Á vormánuðum sendi knattspyrnudeild út þjónustukönnun til foreldra og forráðamanna allra iðkenda 3. – 8. flokks. Um var að ræða netkönnun þar sem markmiðið var að skoða ánægju foreldra með þjálfun, þjálfara, félagslega þætti og þjónustu í heild sinni hjá Gróttu.
Svarhlutfallið var gott eða yfir 70% og dreifðist nokkuð jafnt milli flokka. Almennt má segja að ánægja sé með störf knattspyrnudeildar en á skalanum 1 -10 var meðaltalið 8,1. Aðrar áhugaverðar niðurstöður voru almenn ánægja með þjálfarana (meðaltal 8,04) og með samskipti við foreldra (7,81).
Oft hefur verið rætt um jafnvægi milli afreks- og uppeldisstefnu og var ein spurningin um það. 13% foreldra finnst vægi afreksstefnu alltof mikið og 20% foreldra finnst vægið of mikið. Hins vegar finnast 64% foreldra gott jafnvægi milli afreks- og uppeldisstefnu. 3% foreldra finnst síðan vægi uppeldisstefnu of mikið.
Almennt má segja að foreldrum finnst að börnin séu ánægð í Gróttu þó ýmislegt megi betur fara. Barna- og unglingaráð vann niðurstöður fyrir hvern flokk og fór yfir með þjálfurum viðkomandi flokka hvað væri vel gert, hvað mætti betur fara og tók þar mið af athugasemdum foreldra.
Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar þakkar öllum foreldrum og forráðamönnum iðkenda fyrir það að taka þátt í könnuninni. En þátttaka fór fram úr okkar björtustu vonum!
Með sumarkveðju,
Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Gróttu