Skip to content

Grímur, Krummi og Orri léku með landsliðinu

Um liðna helgi lék 15-ára landslið Íslands æfingaleiki við Færeyjar. Valinn var 22 manna hópur fyrir leikina og átti Grótta þar þrjá fulltrúa, þá Grím Inga Jakobsson, Krumma Kaldal og Orra Stein Óskarsson. Sannarlega glæsilegt hjá ekki stærra félagi.

Grímur var í byrjunarliðinu í fyrri leiknum sem fór fram í Egilshöll á föstudag. Þar bar Ísland 5-1 sigur úr býtum eftir að hafa lent 1-0 undir snemma leiks. Grímur spilaði af öryggi inni á miðjunni en Orri Steinn kom inná í lokin. Seinni leikurinn fór fram í Akraneshöllinni á sunnudag og þar byrjaði Krummi í íslenska markinu. Okkar maður var ekki lengi að stimpla sig inn en Krummi varði víti um miðjan fyrri hálfleikinn og endaði svo á að halda markinu hreinu í 7-0 sigri Íslands. Orri kom inná fljótlega í seinni hálfleik. Hann var ekki langt frá því að skora og átti stoðsendinguna í síðasta marki Íslands. Grímur lék einnig síðasta korterið í leiknum.

Fréttastofa Gróttusport óskar þremenningunum til hamingju með fyrstu landsleikina og vonar sannarlega að þeir haldi áfram á sömu braut.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print