Skip to content

Chris Brazell tekur við meistaraflokki karla

Það er mikið gleðiefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu að hafa gengið frá samningi við Chris Brazell sem aðalþjálfara meistaraflokks karla til næstu þriggja ára. 

Hinn 29 ára gamli Chris hóf störf hjá knattspyrnudeildinni fyrir tveimur árum og hefur starfað sem yfirþjálfari yngri flokka síðan, ásamt því að hafa starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla síðasta árið, í góðu samstarfi við Ágúst Þór Gylfason. Chris er með UEFA-A þjálfaragráðu og BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Lincoln. Chris starfaði í fjögur ár í akademíu enska úrvaldsdeildarliðsins Norwich City þar sem hann var m.a. aðalþjálfari U14 ára liðs félagsins og vann með leikmönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu. Chris hefur auk þess verið í starfsnámi hjá þýsku liðunum Borussia Dortmund og FC Köln. 

Knattspyrnudeild Gróttu telur ráðningu þessa unga þjálfara í anda þess sem Grótta stendur fyrir, þ.e. að gefa ungu hæfileikafólki tækifæri, bæði leikmönnum og þjálfurum. Það sé hluti af því sem gerir Gróttu lifandi og skemmtilegt félag, alltaf opið fyrir ferskum straumum, nýjum hæfileikum og gefur fólki frelsi til að þroskast við stórar áskoranir. Deildin fagnar því að hafa Chris áfram í lykilhlutverki hjá félaginu í því uppbyggingastarfi sem deildin hefur staðið fyrir undanfarin ár.

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print