Gróttumenn gerðu sér lítið fyrir og urðu Lengjubikarmeistarar í B-deild eftir sigur á Magna frá Grenivík í fjörugum leik sem fram fór í Boganum á Akureyri í dag.
Norðanmenn voru fljótir úr startholunum og komust yfir á 4. mínútu en Jóhannes Hilmarsson var ekki lengi að svara þvi og jafnaði metin tveimur mínútum síðar. Viktor Segatta skoraði annað mark Gróttu á 29. mínútu en Magnamenn jöfnuðu metin skömmu fyrir hálfleik og staðan því 2-2.
Síðari hálfleikur gaf þeim fyrri lítið eftir en Brynjar Steinþórsson og Viktor Segatta komu Gróttu í 2-4 en strákunum tókst ekki að halda þeirri forystu því heimamenn skoruðu tvö mörk og tryggðu sér þar með vítaspyrnukeppni. Í henni skoruðu þeir Arnar Þór Helgason, Bjarni Rögnvaldsson og Ásgrímur Gunnarsson úr sínum spyrnum fyrir Gróttu en Stefán Ari Björnsson skellti í lás í marki Gróttu og varði hvorki fleiri né færri en þrjár vítaspyrnur og sætur 5-7 sigur því staðreynd!
Á meðfylgjandi mynd má sjá strákana með bikarinn! Glæsilegur árangur og setur vonandi tóninn fyrir sumarið!