Skip to content

Grótta tekur við rekstri íþróttamannvirkja

Grótta hefur frá og með 1. september fengið tækifæri til að annast rekstur íþróttamannvirkja sem Seltjarnarnesbær hefur rekið fram til þessa. Reglulega á undanförnum árum hefur Grótta óskað eftir því við Seltjarnarnesbæ að annast rekstur íþróttamannvirkja bæjarins. Það er því gleðistund fyrir Gróttu að bæjaryfirvöld veiti félaginu tæklifæri til rekstrarins.

Það er í mörg horn að líta við tímamót sem þessi. Um leið og fráfarandi starfsmönnum eru þökkuð góð störf í þágu Gróttu koma nýir starfsmenn til starfa. Vel gekk að ráða í þau störf sem losnuðu við umskiptin. Til starfa í íþróttahús Gróttu eru komin þau Elvar Grétarsson, Sólveig Herbertsdóttir og Örlygur Ásgeirsson. Enn vantar inn fjórða starfsmanninn, konu sem smellpassar í þennan öfluga hóp. Einnig vantar öflugan starfskraft til að fylla skarð Bjarna Jakobs á gervigrasvellinum.

Það er von okkar sem stöndum í brúnni fyrir Gróttu að með þessu tækifæri sé hægt að gera enn betur í að efla félagsauð Gróttu. Í fyrsta skipti eru íþróttamannvirki Gróttu hrein Gróttuhús. Vonandi munu allir þeir fjölmörgu sem koma að starfi félagsins dag frá degi verða ánægðir með það viðmót og þjónustu sem þau fá í húsunum okkar.

Eins og gefur að skilja við svo veigamiklar breytingar eins og að taka að sér rekstur lykilstofnana í þjónustu bæjarins þá geta orðið byrjunarörðugleikar. Það er von aðalstjórnar og starfsmanna félagsins að hægt verði að greiða úr þeim flækjum sem kunna að koma upp með skjótum og farsælum hætti. Félagsmenn eru beðnir um að beina ábendingum sem upp kunna að koma til undirritaðs.

Um leið og við fögnum þessum tímamótum er metnaður félagsins mikill að gera gott starf enn betra. Það verður einungis gert með sameiginlegu átaki allra sem koma að félaginu; iðkenda, foreldra, þjálfara, stjórnarmanna og íbúa Seltjarnarnesbæjar.

Kári Garðarsson, Íþróttastjóri Gróttu

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print