Andri snýr aftur heim

Handknattleiksdeild Gróttu hefur ráðið Andra Sigfússon sem verkefnastjóra deildarinnar auk þess sem Andri tekur að sér þjálfun yngri flokka hjá Gróttu.

Andra þarf vart að kynna fyrir Gróttufólki. Hann er uppalinn hjá félaginu og lék upp alla yngri flokka með Gróttu auk þess sem hann lék með meistaraflokki til ársins 2009. Hann er íþróttafræðingur að mennt og hefur starfað sem þjálfari hjá deildinni frá árinu 2002. Undanfarin ár hefur Andri verið yfirþjálfari hjá Fjölni. Andri er silfurmerkjahafi Gróttu og var íþróttastjóri félagsins árin 2008 til 2012 .

Andri mun taka að sér þjálfun 6. flokks karla og 4. flokks karla.

Það ríkir mikil ánægja innan handknattleiksdeildar Gróttu að fá Andra aftur heim.

Velkominn Andri!

Íþróttaæfingar hefjast að nýju

Þau gleðitíðindi bárust í gær að boðaðar voru rýmri samkomutakmarkanir. Nýjar reglur taka gildi á miðnætti í kvöld. Þetta þýðir að íþróttaæfingar mega hefjast án takmarkana og íþróttakeppni er leyfð með 100 áhorfendum.

Allar æfingar hefjast samkvæmt tímatöflum á morgun fimmtudaginn 15. apríl. Foreldrar og forráðamenn eru beðnir um að fylgjast vel með á Sportabler.

Áfram biðjum við iðkendur, þjálfara og aðra þá sem erindi kunna að eiga í íþróttamannvirkin okkar að mæta ekki finni þeir fyrir minnstu einkennum veikinda.

Foreldrar og forráðamenn eru beðnir um að koma ekki inn í íþróttamannvirkin.

Við hlökkum til að taka á móti iðkendum okkar aftur á morgun.

14 leikmenn Gróttu boðaðir á landsliðsæfingar á dögunum

Níu drengir voru boðaðir á landsliðsæfingar hjá fjórum landsliðum og fimm stúlkur hjá tveimur landsliðum. Ólafur Brim Stefánsson leikmaður meistaraflokks karla var valinn í æfingahóp hjá U-21 landsliðshópnum en þær æfingar féllu niður sökum þess að verkefni U-21 árs landsliðsins sem framundan var í sumar hefur verið aflýst sökum heimsfaraldurs. Ari Pétur Eiríksson leikmaður 3.flokks og meistaraflokks æfði með U-19 ára landsliðinu. Þrír leikmenn æfðu með U-17 ára liðinu, þeir Birgir Örn Arnarsson, Gabríel Örtenblad Bergmann og Hilmir Örn Nielsen en tveir síðar nefndu eru leikmenn í 4.flokki. Alex Kári Þórhallsson, Antoine Óskar Pantano, Hannes Pétur Hauksson og Hrafn Ingi Jóhannson æfðu með U-15 ára landsliðinu allir eru þeir á yngri ári í 4.flokki.

Um komandi helgi munu þær, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir, Katrín Helga Sigurbergsdóttir og Patricia Dúa Thompson æfa með U-21 landsliðinu og á meðan munu þær Katrín Anna Ásmundsdóttir og Joanna Marianova Siarova æfa með U-17 ára landsliðinu. Allar eru þær í meistaraflokki Gróttu auk þess að leika með yngri flokkum félagsins.