Skip to content

Pétur Theódór til Breiðabliks

Knattspyrnudeild Gróttu hefur komist að samkomulagi við knattspyrnudeild Breiðabliks um félagaskipti Péturs Theódórs Árnasonar að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Pétur Theódór, sem er 26 ára gamall,er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi og lék hann upp alla yngri flokka Gróttu. Pétur lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki Gróttu árið 2011, þá aðeins 16 ára gamall en sama ár spilaði hann með U16 ára landsliði Íslands. Pétur fór í framhaldi á reynslu til enska liðsins Reading og var viðloðandi landsliðshópa Íslands næstu misseri á eftir. Pétur Theódór þurfti að taka sér hlé frá fótboltanum vegna meiðsla, en endurkoma hans frá árinu 2018 hefur verið ævintýri líkust. Árið 2019 var Pétur Theódór lykilmaður í meistaraliði Gróttu í Inkasso-deildinni, var markakóngur deildarinnar með 15 mörk í 22 leikjum ásamt því að vera markahæsti leikmaður Mjólkurbikarsins. Pétur Theódór var valinn besti leikmaður fyrri hluta deildarinnar, var í liði ársins auk þess að vera íþróttamaður Gróttu og íþróttamaður Seltjarnaness sama ár. Pétur var lykilmaður í Gróttuliðinu á fyrsta tímabili félagsins í efstu deild sumarið 2020. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur Pétur Theódór verið sjóðheitur fyrir framan markið, er markahæstur í Lengjudeildinni með 18 mörk í 18 leikjum. Alls hefur hann leikið 139 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og skorað í þeim 62 mörk.

Pétur hefur öll sín ár hjá Gróttu verið sannur liðsmaður, góður samherji og fyrirmynd ungra iðkenda, ekki síst vegna eljusemi, þrautseigju og metnaðar. Þótt allt Gróttufólk muni kveðja Pétur Theódór að loknu tímabili með trega, samgleðjumst við honum og óskum velgengni í nýjum verkefnum 👊🏼💙

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print