Magnús Örn ráðinn yfirmaður knattspyrnumála

Knattspyrnudeild Gróttu hefur tekið stórt skref í átt að frekari styrkingu og framþróun með því að ráða Magnús Örn Helgason í nýtt og mikilvægt hlutverk sem yfirmann knattspyrnumála. Þessi ráðning markar upphaf nýs kafla í sögu deildarinnar, þar sem lögð verður enn frekari áhersla á fagmennsku og markvissa framtíðarsýn.

Magnús kemur til Gróttu með mikla reynslu og þekkingu á íslenskri knattspyrnu. Hann hefur frá árinu 2021 starfað hjá KSÍ, fyrst sem þjálfari U17 ára landsliðs kvenna og síðar U15 kvenna. Auk þess hefur Magnús í tvö ár stýrt Hæfileikamótun kvenna hjá KSÍ. Fram á vor mun Magnús sinna verkefnum sínum hjá KSÍ meðfram starfinu hjá Gróttu.

Magnús Örn er öllum hnútum kunnugur innan Gróttu enda Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Á þeim tíma var hann m.a. annar höfunda „Gróttuleiðarinnar“ sem er handbók um markmið og hugmyndafræði deildarinnar. Árið 2018 tók hann við meistaraflokki kvenna en undir hans stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019.

Í sínu nýja hlutverki mun Magnús hafa yfirumsjón með margvíslegum þáttum í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Hann mun vinna náið með stjórn deildarinnar, yfirþjálfurum yngri flokka og þjálfurum meistaraflokka karla og kvenna til að tryggja að Grótta haldi áfram að vera í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu.

„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið Magga aftur til okkar, og það í þetta nýja og stóra hlutverk innan deildarinnar. Hans þekking og reynsla verða ómetanleg í áframhaldandi þróun knattspyrnudeildar og við höfum fulla trú á að leiðtogahæfileikar hans muni leiða knattspyrnudeild Gróttu til nýrra hæða,“ segir Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu.

„Það er afar spennandi að taka við þessu nýja starfi. Ég hlakka til að vinna með þeim framúrskarandi þjálfurum sem starfa hjá félaginu, leikmönnum á öllum aldri og auðvitað sjálfboðaliðunum sem eru félaginu dýrmætir. Það er margt sem gengur vel hjá Gróttu og ég mun leggja mitt að mörkum til að svo verði áfram,“ segir Magnús sem skrifaði undir nú síðdegis á Vivaldivellinum.

Ráðning Magnúsar er mikilvægur liður í stefnu Gróttu um að byggja upp öfluga knattspyrnudeild með skýra sýn í bæði uppeldis- og afreksstarfi. Við hlökkum til að sjá árangurinn af þessu samstarfi á komandi misserum og bjóðum Magnús hjartanlega velkominn aftur heim í Gróttu.

Myndir: Eyjólfur Garðarsson 

Aufí á leið til Portúgals með U17 ára landsliðinu

Þórður Þórðarson landsliðsþjálfari U17 kvenna, hefur valið hóp sem tekur þátt í milliriðli Evrópumóts UEFA í Portúgal dagana 19.-28.febrúar 2024. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir hefur verið valin í hópinn. Hin 15 ára Aufí lék einnig með U17 í undankeppni EM í október sl.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Aufí innilega til hamingju með valið og góðs gengis í Portúgal!

Jólakveðja Gróttu

Íþróttafélag Gróttu óskar öllu Gróttufólk nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Þökkum kærlega samfylgdina á líðandi ári og hlökkum mikið til komandi Gróttustunda árið 2024.

Jólatilboð á Gróttu handklæðum

Gróttu handklæði í jólapakkann

Grótta hefur ákveðið að selja hin geysivinsælu og fallegu Gróttu handklæði á sannkölluðu jólatilboði.

Handklæðin kosta núna 3500 kr og eru til sölu hérna í húsinu til klukkan 15.00- en eftir þann tíma að þá er velkomið að hringja í Hörpu, stjórnarmann knattspyrnudeildarinnar, í síma 8960118 til að nálgast handlæðin.

Frábær gjöf í jólapakkann þetta árið- Áfram Grótta.

Tommi til AZ Alkmaar

Tómas Johannessen hefur gengið til liðs við hollenska úrvalsdeildarfélagið AZ Alkmaar og gerir við það þriggja ára samning. Tommi er 16 ára gamall og lék þrátt fyrir ungan aldur lykilhlutverk með meistaraflokki karla í sumar. Hann er uppalinn Seltirningur og Gróttumaður en lék um skeið með Val.

Heimasíða AZ greinir frá skiptunum: http://www.az.nl/nl/nieuws/johannessen-tekent-bij-az…

Þar segir Paul Brandenburg yfirmaður akademíu AZ: „Tómas er framsækinn, teknískur og skapandi miðjumaður. Með þessa eiginleika að vopni getur hann lagt sitt að mörkum fyrir AZ í framtíðinni.”

Tómas er spenntur fyrir komandi tímum: ,,Ég er spenntur fyrir þessu næsta skrefi í mínum ferli. AZ er mjög góður klúbbur sem hentar mínum leikstíl. Ég var á reynslu hjá þeim í nóvember og fékk geggjaðar móttökur frá öllum í klúbbnum. Ég er búin að eiga frábær ár hjá Gróttu frá því ég var 4 ára og síðustu 2 ár með meistaraflokknum hafa reynst mér mjög vel. Lærði mikið þar af þjálfara og öllum leikmönnunum liðsins. Vil því bara segja takk fyrir mig Grótta”

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Tómasi og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þetta stóra skref og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans á næstu misserum.

Æfingar um jól og opnunartími Íþróttamannvirkja

Opnunartími og æfingar um hátíðarnar

Knattspyrnu- og handknattleiksdeild Gróttu fara í jólafrí frá og með deginum í dag, þann 20. desember og munu æfingar hefjast aftur þann 4.janúar á nýju ári. Þjálfarar eiga nú þegar að hafa fellt niður allar æfingar í Sportabler hjá yngri flokkum félagsins.

Fimleikadeild Gróttu mun æfa eins og venjulega fyrir utan það að vera í frí þessa hefðbundnu rauðu daga um hátíðarnar.

Vallarhúsið mun vera lokað á þeim tíma sem knattspyrnudeildin er í jólafríi en Íþróttahúsið verður lokað 23. desember og opnar aftur miðvikudaginn 27.desember. Húsið verður síðan lokað 30. desember til og með 1. janúar.

Jólakveðja

Íþróttafélagið Grótta

Skattaafsláttur þegar þú styrkir Gróttu

Með því að styrkja starf Gróttu með fjárframlögum þá getur þú fengið skattaafslátt. Lágmarksupphæð styrks til að fá lækkun á tekjuskattsstofni er 10.000 krónur, en hámark 350.000 krónur – eða samtals 700.000 krónur hjá hjónum.

Á vef ríkisskattstjóra – skatturinn.is – má finna upplýsingar um skattafrádrátt vegna gjafa/framlaga til almannaheillafélaga. Ríkisskattstjóri birtir þar lista yfir viðurkennda móttakendur, og þar á meðal er Íþróttafélagið Grótta.

Fólk sem ákveður að styrkja félagið getur komið þeim skilaboðum áleiðis á skrifstofu Gróttu á netfangið kristin@grotta.is. Síðan er hægt að millifæra upphæð að eigin vali eða óska eftir því að fá reikning í heimabankann. Fjármálastjóri Gróttu sér síðan um að upplýsa Skattinn um styrkina og síðan er það fært inn í skattframtal viðkomandi í framhaldi. Frádráttur frá tekjuskattsstofni er áritaður fyrirfram inn á framtalið, í reit 155 í klafla 2.6. á tekjusíðu framtals. Því er það mjög mikilvægt að láta skrifstofu félagsins vita til að allt gangi snuðrulaust fyrir sig í ferlinu.

Lágmarksupphæð til að nýta þennan frádrátt er 10.000 krónur, en að hámarki getur einstaklingur fengið lækkun á tekjuskattsstofni upp á 350.000 krónur, og hjón upp á 700.000 krónur. Ofanritað á við um einstaklinga, en rekstraraðilar geta einnig styrkt félagið og nýtt sér skattafrádrátt, sem getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt.

Þegar fólk ákveður að styrkja Gróttu er hægt að velja um að millfæra beint inn á reikning félagsins – 0537-26-201234, kt. 700371-0779 – eða fá reikning í heimabanka.

Grótta þakkar öllum styrktaraðilinum innilega veittan stuðning

Áfram Grótta

Aufí skoraði í sigri U18 gegn Svíþjóð 

Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir, betur þekkt sem Aufí, lék með U18 ára landsliði Íslands gegn Svíþjóð í byrjun desember. Liðin mættust í vináttuleik í Miðgarði þann 1. desember sl. og fór Ísland með 4-1 sigur. Aufí kom inn á á 64’ mínútu og var ekki lengi að setja sitt mark á leikinn en hún skoraði glæsilegt mark örfáum mínútum síðar. Frábær frammistaða hjá þessum unga og efnilega leikmanni. Gaman er að segja frá því að Aufí hefur spilað með þremur yngri landsliðum á árinu. Hún lék með U16 á UEFA mótinu í Englandi í apríl og á Norðurlandamótinu í júlí, með U17 í undankeppni EM í október og nú með U18 ára landsliðinu!

Lokað verður á skrifstofu Gróttu 23.-24. nóvember

Skrifstofa Gróttu mun því miður vera lokuð fimmtudaginn 23. nóvember sem og föstudaginn 24. nóvember.

Hægt er að senda inn erindi á grotta@grotta.is á meðan þessum tíma stendur og öllum þeim erindum verður svarað eftir helgi.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem að þetta kann að valda.

Fyrir hönd skrifstofu Gróttu

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir