Tinna til Apulia Trani

Tinna Bjarkar Jónsdóttir, fyrirliði Gróttu, hefur gert lánssamning við ítalska liðið Apulia Trani sem leikur í Serie C. Tinna er komin út og gæti leikið sinn fyrsta leik með liðinu á sunnudaginn í borginni Palermo á Sikiley. Eins og kunnugt er gekk Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir til liðs við Apulia Trani í síðustu viku en báðar framlengdu samninga sína við Gróttu á dögunum.
Tinna er uppalin í Gróttu og hefur leikið 75 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 35 mörk. Hún hefur verið lykilleikmaður frá því að meistaraflokkur var settur á laggirnar árið 2016 og er leikjahæsta Gróttukonan ásamt Diljá Mjöll Aronsdóttur.
Við heyrðum hljóðið í Tinnu sem kom til Trani í gærkvöld eftir langt ferðalag.
„Þetta á sér ekki langan aðdraganda. Félagið hafði samband við mig fljótlega eftir að Sigrún var komin út og eftir að hafa talað við hana og hugsað málið aðeins ákvað ég að slá til. Það er frábært tækifæri að búa í nýju landi og æfa fótbolta við aðrar aðstæður. Það var til dæmis mjög notalegt að vakna í sól og blíðu í morgun! En ég vona aðallega að þetta verði reynsla sem muni nýtast mér í framtíðinni, bæði inni á vellinum með Gróttu og annars staðar í lífinu“
Fjallað er um félagaskiptin á vefmiðlinum TraniViva. Þar segir meðal annars: „Við erum sannfærð um að eiginleikar Tinnu sem framherja muni efla sóknarleik liðsins og hjálpa til við að ná settum markmiðum. Við bjóðum Tinnu hjartanlega velkomna til Trani“ 🇮🇹

Sigrún Ösp til Ítalíu

Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir leikmaður Gróttu hefur gert lánssamning við ítalska félagið Apulia Trani og mun spila með liðinu í vetur. Sigrún er alin upp í Þór og Þór/KA en hefur verið lykilleikmaður í Gróttu síðustu þrjú tímabil. Apulia Trani spilar í Serie C á Ítalíu og leikur í riðli með liðum í suðurhluta landsins. 

Við slógum á þráðinn til Sigrúnar sem er þessa dagana að koma sér fyrir í hafnarborginni Trani:

„Þetta gerðist allt mjög hratt. Það var haft samband við mig á þriðjudaginn í síðustu viku og fimm dögum síðar var búið að kaupa flugmiðann! Lengjudeildin er nánast búin og mér fannst spennandi að fá tækifæri til að spila fótbolta í öðru landi. Svo var tilhugsunin um að flytja til Suður-Ítalíu líka mjög heillandi. Það á eftir að koma í ljós hversu sterk C-deildin hér er miðað við fótboltann heima. Hvað sem því líður þá vona ég að ég geti hjálpað liðinu og komið reynslunni ríkari heim í Gróttu næsta vor“ sagði Sigrún sem gæti spilað sinn fyrsta leik þegar Apulia Trani ferðast til Sikileyjar og leikur við lið Palermo í næstu viku. 

Fjallað er um félagaskiptin á vefmiðlinum TraniViva. Það segir m.a. í tilkynningu frá Apulia Trani: „Við erum sannfærð um að koma Sigrúnar muni hjálpa félaginu að ná settum markmiðum og að hún geti tekið næsta skrefið á sínum fótboltaferli. Við bjóðum Sigrúnu hjartanlega velkomna til borgarinnar og í liðið„. 

https://www.traniviva.it/sport/apulia-trani-il-rinforzo-a-centrocampo-arriva-dall-islanda/

2. flokkur kvenna deildarmeistarar í B deild Íslandsmótsins

2. flokkur Gróttu/KR hefur náð frábærum árangri í sumar og unnið alla sína leiki hingað til að einum frátöldum. Þær eru með 27 stig eftir 10 leiki og eiga eftir að spila tvo leiki en tókst að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í gær á KR-velli með 6-1 sigri á ÍA sem sitja í 2. sæti deildarinnar. Mörk Gróttu/KR í gær skoruðu María Lovísa Jónasdóttir, Emelía Óskarsdóttir (3) og Margrét Edda Lian Bjarnadóttir (2).
Við óskum stelpunum innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur í sumar! Það verður spennandi að fylgjast með flokknum í A deild á næsta ári 👊🏼
Mynd: Eyjólfur Garðarsson 📸

Hákon valinn í U21 landsliðið fyrir undankeppni EM

Hákon Rafn Valdimarsson er í hóp U21 landsliðsins fyrir leiki gegn Ítalíu og Lúxemborg í undankeppni EM 2021. Ísland mætir Ítalíu föstudaginn 9. október á Víkingsvelli og hefst leikurinn kl. 15:30. Liðið leikur síðan gegn Lúxemborg ytra þriðjudaginn 13. október og hefst sá leikur kl. 15:00 að íslenskum tíma. Hákon verður þó einungis í leiknum gegn Ítalíu þar sem leikmenn hópsins sem spila með félagsliðum á Íslandi munu ekki ferðast með hópnum til Lúxemborgar þar sem þeir þyrftu að fara í sóttkví við heimkomuna með tilheyrandi áhrifum á mótahaldið innanlands.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Hákoni innilega til hamingju með valið 👏🏼🇮🇸

120 drengir á Gifflarmóti Gróttu

Um 120 drengir í 7. flokki mættu á Vivaldivöllinn í gær og spiluðu á Gifflarmóti Gróttu. Á mótinu spiluðu Grótta, Valur og KR gegn hvor öðrum í köldu en fallegu veðri. Eyjólfur Garðarsson mætti á völlinn og náði þessum skemmtilegu myndum af stemningunni 📸

3. flokkur kvenna í 2. sæti Íslandsmótsins

3. flokkur kvenna spilaði æsispennandi úrslitaleik í gærkvöldi á Vivaldivellinum sem endaði í framlengingu og vítaspyrnukeppni. FH komst yfir á 34’ mínútu og staðan 0-1 í hálfleik þrátt fyrir að heimakonur hefðu oft verið hættulegar í sókninni. FH komst síðan í 2-0 í seinni hálfleik en Ísabella Sara Tryggvadóttir minnkaði muninn fyrir Gróttu/KR rétt eftir annað mark FH. Grótta/KR fékk síðan víti á 79’ mínútu sem Emelía Óskarsdóttir skoraði örugglega úr og jafnaði metin. Það var þá ljóst að það yrði að framlengja. FH komst yfir í framlengingunni en Díana Mist Heiðarsdóttir jafnaði fyrir Gróttu/KR. Að framlengingunni lokinni var farið í vítaspyrnukeppni þar sem þær Emelía Óskarsdóttir, Lilja Davíðsdóttir Scheving, Lilja Lív Margrétardóttir, Rakel Lóa Brynjarsdóttir og Tinna María Tryggvadóttir skoruðu fyrir Gróttu/KR. Vítaspyrnukeppnin endaði 5-6 fyrir FH og Grótta/KR tók því silfrið að sinni. Stelpurnar mega þó vera gríðarlega stoltar af frammistöðu sinni í mótinu og leiknum í gærkvöldi. Það var fjölmennt á Vivaldivellinum og mikil stemning – liðið stóð svo sannarlega fyrir sínu. Til hamingju með 2. sætið stelpur 💙🖤

Grótta nældi sér í stig á Meistaravöllum

Grótta nældi sér í stig á Meistaravöllum í dag í fyrsta deildarleik Gróttu og KR 🙌🏼
Liðin buðu upp á alvöru nágrannaslag í fallegu en köldu veðri í Vesturbænum. Staðan var 0-0 í hálfleik en Karl Friðleifur Gunnarsson kom Gróttu yfir á ’54 mínútu eftir stoðsendingu frá Kristófer Orra Péturssyni. KR tókst að jafna metin á ’70 mínútu og niðurstaðan 1-1 jafntefli.
Næsti leikur hjá strákunum er gegn KA á Vivaldivellinum kl. 16:15 á sunnudaginn. Næstu leikir eru gríðarlega mikilvægir og þar þurfa strákarnir okkar stuðning í stúkunni! Sjáumst á vellinum 👊🏼
Mynd: Eyjólfur Garðarsson 📸

3. flokkur kvenna í úrslitum Íslandsmótsins

3. flokkur kvenna eru komnar í úrslit Íslandsmótsins!!! 💥👏🏼

3. flokkur kvenna Gróttu/KR spilaði gegn Þór/KA/Hömrunum í dag í Boganum í undanúrslitum Íslandsmótsins. Lilja Lív Margrétardóttir kom Gróttu/KR yfir snemma í leiknum og Emelía Óskarsdóttir jók forystuna á 29’ mínútu. Heimakonum tókst þó að jafna undir lok fyrri hálfleiks og staðan 2-2 í hálfleik. Grótta/KR gaf heldur betur í í seinni hálfleik og Emelía Óskarsdóttir bætti við tveimur mörkum og skoraði þar með þrennu í Boganum í dag. Mörk Gróttu/KR voru geggjuð og þau má sjá í instagram story.
Frábær sigur hjá stelpunum í dag sem leiðir þær í úrslitaleikinn sem fer fram á sunnudaginn kl. 12:00 en keppinautar þeirra verða FH.

Rut og Emelía valdar í Hæfileikamót N1 og KSÍ

Þær Rut Heiðarsdóttir og Emelía Óskarsdóttir, 14 ára Gróttustúlkur, hafa verið valdar til að taka þátt í Hæfileikamóti N1 og KSÍ sem fer fram í Kórnum dagana 26.-27. september. Við óskum stelpunum góðs gengis og til hamingju með valið! 👏🏼

Hákon valinn í U21 fyrir undankeppni EM

Hákon Rafn Valdimarsson var á dögunum valinn í hóp U21 karla landsliðsins sem mætir Svíþjóð í undankeppni EM þann 4. september á Víkingsvelli. Hákon er fæddur árið 2001 en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið lykilmaður í meistaraflokki síðustu tvö ár. Gríðarlega efnilegur leikmaður sem er vert að fylgjast með.
Til hamingju Hákon! 🇮🇸