Skip to content

Jákvæðir og neikvæðir leiðtogar – Hugarfarmyndbönd Gróttu

Hugarfarmyndbönd Gróttu er nýr liður á samfélagsmiðlum okkar. 

Við fengum Önnu Lilju Björnsdóttir til að deila með iðkendum og foreldrum nokkrum hugleiðingum. Um er að ræða þrjú myndbönd, umfjöllun um leiðtoga, liðsfélaga og lífið sjálft sem hægt er að fylgja eftir með verkefnum úr myndböndunum. 

Anna Lilja er uppalinn Seltirningur sem klæddist einungis Gróttugalla fyrstu 17 ár ævi sinnar. 

Hún hefur mikla og fjölbreytta reynslu af vinnu með fólki á öllum aldri á hinum ýmsu sviðum. 

Í tómstunda- og félagsmálafræðinni fékk Anna Lilja ástríðu fyrir því sem við kemur samskiptum og menningu innan hópa.  Í þessu myndbandi fjallar Anna Lilja um jákvæða og neikvæða leiðtoga.

Jákvæðir og neikvæðir leiðtogar 

Ætla má að allir einstaklingar tilheyri og verði fyrir áhrifum af hópum á degi hverjum. Innan hópa eru oft leiðtogar sem geta haft áhrif á hlutskipti og upplifun annarra meðlima hópsins. Slíkt áhrifavald skapast þeim sem búa yfir ákveðnum auð innan hópsins, félagslegum, menningarlegum eða efnahagslegum. Auður einstaklings markar stöðu hans innan hópsins. Áhrif leiðtoga á aðra hópmeðlimi og hópinn sjálfan geta verið bæði jákvæð og neikvæð. Það er eftir því hvernig leiðtoga ferst að nota áhrifavald sitt.

Innan hópa geta verið margskonar leiðtogar en hér talar Anna um jákvæða leiðtoga (e. postitive leader) og neikvæða leiðtoga (e. negative leader).

Við vonumst til að þið foreldrarnir ræðið umfangsefni myndbandsins með krökkunum ykkar.

Góður liðsfélagi

Það skiptir máli að vera góður liðsfélagi, bæði fyrir þig og liðið. 

Ef það eru tveir leikmenn að keppast um sæti í liði, báðir frábærir skotmenn, hraðir og góðir íþróttamenn en annar er alls ekki góður liðsfélagi. Hvorn heldur þú að þjálfarinn velji í liðið?

Með því að leggja þitt af mörkum inn í liðið, á hvaða hátt sem er, þá lyftir þú öllu liðinu upp. Þetta þarf ekki að vera mikið en einföldustu hlutir eins og að heilsa alltaf öllum á æfingum, passa að enginn sé útundan, hvetja áfram þegar vel gengur OG þegar illa gengur og sýna gott fordæmi á æfingum geta gert gæfumuninn. Skoðaðu hvað það er sem gerir þig að góðum liðsfélaga og hvernig þú getur bætt þann hluta hjá þér og gert enn betur!

Æfinguna sem Anna Lilja gerir í myndbandinu er tilvalin fyrir foreldra að gera með krökkunum ykkar og ræða með þeim hvað getur einkennt góðan liðsfélaga.

Hvað skiptir máli varðandi vellíðan og velgegni?

Gott er að taka stöðuna á þeim þáttum lífsins sem að mestu máli skipta varðandi vellíðan og velgengni. Hér sýnir Anna Lilja eina aðferð til þess að meta stöðuna eins og hún er. Gott er að horfa á myndbandið í heild sinni og gera verkefnið eftir á með foreldri eða vini. Mikilvægt er að vera samkvæm/ur sjálfri/um sér og algjörlega heiðarlegur. Settu þér markmið um þá þætti sem þér finnst þú skora lægst í og fylgdu því eftir.

Æfinguna sem Anna Lilja gerir í myndbandinu er tilvalin fyrir foreldra að gera með krökkunum ykkar og ræða með þeim hvað skiptir máli varðandi vellíðan og velgegni.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print