Skip to content

2. flokkur kvenna á Donosti Cup

Í byrjun júlí hélt 2. flokkur kvenna hjá Gróttu/KR til Spánar til að taka þátt í stórmótinu Donosti Cup. Hópurinn flaug til Parísar og ætlaði þaðan að halda áfram för sinni til Norður-Spánar þegar fluginu var skyndilega aflýst vegna verkfalls flugumferðarstjóra. Fararstjórnin þurfti þá að hugsa hratt en niðurstaðan var sú að taka lest til Bordeaux daginn eftir og því voru stelpurnar strandaglópar í París! Það er nú hægt að hugsa sér margt verra og var síðdeginu eytt í góðu veðri í borg ástarinnar.

Mótið hófst daginn eftir komu til San Sebastian og var fyrsti leikur á móti sterku liði Saint Gabriel. Eftir að þær spænsku tóku forystuna jafnaði Sigga metin með flottu marki. Hitinn var mikill og í síðari hálfleik reyndust dýrlingar Gabríels sterkari og sigruðu að lokum 4-1.

Í öðrum leik léku okkar konur við lið Heads frá Kanada. Óhætt er að segja að Grótta/KR hafi verið mikið sterkari aðilinn í leiknum en inn vildi boltinn ekki! Svekkjandi, markalaust jafntefli niðurstaðan. Í lokaleik riðilsins var leikið við heimalið Tolosa. Þá var búið að skipta sólinni út fyrir þrumur og eldingar en sá leikur tapaðist sannfærandi.

Í fyrsta leik útsláttarkeppninni hrukku okkar konur í gírinn og unnu glæsilegan 2-1 sigur þar sem Helga og Dagbjört skoruðu mörkin. Stelpurnar frá Escuela í Madrid voru næstu mótherjar og var sá leikur æsispennandi. Eftir að hafa lent 1-0 undir sýndu Gróttu/KR-stelpur gríðarlegan baráttuvilja og lögðu allt í sölurnar til að jafna. Á sama tíma þóttust Madrídarstelpur ítrekar vera meiddar og slasaðar til að tefja tímann og var allt að sjóða uppúr á leikvanginum í Orio. Að lokum rann tíminn út og Grótta/KR úr leik en stelpurnar gátu borið höfuðið hátt.

Fyrir utan sjálfan fótboltann dreif ýmislegt á daga stelpnanna. Þær fóru á brimbrettanámskeið, heimsóttu Bilbao og nutu góða veðursins á fallegri ströndinni í San Sebastian. Borgin er einmitt einstaklega skemmtileg en Gróttu/KR-hópurinn gisti um 200m frá ströndinni og ferðaðist með rútu í leikina.

Gaman er að segja frá því að þetta var í fyrsta sinn sem Gróttustelpur á 2. flokks aldri fara í knattspyrnuferð til útlanda. Enn einum áfanganum náð í uppgangi kvennaboltans á Nesinu og Vesturbænum.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print