Grótta semur við Igor Mrsulja

Handknattleiksdeild Gróttu hefur gert tveggja ára samning við Igor Mrsulja. Igor er frá Serbíu og leikur sem leikstjórnandi. Hann er 27 ára gamall og hefur lengstan hluta ferilsins leikið með RK Partizan í heimalandi sínu. Auk þess hefur hann leikið í hollensku og ungversku úrvalsdeildunum. Í fyrra lék hann með Kikinda Grindex í serbnesku úrvaldsdeildinni.

Igor lék með yngri landsliðum Serbíu sem lék á lokakeppnum heims- og Evrópumóta árin 2011-2014. Hann varð tvisvar sinnum serbneskur meistari, bikarmeistari í Serbíu, bikarmeistari í Hollandi auk þess sem hann hefur mikla reynslu úr Evrópukeppnum með félagsliðum sínum.

Koma Igors til Gróttu styrkir liðið mikið enda góður alhliða leikmaður, bæði í sókn og vörn. Hann eykur breidd Gróttuliðsins og mun án efa hjálpa liðinu í sterkri Olísdeild á næsta tímabili.

Signý til Gróttu – Margrét Rán skrifar undir

Signý Ylfa Sigurðardóttir er gengin til liðs við Gróttu frá Val og hefur skrifað undir tveggja ára samning. Signý var á láni í sumar og skoraði 3 mörk í 13 leikjum en lenti einnig í meiðslum sem héldu henni frá keppni í 6 vikur. Signý er 19 ára gömul og á að baki þrjá leiki fyrir U16 ára landslið Íslands. Við sama tækifæri skrifaði hin 17 ára Margrét Rán Rúnarsdóttir undir tveggja ára samning við Gróttu. Margrét kom sterk til baka í sumar eftir að hafa verið frá í heilt ár vegna höfuðmeiðsla. Hún kom við sögu í 12 leikjum með meistaraflokki og var lykilmanneskja í 2. flokki Gróttu/KR sem sigraði B-deild Íslandsmótsins. Magnús Örn, annar þjálfara Gróttuliðsins, fagnar því að stelpurnar hafi skrifað undir: „Það var frábært að sjá Margréti snúa aftur á völlinn í sumar eftir langa fjarveru. Það er hægara sagt en gert að vera svona lengi frá en margir hefðu hreinlega gefist upp. Það verður gaman fyrir okkur þjálfarana að geta unnið með Margréti allt tímabilið og sömuleiðis Signýju sem kom til okkar rétt fyrir Covid pásuna í mars. Nú er hún orðin innvígð Gróttukona sem eru gleðifréttir fyrir félagið.“

Maggi og Pétur áfram með meistaraflokk kvenna

Í gærkvöldi skrifuðu þeir Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson undir samning sem þjálfarar meistaraflokks kvenna út næsta ár. Eins og kunnugt er tók Magnús við liðinu haustið 2018 og Pétur tók til starfa sem aðstoðarþjálfari í ársbyrjun 2019. Þeir munu á komandi tímabili stýra liðinu í sameiningu en Grótta er á leið í sitt annað tímabil í Lengjudeildinni eftir að hafa endað í 6. sæti í sumar.

„Ég er hrikalega spenntur að halda áfram að vinna með þessum efnilega hópi. Maður er sjálfur í yngri kantinum og því frábært að fá tækifæri til að vera aðalþjálfari í meistaraflokki á þessum tímapunkti. Við Maggi höfum unnið vel saman og munum gera það áfram“ segir Pétur sem varð 27 ára nú í haust.

Magnús tók í sama streng:„Það er stór áskorun fyrir okkur að vinna vel úr reynslunni sem við fengum síðasta sumar. Tækifærin sem Gróttuliðið hefur eru mikil og ég hlakka mikið til að byrja æfingar á ný. Pétur hefur sýnt síðustu ár hve öflugur þjálfari hann er og ég trúi því að hann muni eflast enn frekar með stærra hlutverki.“

Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar skrifaði undir með strákunum í gær. Hann segir að markmið síðustu tveggja ára hafi náðst í sumar og nú sé horft fram á nýja og spennandi tíma. „Við erum á áætlun. Stelpurnar sýndu það í sumar að þær eiga fullt erindi í 1. deild og nú tekur við áskorun um að festa sig enn frekar í sessi sem alvöru lið í deildinni. Við í stjórninni erum spennt fyrir því að halda áfram þróun þessa flotta liðs með þá Magga og Pétur við stjórnvöllinn.“

Ástbjörn á láni til Gróttu

KR, Grótta og Ástbjörn Þórðarson hafa komist að samkomulagi um að Ástbjörn leiki með Gróttuliðinu í Pepsi Max deildinni á komandi leiktíð.
Ástbjörn er fæddur árið 1999 og er uppalinn hjá KR í Vesturbænum. Hann fékk sína eldskírn í efstu deild með KR sumarið 2016 þegar hann kom inná í leik gegn Fylki, en hann hefur leikið samtals 11 leiki fyrir KR í efstu deild. Ástbjörn var lánaður til ÍA og Víkings Ólafsvík tímabilið 2018 en í fyrra var hann lánaður á miðju tímabili til Gróttu í Inkasso deildina. Þar lék Ástbjörn stórt hlutverk þegar liðið fagnaði sigri í deildinni og komst uppí Pepsi Max deildina í fyrsta skipti.
Ástbjörn hefur leikið samtals 10 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim 1 mark.

Grótta býður Ástbjörn innilega velkominn aftur til félagsins og væntir mikils af honum í sumar.