Skip to content

Meistaraflokkur kvenna 5 ára

Haustið 2015 útskrifuðust nokkrar Gróttustelpur fæddar árið 1996 úr 2. flokki en þá var enginn meistaraflokkur til staðar í félaginu. Þær langaði hvergi að æfa nema í uppeldisfélaginu og óskuðu því eftir fundi með formanni og gjaldkera knattspyrnudeildarinnar, Hilmari S. Sigurðssyni og Magnúsi Gunnarsyni, til að bera undir þá þá tillögu um að stofna meistaraflokk kvenna. Þeim tókst að hóa saman stelpum til að mynda lið og tillagan var samþykkt af stjórn deildarinnar. Guðjón Kristinsson var ráðinn þjálfari liðsins og fyrsta formlega æfing flokksins var haldin 15. janúar 2016, fyrir fimm árum síðan. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en gaman er að líta til baka og sjá hve miklum árangri liðið hefur náð á þessum stutta tíma. Aðeins fjórum mánuðum eftir fyrstu æfingu hóf Grótta keppni í bikarkeppni og síðar Íslandsmótinu í B-deild 1. deildar. Að ári var stofnuð 2. deild þar sem Gróttukonur spiluðu þrjú sumur. Liðið komst upp um deild sumarið 2019 undir stjórn Magnúsar Arnar Helgasonar og Péturs Rögnvaldssonar. Þjálfaraskipti urðu haustið 2018 þegar Magnús tók við liðinu eftir að Gaui hafði stýrt því í þrjú tímabil.
Liðið hefur breyst mikið síðustu ár og í dag samanstendur hópurinn af ungum og uppöldum Gróttustelpum í bland við stelpur úr öðrum félögum sem margr eiga nú fjölmarga leiki fyrir Gróttu. Liðið er í stöðugri uppbyggingu og spilar í Lengjudeild kvenna í sumar í annað sinn. Umgjörðin í kringum liðið og heimaleiki er virkilega góð og erum við stolt af baklandinu sem stelpurnar eru með og hafa haft frá stofnun liðsins.
Það sem er þó einna mikilvægast er að nú geta ungar Gróttustelpur átt sér fyrirmyndir í sínu eigin félagi og drauma um að komast í meistaraflokk Gróttu.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print