Skip to content

6. flokkur karla á Orkumótinu í Eyjum

Það voru 17 galvaskir Gróttudrengir sem héldu í ævintýraferð á Orkumótið í Eyjum í lok júní, áður þekkt sem Shellmótið eða Tommamótið. Veðrið var frábært þegar siglt var með Herjólfi frá Landeyjahöfn og strax fyrsta daginn fóru strákarnir í bátsferð um Eyjarnar.

Keppni hófst á fimmtudeginum og lék Grótta2 meðal annars á Helgafellsvelli sem er líklega einn af fáum fótboltavöllum í heiminum sem er staðsettur á eldfjalli. Strákarnir í Gróttu2 spiluðu glimrandi fótbolta og náðu 2. sæti í sínum riðli fyrstu tvo dagana. Síðasta daginn öttu þeir svo kappi við mjög öflug lið og gerðu tvö jafntefli en tvö töp staðreynd.

Grótta1 byrjaði mótið rólega en á föstudagsmorgni þurfti heldur betur að vakna því framundan voru leikir við tvö af bestu liðum mótsins: Stjörnuna og Þór (sem enduðu á að leika til úrslita). Báðir leikir töpuðust 2-0 en varnarleikur Gróttudrengja var stórgóður og endaði liðið daginn á frábærum sigri á Keflavík. Lokadaginn gerði Grótta1 svo tvö jafntefli, vann einn leik og tapaði einum og endaði í 11. sæti Orkumótsins.

Það eru þó ekki aðeins afrek innan vallar sem skipta máli á svona stórmóti hjá 10 ára peyjum (eins og Eyjamenn kalla stráka). Hópurinn ver miklum tíma saman og stundum getur tekið á að gista annars staðar en í öruggu skjóli foreldra sinna. Allir voru sammála um að strákarnir hafi komið nokkrum númerum stærri heim frá Eyjum, tilbúnari í að takast á við áskoranir næstu ára innan sem utan fótboltavallarins.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print