig í samband við yfirþjálfarana tvo og ræddi við þá um komandi tímabil og þá nýbreytni að hafa tvo yfirþjálfara við störf.

Magnús Örn er Gróttufólki að góðu kunnur. Hann er fæddur og uppalinn Gróttumaður og hefur þjálfað hjá Gróttu með hléum frá árinu 2007. Hann útskrifaðist í vor með B.Sc. gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og lauk um svipað leyti UEFA-A þjálfaraprófi. Magnús er að hefja sitt þriðja tímabil sem yfirþjálfari hjá knattspyrnudeild og því er ekki úr vegi að spyrja hvernig honum lítist á að deila stöðunni með öðrum þjálfara? Er hann ef til vill svekktur að halda ekki lengur einn um stjórnartaumana?

Svekktur? Nei þvert á móti að þá er mjög ánægður og að fagna ráðningu Óskars til okkar. Ég er búinn að vera að kalla eftir því að fá annan aðila með mér í yfirumsjón yngri flokkanna og finnst mér það lýsa miklum metnaði hjá Gróttu að hafa ráðið Óskar. Ég hef síðustu tvö ár oft verið að pirra mig á að ná ekki að sinna öllum verkefnum nægilega vel en nú ættum við að geta tekið mörg skref fram á við með frábært þjálfarateymi og tvo yfirþjálfara.

En hvernig munuð þið Óskar skipta með ykkur verkum?

Í stuttu máli mun ég sinna praktískum málum og Óskar faglegum. Ég sé til þess að öll hjól snúist í réttar áttir á meðan Óskar vinnur í því að auka gæðin í því sem við erum að gera úti á velli og að hjálpa þjálfurunum okkar að bæta sig. Annars erum við í góðu sambandi og munum vinna vel saman.

Óskar Hrafn er 43 ára gamall fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu. Óskar sneri aftur í þjálfun haustið 2014 þegar hann tók við 2. flokki KR en á liðnu tímabili þjálfaði hann 2. flokk KR og 4. flokk Gróttu. Líkt og Maggi lauk Óskar UEFA-A prófi í vor og mun nú starfa sem yfirþjálfari ásamt því að þjálfa 5. flokk kvenna og 4. flokk karla. Við spyrjum Óskar hvernig honum lítist á komandi tímabil og nýtt hlutverk hjá Gróttu?

Mér líst ljómandi vel á þetta allt saman og það verður gaman að koma inn í starfið hjá Gróttu af fullum krafti. Hjá félaginu starfar fullt af frábæru fólki svo ekki sé talað um öfluga hópa leikmanna hjá bæði stelpum og strákum.

Það er ekki úr vegi að spyrja nýráðinn yfirþjálfara hvort að hann ætli sér að koma með nýjar áherslur inn í starfið?

Fyrst og fremst er mikilvægt að byggja ofan á það sem vel hefur verið gert síðustu ár. Svo reynir maður í samvinnu við alla sem koma að starfi deildarinnar að gera það sem er gott ennþá betra. Þeir sem hafa fylgst með mínum þjálfaraferli, sem eru nú sennilega ekkert sérstaklega margir, vita að mér er afar umhugað um að spila góðan fótbolta en það hefur einmitt verið stefnan hjá Gróttu síðustu ár. Í stuttu máli er gríðarlega mikilvægt að fórna ekki framförum leikmanna á altari árangurs.

Fréttastofa Gróttusport þakkar þeim Magga og Óskari kærlega fyrir spjallið og hlakkar sannarlega til að fylgjast með því spennandi starfi sem unnið er í yngri flokkum Gróttu á næstu mánuðum.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print