Skip to content

4. flokkur karla á Vildbjerg Cup í Danmörku

4. flokkur karla fór dagana 31. ágúst – 7 júlí til Danmerkur á Vildbjerg Cup. Keppt var í blíðskaparveðri við góðar aðstæður á einu stærsta móti Norðurlandanna, en yfir 10.000 keppendur voru skráðir á mótið.

Áður en mótið hófst var tekinn æfingaleikur við heimamenn í Vildbjerg. Grótta vann þann leik 5:3 þar sem liðið sýndi flotta takta og mikla þrautseigju. Leikið var í 28° hita sem var góður undirbúningur fyrir mótið sjálft.

Grótta sendi tvö lið til leiks. Bæði lið stóðu sig með sóma og voru óheppin að komast ekki lengra í keppninni. Yngra árs liðið vann sinn riðil en tapaði síðan naumlega í 16-liða úrslitum. Eldra árs liðið fór í B úrslit þar sem liðið tapaði í 8-liða úrslitum á móti liðinu sem endaði uppi sem sigurvegari.

Fyrir utan fótboltann var farið í skemmtigarðinn Djurs Sommerland þar sem allir rússíbanarnir voru prófaðir mörgum sinnum. Búðirnar í Herning voru einnig heimsóttar þar sem drengirnir settu sennilega Íslandsmet í kortabruna í flokki U-14 án atrennu. Það var einnig keppt danska draumnum (leikur sem þjálfarar og fararstjórar bjuggu til), spurningakeppni og borðtennis.

Ferðin í heild sinni var mjög skemmtileg og eiga strákarnir hrós skilið fyrir góða hegðun, flotta frammistöðu á fótboltavellinum og uppátækjasemi utan hans. Það ber einnig að þakka fararstjórunum fyrir allt það góða starf sem þeir unnu.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print