Skip to content

Sigurvin framlengir við Gróttu

Sigurvin Reynisson hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu til loka keppnistímabilsins 2022. Sigurvin kom til Gróttu á árinu 2015 og hefur verið í lykilhlutverki í uppgangi liðsins síðustu ár. Hann hefur leikið yfir 100 leiki fyrir meistaraflokk félagsins og verið fyrirliði liðsins síðastliðin þrjú ár.

„Við erum afar ánægð með að hafa samið við Sigurvin um að halda áfram í verkefninu hjá Gróttu. Hann hefur verið lykilmaður hjá okkur og það skiptir miklu máli að hafa leikmann með slíka reynslu í okkar forystusveit, þótt hann sé reyndar ekki nema 25 ára gamall,“ sagði Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar Gróttu við undirritun samningsins.

„Þetta er búið að vera mikið ævintýri hjá Gróttu undanfarin ár, en mér finnst verkefninu ekki vera lokið. Hópurinn er enn ungur, margir að bæta sig og ég vil leggja mitt af mörkum áfram. Ég er spenntur fyrir komandi tímabili, síðasta ár var mjög sérstakt, en við horfum fram á veginn og ætlum okkur stóra hluti næsta sumar,“ sagði Sigurvin.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print