Bjarki Már Ólafsson hefur verið ráðinn sem yfirþjálfari yngri flokka hjá knattspyrnudeild Gróttu. Bjarki tekur við starfinu af Magnúsi Erni Helgasyni sem mun starfa áfram við þjálfun hjá Gróttu en hann á einnig sæti í stjórn knattspyrnudeildar. Gróttasport heyrði hljóðið í þeim Bjarka og Magnúsi.
Bjarki hefur þjálfað 2. flokk karla hjá Gróttu á þessu tímabili. Einnig stýrt afrekshópi deildarinnar
Bjarki Már er flestu Gróttufólki að góðu kunnur. Hann lék upp yngri flokkana með Gróttu en þurfti að leggja skóna á hilluna aðeins 19 ára gamall vegna hjartagalla. Bjarki sneri sér að þjálfun skömmu síðar og hefur hann þjálfað hjá Gróttu með hléum í fjögur ár. Fréttastofa Gróttusport heyrði hljóðið í Bjarka og spurði hvernig það legðist í hann að taka við þessu mikilvæga starfi aðeins 22 ára gamall?
„Fyrst og fremst er ég gífurlega þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri. Maggi hefur unnið feykilega gott starf á síðustu árum og ég gæti ekki beðið um sterkari grunn til að byggja ofan á. Hjá knattspyrnudeildinni er allt til alls, frábær hópur fólks sem hjálpast að við búa til gott umhverfi og umgjörð fyrir þá áhugasömu krakka sem æfa hjá okkur. Aðstaðan er með besta móti og þátttakan í yngstu flokkunum fer bara vaxandi.
Ég er mjög spenntur að taka við yfirþjálfarastarfinu þar sem kröfurnar eru miklar og mörg tækifæri til staðar fyrir knattspyrnudeildina til að halda áfram að styrkjast og vaxa.“
Má Gróttufólk búast við miklum breytingum með tilkomu þinni í starfið?
„Til að byrja með mun ég vinna mig inn í starfið með Magga og hefjast handa við skipulagningu næsta tímabils. Þegar nýir flokkar hafa tekið til starfa í haust mun fólk sjá einhverjar áherslubreytingar en við munum leitast eftir því að byggja ofan á starf síðustu ára með stefnu deildarinnar að leiðarljósi. Þar er tengingin milli yngri flokka og meistaraflokks mikilvæg þar sem yfirlýst markmið félagsins er byggja á heimafólki.“
Magnús Örn Helgason tók við sem yfirþjálfari haustið 2014 en með honum kom mikill kraftur inn í starf knattspyrnudeildarinnar. Í fyrra var Gróttuleiðin, handbók knattspyrnudeildar Gróttu, gefin út en Magnús og Bjarki Már höfðu einmitt forystu í þeiri vinnu. Það má því sannarlega segja að knattspyrnudeildin leiti inn á við að forystufólki.
„Þetta eru blendnar tilfinningar, það er alveg ljóst. Ég á eftir að sakna þess mikið að vera yfirþjálfari. Þetta er örugglega skemmtilegasta starf í heimi – að fá að vera yfirmaður hjá knattspyrnudeildinni sem þú elst upp í og hefur ástríðu fyrir að gangi vel. Á nákvæmlega sama tíma er ég líka ótrúlega glaður að Bjarki taki við. Ég veit að hann mun vinna af dugnaði og metnaði og koma með nýja strauma inn í starfið. Bjarki er með hjartað á réttum stað og það skiptir öllu máli“ sagði Magnús í samtali við Gróttusport og hélt áfram:
„Ég mun halda áfram að vinna fyrir Gróttu og langar að koma sterkari inn í stjórnina. Ég segi það bara hreint út – við þurfum að stækka fjárhagsáætlunina ef við viljum hafa toppþjálfara í vinnu hjá okkur og setja frekari metnað í þætti eins og líkamlega þjálfun í bæði yngri flokkum og meistaraflokkum. Peningamálin eru á ábyrgð stjórnarinnar og vonandi get ég orðið að liði.
Maggi hefur starfað sem yfirþjálfari í þrjú ár en nú tekur annar traustur Gróttumaður við stjórnartaumunum.
En eru einhverjar líkur á að Magnús ráði sig sem þjálfari til annarra félaga?
„Eins og staðan er núna að þá vil ég bara þjálfa hjá Gróttu hér á landi. Það er samt ekkert leyndarmál að mig langar að vinna við fótbolta einhvers staðar úti í heimi og fer að líta almennilega í kringum mig núna. Hef ekki hugmynd um hvort það sé raunhæfur möguleiki en það kemur bara í ljós.
Að lokum: Hvers áttu eftir sakna mest og minnst við yfirþjálfarastarfið?
„Góð spurning. Þrátt fyrir að það hljómi furðulega að þá á ég örugglega eftir að sakna þess að fá símtöl seint á kvöldin frá þjálfurunum þar sem upp eru komin einhver vandamál sem þarf að leysa. Það er ýmislegt sem kemur upp og alltaf ánægjulegt að leysa málin farsællega. „
Sakna minnst? Neikvæðra foreldra, en sem betur fer eru þeir ekki margir 🙂
Fréttastofa Gróttusport þakkar þeim Bjarka og Magnúsi kærlega fyrir spjallið og óskar Bjarka velfarnaðar í nýju starfi.