Rut og Emelía valdar í Hæfileikamót N1 og KSÍ

Þær Rut Heiðarsdóttir og Emelía Óskarsdóttir, 14 ára Gróttustúlkur, hafa verið valdar til að taka þátt í Hæfileikamóti N1 og KSÍ sem fer fram í Kórnum dagana 26.-27. september. Við óskum stelpunum góðs gengis og til hamingju með valið! 👏🏼

Vetraræfingatafla knattspyrnudeildar

Vetraræfingataflan tekur gildi fyrir 5.-8. flokk karla og kvenna þriðjudaginn 25. ágúst.

2-4. flokkur æfir áfram í sínum flokkum þangað til mótin klárast, en eldra árið í 5. flokki færist upp 25. ágúst og æfir með 4. flokki. Æfingatímar hjá 2.-4. flokki gætu breyst vegna leikja, en iðkendur og foreldrar eru hvattir til að fylgjast með upplýsingum frá þjálfurum.

Vetrarfrí flokkanna verður 22. október-2. nóvember.

Þjálfarar flokkanna verða tilkynntir á næstu dögum.

Nánari upplýsingar veita Chris (chris@grotta.is) og Jórunn María (jorunnmaria@grotta.is).

Þrír flokkar frá Gróttu á Rey Cup

3. og 4. flokkur kvenna ásamt 4. flokki karla fóru á Rey Cup 22.-26. júlí. 3.flokkur kvenna var með tvö lið á mótinu. Þeim gekk vel alla dagana og það var frábær stemning í hópnum. Allar stelpurnar spiluðu vel þrátt fyrir marga leiki og erfiðar aðstæður. Það var ekki bara spilað fótbolta heldur skellti hópurinn sér einnig saman í Fjölskyldu og Húsdýragarðinn. Lið 1 endaði í 3.sæti á mótinu og lið 2 í 4.sæti.
4.flokkur kvenna fór með 1 lið á mótið. Stelpurnar spiluðu frábæran sóknarbolta á mótinu og sköpuðust mörg glæsileg mörk uppúr uppspili stelpnanna. Úrslitin voru aukaatriði og skemmtu allar stelpurnar sér frábærlega alla dagana þar sem leikgleði og hamingja var við völdin!

4. flokkur karla fór með 2 lið á Rey Cup og stóðu sig með stakri prýði. Skemmtu drengirnir sér mjög vel og spiluðu skemmtilegan fótbolta þrátt fyrir skrautlegar vallaraðstæður inn á milli. Mörg glæsileg mörk voru skoruð og mátt sjá að drengirnir höfðu mjög gaman af mótinu. 

Meðfylgjandi mynd er af liði 1 hjá 3. flokki kvenna Gróttu/KR og er tekin af Margréti Kristínu Jónsdóttur. 

Knattspyrnuskólanum lokið

Þá er enn öðru farsælu sumri hjá knattspyrnuskóla Gróttu lokið, en hann var starfrækur frá 10. júní til 31. júlí. Góð mæting var á öll fjögur námskeiðin en tæplega 380 börn voru skráð á námskeiðin. Til viðbótar því voru um 100 börn sem sóttu sumarnámskeið fyrir 4. og 5. flokk. Iðkendur í skólanum eru bæði krakkar sem hafa æft lengi og einnig krakkar sem eru að prófa fótbolta í fyrsta skipti, og lögð er áhersla á að kenna fótbolta í gegnum skemmtilega leiki og æfingar. Námskeiðin voru 4 talsins, í tvær vikur í senn, og í lok hvers námskeiðs var krökkunum blandað saman og skipt í landslið og keppt í HM. Að keppni lokinni var síðan pulsupartí og allir fóru glaðir inn í helgina. Áhugasamir og fjörugir krakkar, efnilegir unglingar og gott veður var virkilega góð blanda sem varð til þess að námskeiðin gengu gríðarlega vel. Hér má sjá myndir frá starfinu í sumar, en einnig eru fleiri myndir og myndbönd á instagram.com/grottasport

Starfsmenn knattspyrnuskólans þakka fyrir sumarið og hlakka til að sjá sem flesta aftur næsta sumar!

Grótta með 12 lið á Símamótinu

Hátt í 80 Gróttustelpur kepptu á Símamótinu í Kópavogi helgina 10-12. júlí. Um 2400 stelpur léku á mótinu sem er stærsta knattspyrnumót landsins!
5. flokkur Gróttu tefldi fram fjórum liðum sem samanstóðu af 31 stelpu, 6. flokkur kvenna var með 16 stelpur í þremur liðum og 7. flokkur kvenna fór með 28 stelpur í fimm liðum. Mótið var frá föstudegi til sunnudags og leikið var frá morgni til eftirmiðdags.
Grótta náði góðum árangri á mótinu í öllum flokkum. Grótta 1 í 7. flokki kvenna vann sinn riðil eftir 3-2 sigur gegn Njarðvík 1 í úrslitum og fóru því með bikar heim! Grótta 1 í 6. flokki kvenna komst í undanúrslit en töpuðu fyrir Hetti 1 2-1, og enduðu í 4. sæti. Grótta 1 í 5. flokki kvenna komst einnig í undanúrslit A-liðakeppni mótsins en töpuðu 2-1 fyrir Þrótti sem stóðu síðan uppi sem sigurvegarari, en Grótta endaði í 4. sæti.
Gróttustelpurnar upplifðu bæði sigra, töp og jafntefli, en leikgleðin var aldrei langt undan. Það er mikil upplifun að spila á Símamótinu og alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá ungum knattspyrnukonum. Keppendum frá Gróttu fer fjölgandi með ári hverju sem er skýrt merki um uppgang kvennafótboltans á Nesinu.
Stelpurnar stóðu sig með prýði á mótinu og voru Gróttu til sóma 👏🏼
Myndir: Eyjólfur Garðarsson og Sporthero.