Það var blíðskapar veður sem tók á móti meistaraflokki félagsins í handbolta þegar þeir renndu í hlað í Landeyjarhöfn í gærmorgun, framundan var stutt sjóferð til Vestmannaeyja þar sem heimamenn og fjórfaldir meistarar í ÍBV biðu Gróttu-liðsins í fyrsta leik í Olís-deildinni þetta keppnistímabilið.
Margir spekingarnir höfðu spáð auðveldum leik fyrir heimamenn, átti í raun að vera formsatriði fyrir þá að klára leikinn og sást það á leikmönnum ÍBV strax í upphitun að þeir bjuggust við rólegum degi á skrifstofunni þennan daginn. Annað átti eftir að koma í ljós.
Leikurinn hófst á slaginu 16:00 og gaf það tóninn strax á fyrstu mínútum leiksins í hvað stefndi í fyrri hálfleik þegar Hreiðar Levý varði arfaslakt vítakast frá Eyjamanninum Theódóri Sigurbjörnssyni. Gróttu-liðið lék í kjölfarið við hvorn sinn fingur og vissi stjörnumprýtt lið ÍBV ekki hvaðan á sig stóð veðrið og leiddi í hálfleik með sjö mörkum, 11-18. Fyrri hálfleikur stórkostlegur að hálfu okkar manna sem kórónaðist með frábæru „sirkus“ marki í þann mund sem hálfleiksflautan gall.
Gellir Michaelsson fór hamförum sóknarlega í fyrri hálfleik og setti fjögur mörk úr fimm skotum og hræddist ekkert meistaravörn Eyjamanna og eins varði Hreiðar Levý vel í fyrri hálfleik eða 8 skot.
Eyjamenn mættu gríðarlega grimmir til leiks í síðari hálfleik, staðráðnir í því að keyra yfir okkar menn og minnkuðu muninn hratt fyrstu mínúturnar, allt kom þó fyrir ekki og Gróttu strákar fóru að finna markið á nýjan leik um miðjan síðari hálfleik og þegar 8 mínútur voru eftir leiddi Gróttu-liðið með 6 mörkum. Á því augnabliki breyttist leikurinn, Eyjamenn fóru í framliggjandi vörn og leystist leikurinn upp í hálfgerða vitleysu, mikill hraði og hiti var í leiknum síðustu mínúturnar sem bæði dómarar og leikmenn Gróttu-liðsins réðu illa við.
Eftir skrautlegar lokamínútur náði ÍBV að jafna þegar 35 sekúndur voru eftir. Okkar strákar reyndu hvað þeir gátu í loka sókninni að hirða sigurinn en allt kom fyrir ekki, súrsætt jafntefli í Eyjum niðurstaðan, eflaust niðurstaða sem Gróttu-liðið hefði þegið fyrir leik en úr því sem komið var er niðurstaðan frekar súr.
Markahæstir Gróttu í leiknum voru:
- Árni Benedikt – 5 mörk
- Sveinn Jose Rivera – 5 mörk
- Leonharð Þorgeir – 5 mörk
- Gellir Michaelsson – 5 mörk
- Hreiðar Levý stóð vaktina vel í markinu og varði 13 skot, þar af 1 vítakast.
Stigið úr leiknum er gríðarlega mikilvægt í baráttunni sem framundan er og nokkuð ljóst að Gróttu-liði getur strítt bestu liðum landsins. Gaman var að sjá nýja leikmenn smell passa inn í leik liðsins, Gellir og Magnús Öder settu saman 9 mörk og spiluðu framan af stórkostlega.