Skip to content

Ungir leikmenn semja við Gróttu

Í morgun skrifaði knattspyrnudeild Gróttu undir samninga út árið 2021 við sex leikmenn meistaraflokks kvenna. Um er að ræða stelpur á aldrinum 16-19 ára sem komu flestar inn í liðið í fyrra og hafa allar spilað með Gróttu í Lengjudeildinni í sumar. 

Þetta eru þær Tinna Brá Magnúsdóttir (16 ára), Rakel Lóa Brynjarsdóttir (16 ára), María Lovísa Jónasdóttir (17 ára), Lovísa Scheving (17 ára), Helga Rakel Fjalarsdóttir Hagalín (19 ára) og Edda Björg Eiríksdóttir (19 ára). 

Tinna Brá, Rakel Lóa, María Lovísa og Lovísa eru allar uppaldar í Gróttu. Tinna er markmaður, Rakel getur bæði leikið sem varnar- og miðjumaður, María leikur sem framherji eða kantmaður og Lovísa dreifir spilinu á miðjunni.

Helga Rakel er uppalin í Vesturbænum og lék upp yngri flokkana með KR og Gróttu/KR. Helga, sem leikur sem miðjumaður, var á láni hjá Gróttu í fyrra en skipti alfarið yfir síðasta haust. Edda Björg er uppalin á Höfn – hún lék með Sindra til 15 ára aldurs þar til hún skipti yfir í Val. Edda, sem getur bæði leikið sem kantmaður og bakvörður, gekk til liðs við Gróttu í vetur. 

„Það er mikið gleðiefni fyrir Gróttu að hafa samið við þessar frambærilegu stelpur. Þær hafa allar staðið sig vel og eru klárar í að halda áfram af fullum krafti í uppbyggingunni í Gróttu.“ sagði Magnús Örn Helgason þjálfari meistaraflokks kvenna.

„Hér erum við að semja við sex stelpur sem hafa allar spilað stórt hlutverk í sumar og munu bara eflast á næstu  árum. Framtíðin er sannarlega björt hjá meistaraflokki kvenna.“ sagði Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar þegar samningarnir voru undirritaðir.

Tinna Brá Magnúsdóttir, Lovísa Scheving, Rakel Lóa Brynjarsdóttir, María Lovísa Jónasdóttir og Birgir Tjörvi Pétursson.

Edda Björg Eiríksdóttir og Helga Rakel Fjalarsdóttir Hagalín.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print