Skip to content

Garðar 80 ára í dag

„Ungum verzlunarmanni hjá Jes Zimsen í Hafnastræti datt í hug fyrir tæpu ári, að það væri ekki fráleitt að stofna knattspyrnufélag í hans bæjarhverfi. Félagið var stofnað 10. febrúar 1966 (innskot: formleg stofnun félagsins var 24. apríl 1967)  og vitanlega fékk það nafnið Knattspyrnufélagið Grótta, því félagið er staðsett á Seltjarnarnesi.  Garðar Guðmundsson, en svo heitir þessi ungi maður, var í sumar einn með 126 stráka á æfingum. Hann var jafnframt formaður félagsins, ritari og gjaldkeri. Hann var allt í öllu og rak Knattspyrnufélagið eins og einkafyrirtæki sem dafnaði í hans höndum dag frá degi.”

Þannig byrjar frétt úr dagblaðinu Vísi 13. janúar 1967 um fyrstu skref Íþróttafélagsins Gróttu undir stjórn Garðars. Í dag 19. maí 2022 fagnar Garðar stórum áfanga er hann fagnar 80 ára afmæli sínu.

Á laugardaginn verður haldið fótboltamót á Vivaldivellinum til heiðurs Garðari sem við hvetjum Gróttufólk til að fjölmenna á, en mótið verður á Vivaldivellinum á milli 10:15 og 14:00. Garðar hefur þjálfað Old Boys í Gróttu í alls 38 ár – byrjaði árið 1984 og geri aðrir betur.

Íþróttafélagið Gróttu óskar Garðari innilega til hamingju með stórafmælið og þakkar honum fyrir hans framlag í þágu félagsins.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print