Skip to content

Æfingagjöld Fimleikadeildar Gróttu vorönn 2026

Fimleikadeild Gróttu hefur birt upplýsingar um æfingagjöld fyrir vorönn 2026 og hefur gjaldskráin verið sett fram á nýjan hátt með það að markmiði að vera gagnsæ, skýr og í samræmi við það sem tíðkast hjá öðrum fimleikafélögum. Æfingagjöldin eru nú reiknuð eftir vikufjölda og fjölda klukkustunda sem iðkendur eru með í stundatöflu.



Æfingagjöld hjá Fimleikadeild Gróttu þurfa að standa undir umfangsmiklum rekstri deildarinnar, en starfseminni hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg.  Deildin telur í dag hátt í 700 iðkendur á breiðum aldri, eða frá 1 árs í krílafimi og upp í fullorðinsfimleika, og tæplega 70 þjálfara. Markmið deildarinnar er að tryggja faglega þjálfun, góða þjónustu og öruggt umhverfi, topp aðstöðu, öfluga starfsemi og rekstur sem stendur undir sér. 

Fagleg þjálfun 

Þjálfarar Gróttu mynda öflugt og fjölbreytt teymi sem býr yfir víðtækri reynslu og sérþekkingu í fimleikaþjálfun. Þá sækja þeir reglulega fræðslu til að styrkja færni sína.  Til að halda góðu þjálfarateymi og laða til okkar hæfa þjálfara er mikilvægt að deildin geti boðið upp á samkeppnishæf laun ásamt öruggum og stöðugum starfsaðstæður.   

Góð þjónusta og öryggi iðkenda í fyrirrúmi

Við leggjum okkur fram við að hver iðkandi fái góða athygli og leiðsögn þjálfara á æfingum. Fjöldi iðkenda í hóp er í mesta lagi 12-14 á hvern þjálfara auk aðstoðarþjálfara. Þá fá iðkendur góðan æfingatíma í sal, nægilegt pláss og þann fjölda æfingatíma sem þarf til að ná árangri í sinni íþrótt 

Hátt hlutfall þjálfara er einnig öryggismál fyrir iðkendur, en í fimleikasalnum hverju sinni eru margir hópar á fjölda áhalda að gera stór stökk og æfingar sem gæta þarf vel að.

Samkeppnishæf aðstaða

Fimleikadeildin býður upp á fullbúinn fimleikasal þar sem aðstaða og fjöldi áhalda styður við faglega þjálfun og skapar öruggt æfingaumhverfi. Salurinn er skipulagður með öryggi iðkenda í fyrirrúmi, áhöld og dýnur eru reglulega yfirfarin og endurnýjuð eftir þörfum. Salurinn er yfirleitt fullnýttur og ávallt mikið fjör. 

Rekstur deildarinnar 

Rekstur Fimleikadeildar Gróttu snýst um að styðja við blómlegt starf deildarinnar og tryggja gott samstarf við foreldra og forráðamenn. 

Fimleikadeildin leggur sig fram um að æfingagjöld endurspegli raunverulegan kostnað. Deildin er ekki rekin í hagnaðarskyni og reynt er eftir fremsta megni að enda árið réttu megin við núllið. Eins og önnur félög og atvinnustarfsemi hefur bent á, hefur launaskrið og verðbólga þyngt rekstrarumhverfi mikið undanfarin ár og hefur Fimleikadeildin ekki farið varhluta af því enda með yfir 70 starfsmenn. Starfsmaður er á skrifstofu sem gegnir mikilvægu hlutverki við að halda utan um starfsemina. Auk þess standa æfingagjöldin straum af nauðsynlegum innviðum, svo sem tækjabúnaði, hljóðkerfi, viðhaldi áhalda og tækja, tryggingum og fl.  

Þess má geta að fjöldi fólks leggur deildinni lið sem sjálfboðaliðar, bæði í stjórn og sértækum verkefnum og fyrir það erum við ótrúlega þakklát. Án sjálfboðaliða gæti íþróttastarf fyrir börn og unglinga á Íslandi ekki staðið undir sér og verið sú mikilvæga grunnstoð í lýðheilsu og forvörnum sem við sem samfélag treystum á. 

Við viljum þakka iðkendum og forráðamönnum fyrir frábært samstarf á árinu sem er að líða og fögnum þeim árangri sem iðkendur hafa náð. Við erum sprúðlandi spennt fyrir 2026 og hlökkum til að gera enn betur á komandi ári.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Information

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin mánudag – fimmtudags
frá kl. 11:30 – 14:30
Hafa samband

Fréttaflokkar