Skip to content

Yfirlýsing aðalstjórnar Gróttu

Yfirlýsing aðalstjórnar Gróttu

Aðalstjórn Gróttu harmar þá ákvörðun almannavarna á höfuðborgarsvæðinu að útiloka börn og ungmenni frá því að geta stundað sína íþrótt með lokun íþróttamannvirkja á vegum sveitarfélaganna. Í fréttatilkynningu almannavarna segir m.a. að samfélagið eigi mikið undir því að takist að halda skólastarfi gangandi og að lögð sé áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli skóla.Það skýtur skökku við að slík tilkynning sé send út daginn eftir að stjórnvöld gáfu út nýja reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og breytingu á reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, þar sem opnað er fyrir að íþróttafélög geti hafið æfingar að nýju með takmörkunum, sem meðal annars lúta að því að ekki verði blöndun milli skóla. Aðalstjórn Gróttu hefur fullan skilning á mikilvægi þess að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið, eins og fram kemur í yfirlýsingu almannavarna.

Það liggur hins vegar fyrir að sóttvarnarlæknir hefur lýst yfir að smitleiðni barna sé mun minni en fullorðinna og að börn sem greinst hafa jákvæð með veiruna virðast almennt ekki fá alvarleg einkenni. Þá er þátttaka barna í íþróttum mikilvægur þáttur í daglegri rútínu þeirra, styrkir félagsleg tengsl, stuðlar að andlegu jafnvægi, dregur úr kvíða og styður við almennt heilbrigði og lýðheilsu. Gerðar hafa verið rannsóknir á mikilvægi skipulagðs íþróttastarfs fyrir vöxt og vellíðan barna hér á landi.Börn í skólum blandast á milli bekkja og jafnvel árganga í frímínútum. Þá blandast börnin jafnframt á milli skóla í leik utan skólatíma víða á höfuðborgarsvæðinu, s.s. á íþrótta- og leiksvæðum, sparkvöllum o.s.frv., en þar eru engar sóttvarnir viðhafðar. Þetta er iðulega sá tími dags sem þau væru annars að æfa sína íþrótt undirsett stífum sóttvarnareglum.

Deildir Íþróttafélagsins Gróttu hafa sett sér skýrar sóttvarnarreglur, sem áhersla er á að sé fylgt eftir í einu sem öllu. Þjálfarar nota grímur og viðhafa fjarlægðarmörk sín á milli og iðkendur spritta sig fyrir og eftir æfingar í íþróttasal. Ekki er vitað til þess að smit hafi komið upp í íþróttastarfi Gróttu frá því að starfsemin hófst á ný eftir lokun í byrjun maí og þar til starfsemin var stöðvuð aftur 8. október síðastliðinn. Ítrekaðar lokanir á íþróttastarfi barna, eins og börn á höfuðborgarsvæðinu eru nú að upplifa eru líklegar til að ýta undir brottfall úr íþróttum, sem aftur er líklegt til að hafa áhrif á heilsu þeirra til lengri tíma og þar með samfélagsleg áhrif. Það stenst heldur ekki skoðun að leyfa íþróttastarf fullorðinna, s.s. í heilsuræktarstöðvum, en loka fyrir íþróttastarf barna á sama tíma. A.m.k. hafa ekki verið gefnar trúverðugar skýringar á því ósamræmi sem þarna birtist, börnum og ungmennum í óhag. Er þess óskað að almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu endurskoði afstöðu sína, til samræmis við gildandi reglugerð heilbrigðisráðherra.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print