Skip to content

3. flokkur karla og kvenna á USA cup í júlí

Í júlí héldu 3. flokkur karla hjá Gróttu og 3. flokkur kvenna hjá Gróttu vestur um haf og tóku þátt í USA Cup stórmótinu í Minneapolis. Í hópnum voru 58 leikmenn, þjálfarar og fararstjórar og tefldu báðir flokkar fram tveimur liðum.

Mótið var frábær upplifun fyrir krakkana og er óhætt að segja að ferðin hafi gengið eins og í sögu. 16-ára lið beggja flokka komust í 8-liða úrslit í svokallaðri Gulldeild og voru þar í raun óheppin að tapa. Þreytan var farin að segja til sín en Gróttuliðin voru ekki með marga varamenn á mótinu þar sem margir leikir eru spilaðir á stuttum tíma.

15-ára liðin hjá strákunum og stelpunum léku í Silfurdeildinni og komust bæði alla leið í sjálfan úrslitaleikinn! Strákarnir eftir sigur í framlengingu og vítaspyrnukeppni og stelpurnar eftir sigur á kanadíska liðinu Red Renegates. Í úrslitunum máttu liðin sætta sig við eins marks tap en árangurinn engu að síður frábær.

Fyrir utan fótboltann var margt skemmtilegt gert – til dæmis var Mall of America heimsótt og farið var á leik í MLS deildinni. Þá vakti íslenski hópurinn verðskuldaða athygli á skólalóðinni í University of Minnesota, þar sem liðin gistu, með því að dansa Zumba á kvöldin undir stjórn yfirfararstjórans Davíðs Gíslasonar.

Að fara með 50 unglinga í keppnisferð til útlanda án þess að nokkuð vandamál komi upp er ekki sjálfgefið. Hópurinn var hreint út sagt frábær í ferðinni og eiga þessir krakkar framtíðina fyrir sér í boltanum og lífinu sjálfu.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print