Skip to content

Sex marka tap gegn Valsmönnum

Meistaraflokkur karla fór í gær í heimsókn í Origio-höllina á Hlíðarenda þar sem heimamenn í Val tóku á móti þeim.

Það sást strax á upphafsmínútum leiksins að Gróttu-liðið ætlaði að láta stjörnum prýtt lið Valsmanna hafa fyrir hlutunum þennan seinnipartinn og kom það á daginn. Leikurinn byrjaði strax af mikilli hörku þar sem varnarleikur beggja liða var í brennideppli, í raun lítið skemmtanagildi ef fólk var að leitast eftir því.

Umdeilt atvik gerðist á 16.mínútu þegar Róbert Hostert skytta Valsmanna skellti Gróttu-manninum Magnúsi Öder í gólfið í miðju uppstökki. Ljótt brot sem verðskuldaði hið minnsta 2ja mínútna brottvísun ef ekki meir, en allt kom fyrir ekki og dómarar leiksins settu fyrir sig þá afsökun að þeir hefðu ekki séð brotið, óskiljanlegt í raun.

Liðið skiptust á að skora út hálfleikinn og var munurinn ýmist eitt eða tvö mörk og varnarleikur eins og áður sagði í aðalhlutverki.

Fyrri hálfleiknum lauk svo á því að Hreiðar Levý sem var flottur á milli stanganna varði víti Valsmanna þegar leiktíminn var runninn út, staðan 9-9 í hálfleik og vonuðust stuðningsmenn að þessi markvarsla Hreiðars myndi gefa Gróttu-liðinu byr undir báða vængi í síðari hálfleik.

Það reyndist þó ekki raunin og byrjuðu Valsmenn seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu fljótlega 2ja marka forystu, Gróttu-strákar áttu mjög erfitt sóknarlega í síðari hálfleik og gekk bölvanlega að finna netmöskvana, sóknarleikur liðsins í raun arfaslakur og skotnýtingin mjög döpur.

Sterkt lið Vals hélt öruggri forystu út leikinn og fór að draga af Gróttu-liðinu undir lokin og á endaum lauk leiknum með sex marka sigri Valsmanna, 21-15.

Markaskor Gróttu

  • Vilhjálmur Geir – 3 mörk
  • Sveinn José – 2 mörk
  • Jóhann Reynir – 2 mörk
  • Sigfús Páll – 2 mörk
  • Leonharð – 2 mörk
  • Aðrir skoruðu minna

Hreiðar Levý var besti leikmaður Gróttu-liðsins en hann varði oft á tíðum frábærlega og endaði leikinn með 12 varin skot eða 38% markvörslu.

Þrátt fyrir tap geta strákarnir borið höfuðið hátt eftir leikinn, þeir létu best mannaðasta lið deildarinnar hafa alvöru leik á þeirra heimavelli og varnarleikurinn hjá liðinu var stórkostlegur.

Að skora 15 mörk dugar þó ekki til að vinna leiki og ljóst að sóknarleikurinn þarf að batna fyrir næsta leik liðsins gegn FH á sunnudaginn n.k – nánar um það síðar.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print