Magnús Örn ráðinn yfirmaður knattspyrnumála

Knattspyrnudeild Gróttu hefur tekið stórt skref í átt að frekari styrkingu og framþróun með því að ráða Magnús Örn Helgason í nýtt og mikilvægt hlutverk sem yfirmann knattspyrnumála. Þessi ráðning markar upphaf nýs kafla í sögu deildarinnar, þar sem lögð verður enn frekari áhersla á fagmennsku og markvissa framtíðarsýn.

Magnús kemur til Gróttu með mikla reynslu og þekkingu á íslenskri knattspyrnu. Hann hefur frá árinu 2021 starfað hjá KSÍ, fyrst sem þjálfari U17 ára landsliðs kvenna og síðar U15 kvenna. Auk þess hefur Magnús í tvö ár stýrt Hæfileikamótun kvenna hjá KSÍ. Fram á vor mun Magnús sinna verkefnum sínum hjá KSÍ meðfram starfinu hjá Gróttu.

Magnús Örn er öllum hnútum kunnugur innan Gróttu enda Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Á þeim tíma var hann m.a. annar höfunda „Gróttuleiðarinnar“ sem er handbók um markmið og hugmyndafræði deildarinnar. Árið 2018 tók hann við meistaraflokki kvenna en undir hans stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019.

Í sínu nýja hlutverki mun Magnús hafa yfirumsjón með margvíslegum þáttum í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Hann mun vinna náið með stjórn deildarinnar, yfirþjálfurum yngri flokka og þjálfurum meistaraflokka karla og kvenna til að tryggja að Grótta haldi áfram að vera í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu.

„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið Magga aftur til okkar, og það í þetta nýja og stóra hlutverk innan deildarinnar. Hans þekking og reynsla verða ómetanleg í áframhaldandi þróun knattspyrnudeildar og við höfum fulla trú á að leiðtogahæfileikar hans muni leiða knattspyrnudeild Gróttu til nýrra hæða,“ segir Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu.

„Það er afar spennandi að taka við þessu nýja starfi. Ég hlakka til að vinna með þeim framúrskarandi þjálfurum sem starfa hjá félaginu, leikmönnum á öllum aldri og auðvitað sjálfboðaliðunum sem eru félaginu dýrmætir. Það er margt sem gengur vel hjá Gróttu og ég mun leggja mitt að mörkum til að svo verði áfram,“ segir Magnús sem skrifaði undir nú síðdegis á Vivaldivellinum.

Ráðning Magnúsar er mikilvægur liður í stefnu Gróttu um að byggja upp öfluga knattspyrnudeild með skýra sýn í bæði uppeldis- og afreksstarfi. Við hlökkum til að sjá árangurinn af þessu samstarfi á komandi misserum og bjóðum Magnús hjartanlega velkominn aftur heim í Gróttu.

Myndir: Eyjólfur Garðarsson 

Jólatilboð á Gróttu handklæðum

Gróttu handklæði í jólapakkann

Grótta hefur ákveðið að selja hin geysivinsælu og fallegu Gróttu handklæði á sannkölluðu jólatilboði.

Handklæðin kosta núna 3500 kr og eru til sölu hérna í húsinu til klukkan 15.00- en eftir þann tíma að þá er velkomið að hringja í Hörpu, stjórnarmann knattspyrnudeildarinnar, í síma 8960118 til að nálgast handlæðin.

Frábær gjöf í jólapakkann þetta árið- Áfram Grótta.

Anna Karólína og Katrín Anna í U20 ára landsliðinu

Landsliðsþjálfarar U20 ára landsliðs kvenna, þeir Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson völdu í gær landsliðshóp U20 ára landsliðsins til æfingar dagana 23. – 26.nóvember. Við í Gróttu eigum tvo fulltrúa í liðinu en það eru þær Anna Karólína Ingadóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir.

Við óskum þessum flottu fulltrúum okkar til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis á æfingunum.

Grótta leitar að framkvæmdastjóra

Íþróttafélagið Grótta auglýsir til umsóknar starf framkvæmdastjóra félagsins. Leitað er eftir einstaklingi sem er kraftmikill leiðtogi sem fer fyrir hópi öflugra starfsmanna og vinnur að uppbyggingu Gróttu í takti við framtíðarsýn félagsins. Starfið er fjölbreytt og krefjandi og eru mikil tækifæri fyrir nýjan aðila að hafa mótandi áhrif á félagið.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri Gróttu sem og fjármálum og rekstri mannvirkja um heyra undir Aðalstjórn félagsins. Innan Gróttu starfa þrjár deildir; Fimleikadeild, Handknattleiksdeild og Knattspyrnudeild, með um 1000 iðkendur og tugi þjálfara.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023. Við hvetjum öll kyn til að sækja um. Unnið verður úr umsóknum jafnóðum og þær berast og því hvetjum við umsækjendur til að sækja um sem fyrst.

Helstu verkefni og ábyrgð

·        Ábyrgð á allri starfsemi félagsins, mannauðsmálum, rekstri deilda og fjármálum

·        Stefnumótun og eftirfylgni hennar, markmiðasetning og ferla- og umbótarvinna

·        Rekstraráætlanagerð og tekjuöflun í samstarfi við stjórnir, auk markaðssetning félagins

·        Ábyrgð á innri og ytri upplýsingagjöf í samræmi við stefnu Gróttu og í samvinnu við deildir

·        Umsjón með markaðssetningu Gróttu og stærri viðburðum félagsins

·        Ber ábyrgð á starfsmannahaldi félagsins og skipuleggur verkefni og verksvið

·        Stuðlar að því að efla félagsandann og vinnur að uppbyggingu félagsins

·        Ber ábyrgð á samningum félagsins og vinnur með deildum í samningagerð þeirra

·        Sér til þess að rekstur félagsins, mannvirkja og skrifstofu sé hagkvæmur og árangursríkur

·        Stuðningur við stjórnir deilda og sjálfboðaliða félagsins

·        Rekstur og viðhald mannvirkja og aðstaða félagsins

·        Leiðir samskipti við sérsambönd og opinbera aðila

·        Umsjón aðalstjórnarfunda ásamt eftirfylgni með ákvörðunum funda

·        Önnur tilfallandi verkefni

Menntunar- og hæfniskröfur

·        Mikil hæfni í samskiptum og sterk leiðtoga- og skipulagshæfni

·        Háskólamenntun sem nýtist í starfi

·        Hefur góða innsýn í og reynslu af stjórnun, rekstri og fjármálum

·        Frumkvæði, áræðni og jákvætt viðhorf

·        Sjálfstæð og öguð vinnubrögð

·        Reynsla og þekking á íþróttastarfsemi og rekstri innan íþróttahreyfingarinnar er kostur.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember 2023.
Sótt er um starfið á umsóknarvef Alfreðs: Íþróttafélagið Grótta (alfred.is)
Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á grotta@grotta.is

Matthías Guðmundsson ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna í knattsyrnu og Melkorka framlengir

Matthías Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna knattspyrnudeildar Gróttu. Matthías gerir þriggja ára samning við deildina en hann hefur síðustu tvö ár verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna Vals. Matthías á að baki glæstan fótboltaferil og 196 leiki í efstu deild á Íslandi en hann lék lengst af með Val.

Halda áfram að lesa

„Árangurinn kom mér ekki á óvart“

Viðtal við Pétur Rögnvaldsson 

Í gær var greint frá því að Pétur Rögnvaldsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, hygðist taka sér frí frá þjálfun eftir farsælt níu ára starf fyrir Gróttu. Við heyrðum hljóðið í Pétri og spjölluðum um frábæran árangur sumarsins hjá stelpunum og tíma hans hjá Gróttu. 

Grótta endar í fjórða sæti Lengjudeildarinnar og voru aðeins einum sigri frá því að fara upp um tvær deildir á tveimur árum. Kom þessi árangur þér á óvart? 

Nei hann gerði það í rauninni ekki. Jú kannski að við hefðum í lokaumferðinni spilað úrslitaleik um að komast upp í Bestu deildina – ég sá það kannski ekki fyrir – en þegar leið á undirbúningstímabilið var ég viss um að við gætum keppt við öll liðin í deildinni og endað í efri hlutanum. 

En hvað er það sem býr til svona árangur. Þið voruð jú nýliðar í deildinni eftir allt saman. 

Vissulega vorum við nýliðar en samt sem áður með mjög svipað lið og spilaði í deildinni árið 2021. Þá var kjarninn í liðinu mjög ungur og hann er í raun enn ungur en kominn með talsverða reynslu. Það voru gríðarleg vonbrigði að falla haustið 2021 en upp frá því fór að myndast þetta óútskýranlega hugtak sem kallast liðsheild og hún í bland við gæði leikmanna skapar öflugt lið. Samsetningin liðsins er sömuleiðis frábær – margar heimastelpur í bland við eldri stelpur sem hafa verið lengi í Gróttu. Að viðbættum öflugum nýjum leikmönnum og svo kornungum stelpum sem stíga upp í gott umhverfi. 

Hver er ástæðan fyrir því að þú stígur frá borði núna? 

Ástæðurnar eru í raun nokkrar. Og þetta er ákvörðun sem ég var nálægt því að taka fyrir tveimur árum en þá vorum við fallin. Maggi (Magnús Örn Helgason) var kominn í vinnu hjá KSÍ og ég vildi ekki skilja við liðið í 2. deild svo ég lét slag standa þegar mér var boðið að taka við. Það var því léttir þegar sæti okkar í Lengjudeildinni var tölfræðilega tryggt í ágúst og ég gat skilið sáttur við. En ein aðalástæðan er sú að ég get ekki varið eins miklum tíma og ég myndi kjósa í þjálfunina. Ég er í annarri vinnu og á næstu dögum stækkar fjölskyldan. Svo hefur líka áhrif að ég hef þjálfað nokkrar í liðinu í sjö til átta ár og þá er stundum óhjákvæmilegt að þjálfara-leikmanna sambandið komist á nokkurs konar endastöð. 

Er framtíðin sé björt í kvennaknattspyrnunni á Nesinu? 

Já hún er það, ef það verður áfram haldið vel á spöðunum – unnið af metnaði með sterka umgjörð í kringum liðið. Síðustu ár hefur verið unnið öflugt starf í yngri flokkunum og á bak við tjöldin í kringum báða meistaraflokka félagsins. Það einfaldlega skilar sér í uppöldum leikmönnum og góðri og jákvæðri stemningu. Kjarninn í Gróttuliðinu er enn að styrkjast og yngri stelpur að bætast við. Í sumar spilaði Aufí (Arnfríður Auður Arnarsdóttir) stórt hlutverk í liðinu 15 ára gömul og Rebekka (Sif Brynjarsdóttir) kom sterk inn á lokasprettinum aðeins 14 ára gömul. Tvær aðrar á 3. flokks aldri spiluðu með liðinu á undirbúningstímabilinu og það eru fleiri á leiðinni. Í stuttu máli þá hefur Gróttuliðið mikla möguleika á að verða enn betra á næstu árum.  

Að lokum – hvað er þér efst í huga þegar þú lítur til baka á árin níu sem þú þjálfaðir hjá Gróttu? 

Ótrúlegar minningar. Ég byrjaði að þjálfa 7. flokk kvenna með Jórunni (Maríu Þorsteinsdóttur) í janúar 2015. Mig minnir að Aufí hafi einmitt mætt á sína fyrstu eða aðra æfingu þegar ég byrjaði. Um sumarið hitti ég svo Rebekku sem var þá að æfa í 8. flokki hjá Bjössa (Birni Valdimarssyni) og fékk að spila með okkur á Símamótinu. Það var skemmtilegur endapunktur að þær tvær skildu hafa skorað í lokaleiknum á laugardaginn – fyrir framan troðfulla stúku á Vivaldivellinum. 

Eins og nefndi áðan var ég samferða 2003, 2004 og 2005 stelpunum í ansi mörg ár og það hefur verið gaman að fylgjast með þeim þroskast og þróast innan sem utan vallar. Grótta hefur sömuleiðis haft ótrúlega færa þjálfara við störf síðustu árin sem ég hef notið að starfa með, læra af og eignast góða vini. 

Vonbrigðatilfinningin sem maður hafði eftir leikinn á laugardaginn var óvanalega fljót að veikjast og upp úr stendur það sem liðinu tókst að áorka og allt sem ég hef fengið að taka þátt í með góðu fólki. Maður er bara með gleðitár í augum. 

Við þökkum Pétri kærlega fyrir spjallið og hans framlag til félagsins. Um leið óskum við þjálfurum og leikmönnum mfl. kvk innilega til hamingju með frábært sumar!

Gróttukonur enda í 4. sæti Lengjudeildarinnar eftir frábært sumar

Grótta mætti Fylki á Vivaldivellinum laugardaginn 9. september í hreinum úrslitaleik um hvort liðið myndi komast upp í Bestu deildina að ári. Fáir höfðu spáð því fyrir tímabilið að Grótta yrði í þessari stöðu, liðið nýkomið upp úr 2. deild eftir stutt stopp þar síðasta sumar, en liðið sýndi svo sannarlega í sumar hvað í þeim býr. Grótta komst yfir gegn Fylki á ’23 mínútu með frábæru skallamarki frá hinni 15 ára Arnfríði Auði Arnarsdóttur, betur þekktri sem Aufí. Fylki tókst að jafna metin á ’54 mínútu og stuttu síðar skoruðu þær sitt annað mark. Grótta jafnaði metin á ’73 mínútu eftir að hin 14 ára Rebekka Sif Brynjarsdóttir lét vaða fyrir utan teig og skoraði geggjað mark fyrir Gróttu en hún var aðeins búin að vera inná í nokkrar mínútur þegar hún skoraði. Því miður tókst Fylkiskonum að komast yfir á ný á ’84 mínútu og endaði leikurinn 2-3 fyrir Fylki sem tryggðu sér þar með sæti í Bestu deildinni að ári. Leikurinn var gríðarlega spennandi og var frábær mæting á völlinn. Umgjörðin í kringum leikinn var fyrsta flokks og stóðu sjálfboðaliðar Gróttu í ströngu til að gera hana sem allra flottasta, eins og sást vel. Gróttukonur mega svo sannarlega ganga stoltar frá borði eftir frábært sumar þar sem þær náðu besta árangri kvennaliðs Gróttu frá upphafi. Þrátt fyrir tapið á laugardaginn er hægt að fagna mörgu – í leiknum skoruðu tvær ungar og efnilegar Gróttukonur sem eiga framtíðina fyrir sér, liðið hefur aldrei endað jafn ofarlega í Lengjudeildinni og fengið jafn mörg stig né skorað jafn mörg mörk og í ár og aldrei hefur verið jafn vel mætt á leik hjá kvennaliðinu líkt og á laugardaginn. Það má einnig nefna það að Grótta átti markahæsta leikmann Lengjudeildarinnar, en Hannah Abraham skoraði 16 mörk fyrir Gróttu í sumar og er markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar!

Meistaraflokkur kvenna þakkar fyrir stuðninginn í sumar og hlakkar til að sjá sem flesta á vellinum í Lengjudeildinni á næsta ári.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Jólablað knattspyrnudeildar Gróttu er komið út í tólfta sinn

Fyrir jólin árið 2011 ákvað knattspyrnudeild Gróttu að gefa út blað þar sem farið var yfir árið hjá deildinni í máli og myndum. Á þeim tímapunkti óraði líklega engan fyrir því að árið 2022 myndi tólfta blaðið koma út!

Jórunn María Þorsteinsdóttir Bachmann ritstýrði jólablaðinu í ár. Í blaðinu má finna skemmtileg viðtöl, ýmsar fréttir og fróðleik. Í blaðinu er m.a. að finna viðtöl við Jón Jónsson, Emelíu Óskarsdóttur, Kjartan Kára Halldórsson, Magnús Örn Helgason og Huldu Mýrdal. Þá eru yngri iðkendur einnig teknir tali og loks má ekki gleyma þeim fjölmörgu myndum sem prýða blaðið en Eyjólfur Garðarsson á heiðurinn af þeim. Elsa Nielsen sá um uppsetningu blaðsins sem er hið glæsilegasta.

Dreifing hefur gengið vel þökk sé sjálfboðaliðum og ætti Gróttublaðið nú að vera komið í öll hús á Seltjarnarnesi.

Vefútgáfu blaðsins má finna hér: https://issuu.com/nielsenslf/docs/grottublad-2022-web

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Gróttufólki gleðilegra jóla og þakkar kærlega fyrir stuðninginn á liðnu ári 💙

Gróttukonur upp í Lengjudeildina!

Gróttukonur tryggðu sér í september sæti í Lengjudeildinni næsta sumar. Grótta endaði í 2. sæti 2. deildar kvenna með 34 stig og bestu markatölu deildarinnar! Þessum árangri var fagnað vel á Vivaldivellinum þegar lokaleikur stelpnanna fór fram föstudaginn 23. september. Til hamingju með árangurinn stelpur, þjálfarar og allir sem að liðinu koma!