Skip to content

Fótboltasumarið byrjar vel

Það var nóg um að vera hjá meistaraflokksliðum Gróttu í knattspyrnu um helgina.

Strákarnir buðu Tindastólsmenn velkomna á Vivaldivöll í fyrsta deildarleik ársins á laugardaginn og aldrei þessu vant var veðrið bara einhvern veginn – vindur, snjókoma og sól með köflum. Það voru okkar menn sem að byrjuðu leikinn af krafti og enginn annar en Arnar Þór Helgason, eða Addi Bomba, opnaði markareikning Gróttu þetta sumarið á 17. mínútu. Stuttu seinna skoraði Axel Freyr Harðarson sitt fyrsta mark fyrir Gróttu eftir fallegt spil okkar manna. Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins en á 45 mínútu dró til tíðinda þegar Stólanir náðu að minnka muninn en þar var að verki Konráð Freyr Sigurðsson. Mark á besta tíma fyrir gestina og staðan 2-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur fór af stað og ekki batnaði veðrið. Gróttumenn létu það ekki á sig fá og á 60. mínútu skoraði hinn ungi Sölvi Björnsson sitt fyrsta deildarmark fyrir Gróttu eftir fallegt spil þar sem vörn Tindastóls var hreinlega splúndrað. Stólarnir gáfust ekki upp og svöruðu fyrir sig á 79. mínútu með marki frá Benjamín Jóhannesi Gunnlaugarsyni (lengri verða nöfnin varla) og allt leit út fyrir hörkuspennandi lokamínútur. Þá sögðu Gróttumenn hingað og ekki lengra og á 83. mínútu skoraði Júlí Karlsson með snyrtilegri afgreiðslu í vinstra hornið og staðan orðin 4-2 fyrir okkar menn. Það var svo hinn reyndi Jóhannes Hilmarsson sem kláraði leikinn endanlega fyrir Gróttu í uppbótartíma með utanfótarskoti í fjær og 5-2 Gróttusigur staðreynd. Góður sigur hjá strákunum og ekki skemmir fallegur fótbolti liðsins fyrir. Næsti leikur hjá strákunum er núna á föstudaginn klukkan 19:15 þar sem þeir fá nýliða Þróttar Vogum í heimsókn. Verður það án efa fjörugur leikur enda skoruðu bæði lið fimm mörk í fyrstu umferðinni!

Stelpurnar áttu leik á sunnudag og buðu þær einnig Tindastólsstúlkur velkomnar á Vivaldivöllinn. Þetta var fyrsti leikur sumarsins hjá stelpunum og var þetta leikur í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins.

Bæði lið fóru varlega af stað og staðan í hálfleik markalaus. Í seinni hálfleik var hins vegar allt annað upp á teningnum og mikið fjör og spenna í leiknum. Á 50. mínútu var ísinn brotinn í fyrsta skipti þetta sumarið og var þar að verki Diljá Mjöll Aronsdóttir með marki beint úr aukaspyrnu. Eftir þetta slaknaði aðeins á okkar stelpum og jafnaði Tindastóll metin aðeins sex mínútum síðar. Staðan orðin 1-1 og allt að gerast. Við þetta settu Gróttukonur aftur í gírinn og voru fljótar að svara fyrir sig með marki frá Hrafnhildi Fannarsdóttur. Ekki löngu síðar var Hrafnhildur aftur á ferðinni, nú eftir laglega sendingu frá Önju Ísis Brown og staðan orðin 3-1 fyrir Gróttu og korter eftir. Gestirnir neituðu að gefast upp og fengu dæmda vítaspyrnu á 87. mínútu – rangur dómur segja aðspurðir en ekki er deilt við dómarann. Hin bandaríska Murielle steig á punktinn en Friðrika Arnardóttir í marki Gróttu varði spyrnuna. Murielle náði hins vegar frákastinu, kom boltanum í markið og spennan gríðarleg á Nesinu.

Sem betur fer héldu okkar konur út og komust þar með í næstu umferð bikarkeppninnar. Hún verður spiluð mánudaginn 21. maí þegar 1. deildar lið ÍR verður sótt heim í Breiðholtið.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print