Góð frammistaða hjá 5.flokki karla

Um helgina spilaði eldra árið á sínu öðru móti í vetur. Mótið fór fram í Fjölnishöllinni í Grafarvogi. Strákarnir léku í 3. deild og voru staðráðnir í að fara beint aftur upp um deild.

Strákarnir byrjuðu á að spila við Val 2 og var leikurinn í járnum í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikur var flottur og leikurinn endaði 22-17 fyrir okkar drengjum. Annar leikur liðsins var við ÍR 1 og unnu strákarnir frábæran sigur eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik. Leikur þrjú var gegn Fram 2 og spiluðu strákarnir ekki nægilega vel en náðu samt sem áður að kreista út sigur með sigurmarki á lokasekúndunum frá Kolbeini. Síðan var komið að úrslitaleiknum og aftur spiluðu strákarnir við Val 2. Leikurinn var jafn í þrjátíu mínútur en endaði að lokum með sigri Gróttu 17-16.

Frábær helgi að baki hjá strákunum í 5.flokki. Þjálfarar flokksins eru Andri Þór Helgason og Hannes Grimm.

5.flokkur á Eyjablikksmót

Helgina 8. – 10. október fór eldra árið í 5.flokki kvenna og karla til Vestmannaeyja og spiluðu á sínu fyrsta Íslandsmóti. Strákarnir tefldu fram einu liði en stelpurnar tveimur liðum. Ferðin heppnaðist vel bæði handboltalega séð og félagslega séð.

Stelpurnar mættu ferskar og spenntar í fyrstu leikina á föstudeginum. Lið 1 lék gegn HK en því miður tapaðist sá leikur. Lið 2 spiluðu gegn Fram og náðu í jafntefli eftir að hafa verið undir meirihluta leiksins. Á laugardeginum spiluðu bæði lið tvo leiki. Lið 1 gerði jafntefli gegn Fram og unnu síðan Stjörnuna. Lið 2 áttu fyrsta leik gegn Haukum sem voru mun sterkari og tapaðist sá leikur. Seinni leikurinn var gegn FH og unnu þær flottan sigur. Á sunnudeginum átti lið 1 erfiðan leik fyrir höndum gegn Val og unnu þær okkur stúlkur sem börðust hins vegar allt til loka leiks. Lið 2 spilaði sinn síðasta leik gegn sterku liði Selfoss og tapaðist sá leikur eftir mikla baráttu hjá okkar stúlkum.

Strákarnir spiluðu tvo leiki á föstudeginum. Fyrri leikurinn var við Aftureldingu og byrjuðu strákarnir af miklum krafti og voru þremur mörkum yfir í lok fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikur gekk brösulega og fóru Afturelding með sigur úr leiknum. Seinni leikurinn var við Selfoss þar sem leikurinn var hnífjafn en endaði með sigri Selfyssinga. Á laugardeginum mættu strákarnir Fram í fyrsta leik og voru strákarnir greinilega ekki tilbúnir í þá baráttu. Seinni leikurinn var við ÍBV og sá leikur hnífjafn frá fyrstu mínutu, strákarnir spiluðu feikilega vel sóknarlega og endaði leikurinn með þriggja marka sigri Gróttu.

Á laugardagskvöldinu fór fram kvöldvaka og hluti af henni var leikur landsliðsins gegn pressuliðinu og áttum við einn strák í pressuliðinu; Arnar Magnús Andrason og tvær stúlkur; Sara Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir. Okkar fulltrúar stóðu sig feikivel í leikjunum.

Þessi ferð á Eyjablikksmótið skildi eftir sig góðar minningar og vonandi halda krakkarnir áfram að bæta sig í handboltanum eins og þeir hafa gert hingað til.

Þjálfarar strákanna eru Andri Þór Helgason og Hannes Grimm. Þjálfarar stelpnanna eru Davíð Örn Hlöðversson og Patrekur Pétursson Sanko.

Sara Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir

Arnar Magnús Andrason