Skip to content

Valdimar Ólafsson – Minning

Valdimar Ólafsson, betur þekktur sem Valdi, lést þriðjudaginn 17. september sl. Valdi hóf störf sem vallarstjóri á Vivaldivellinum hjá íþróttafélaginu Gróttu í september 2016 og var frá fyrsta degi einstakur starfsmaður sem gaf allt fyrir félagið sitt.

Valdi var sannur Gróttumaður, uppalinn á Seltjarnarnesi og tengdist félaginu allt frá stofnun þess árið 1966. Á yngri árum stundaði hann bæði fótbolta og handbolta hjá félaginu og prófaði einnig körfubolta einn vetur þegar sú íþrótt var stunduð hjá Gróttu.

Í vallarhúsinu réði Valdi ríkjum og sinnti hann störfum sínum af mikilli samviskusemi og vandvirkni. Valdi var einstaklega vel liðinn af starfsfólki og foreldrum, en sérstaklega af iðkendum félagsins. Hann var ávallt til staðar, hvort sem um var að ræða verkefni stór eða smá. Valdi lagði mikla áherslu á að vallarhúsið væri opið fyrir alla iðkendur félagsins, unga sem aldna, sem og aðra gesti, og þangað væri fólk velkomið. 

Samstarfsmenn Valda munu sakna hans sárt. Minningin um Valda mun lifa áfram hjá félaginu, um góðan dreng sem minnst verður af hlýju og virðingu.

Íþróttafélagið Grótta sendir Steinu, Bjössa og vinum og vandamönnum Valda hugheilar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print