Skip to content

Jórunn ráðinn verkefnastjóri knattspyrnudeildar

Jórunn María Þorsteinsdóttir hefur verið ráðinn verkefnastjóri hjá knattspyrnudeild Gróttu. Um er að ræða nýtt starf sem hefur verið bígerð um nokkurt skeið og er þetta mikilvægt skref í áframhaldandi framþróun deildarinnar. Starfssvið Jórunnar verður fjölbreytt en hún mun meðal annars stýra dómaramálum, kynningarmálum og hafa umsjón með heimaleikjum meistaraflokkanna í sumar. Þá verður Jórunn skólastjóri í knattspyrnuskóla Gróttu í sumar og þar með verkstjóri þeirra ungmenna sem munu starfa á Vivaldivellinum.

Hildur Ólafsdótir er í stjórn knattspyrnudeildar:

„Verkefnastjórastaðan er kærkomin viðbót við knattspyrnudeildina sem mun vonandi gera starfið bæði markvissara og skilvirkara. Jórunn hefur áður komið að starfi deildarinnar sem þjálfari yngri flokka og sýndi þar mikinn metnað og frumkvæði. Því er stjórn knattspyrnudeildar afar spennt að fá hana til liðs við hópinn aftur og býður hana velkomna til starfa.“

Jórunn Marína Þorsteinsdóttir, nýráðin verkefnastjóri knattspyrnudeildar, og Hildur Ólafsdóttir, stjórnarmaður í knattspyrnudeild.

Fréttastofa Gróttusport heyrði svo hljóðið í Jórunni sjálfri sem kveðst spennt fyrir því að hefja störf:

„Þetta er allt saman mjög spennandi. Það er mikil áskorun að taka við nýju starfi og fá tækifæri til að móta það á næstu mánuðum. Ég er búin að vera með annan fótinn niðri á velli síðan ég byrjaði að æfa fótbolta sjálf og það verður gaman að fá að takast á við fjölbreytt verkefni í samstarfi við gott fólk.“

Þá náði fréttastofan í Bjarka Má Ólafsson, yfirþjálfara yngri flokka, á ellefta tímanum í morgun en hann fagnar ráðningu Jórunnar.

„Það er hugur í knattspyrnudeildinni og er þessi ráðning merki um það. Verkefnastjórinn mun stíga inn í ýmis verkefni og mun vafalaust gera gott starf enn betra. En hvaða áhrif mun þessi breyting hafa á störf Bjarka sem yfirþjálfari?

Þetta mun gefa mér færi á að einbeita mér enn betur að faglega þættingum – þ.e. hvað er að gerast á æfingum og leikjum úti á velli og aðstoða þjálfarana okkar við ýmis mál. Það er frábært að fá Jórunni til starfa – manneskju sem þekkir félagið vel og hefur reynslu af því að starfa með þjálfurum og iðkendum. Jórunn er metnaðarfull og dugleg og mun passa vel inn í þann anda sem skapast hefur á vellinum síðustu árin.“

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print