Skip to content

Magnús Örn ráðinn yfirmaður knattspyrnumála

Knattspyrnudeild Gróttu hefur tekið stórt skref í átt að frekari styrkingu og framþróun með því að ráða Magnús Örn Helgason í nýtt og mikilvægt hlutverk sem yfirmann knattspyrnumála. Þessi ráðning markar upphaf nýs kafla í sögu deildarinnar, þar sem lögð verður enn frekari áhersla á fagmennsku og markvissa framtíðarsýn.

Magnús kemur til Gróttu með mikla reynslu og þekkingu á íslenskri knattspyrnu. Hann hefur frá árinu 2021 starfað hjá KSÍ, fyrst sem þjálfari U17 ára landsliðs kvenna og síðar U15 kvenna. Auk þess hefur Magnús í tvö ár stýrt Hæfileikamótun kvenna hjá KSÍ. Fram á vor mun Magnús sinna verkefnum sínum hjá KSÍ meðfram starfinu hjá Gróttu.

Magnús Örn er öllum hnútum kunnugur innan Gróttu enda Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Á þeim tíma var hann m.a. annar höfunda „Gróttuleiðarinnar“ sem er handbók um markmið og hugmyndafræði deildarinnar. Árið 2018 tók hann við meistaraflokki kvenna en undir hans stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019.

Í sínu nýja hlutverki mun Magnús hafa yfirumsjón með margvíslegum þáttum í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Hann mun vinna náið með stjórn deildarinnar, yfirþjálfurum yngri flokka og þjálfurum meistaraflokka karla og kvenna til að tryggja að Grótta haldi áfram að vera í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu.

„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið Magga aftur til okkar, og það í þetta nýja og stóra hlutverk innan deildarinnar. Hans þekking og reynsla verða ómetanleg í áframhaldandi þróun knattspyrnudeildar og við höfum fulla trú á að leiðtogahæfileikar hans muni leiða knattspyrnudeild Gróttu til nýrra hæða,“ segir Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu.

„Það er afar spennandi að taka við þessu nýja starfi. Ég hlakka til að vinna með þeim framúrskarandi þjálfurum sem starfa hjá félaginu, leikmönnum á öllum aldri og auðvitað sjálfboðaliðunum sem eru félaginu dýrmætir. Það er margt sem gengur vel hjá Gróttu og ég mun leggja mitt að mörkum til að svo verði áfram,“ segir Magnús sem skrifaði undir nú síðdegis á Vivaldivellinum.

Ráðning Magnúsar er mikilvægur liður í stefnu Gróttu um að byggja upp öfluga knattspyrnudeild með skýra sýn í bæði uppeldis- og afreksstarfi. Við hlökkum til að sjá árangurinn af þessu samstarfi á komandi misserum og bjóðum Magnús hjartanlega velkominn aftur heim í Gróttu.

Myndir: Eyjólfur Garðarsson 

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print

Information

Aðalsími Gróttu 561-1133
Skrifstofa Gróttu opin virka daga
frá kl. 13:00 – 16:00
grotta@grotta.is

Fréttaflokkar