Skip to content

Áfram gakk – Pistill frá Magnúsi Erni Helgasyni

Endurbætur á íþróttahúsi okkar Seltirninga eru á næsta leyti. Grótta og bæjaryfirvöld hafa staðið í ströngu við undirbúningsvinnu síðustu misseri en stefnt er að því að framkvæmdum verði lokið í desember á næsta ári.

Það er ljóst að endurbæturnar munu gjörbreyta starfi fimleikadeildar Gróttu til hins betra. Nýr salur mun bjóða upp á ótal möguleika sem því miður voru ekki til staðar í gamla salnum. Vissulega eru aðeins 18 ár síðan salurinn var tekinn í notkun (11-12 ár síðan Gerpla og Ármann vígðu sína sali) og auðvitað hefði þá átt að byggja stærri og flottari sal sem hefði nýst fimleikadeildinni í lengri tíma.

En gærdagurinn er liðinn og kemur ekki aftur. Nú er horft fram á veginn og reynt að gera eins mikið úr því svæði sem er til staðar.

Við í knattspyrnudeildinni fögnum þessum framkvæmdum innilega. Það eru jú allar deildir sem njóta góðs af, ekki bara fimleikarnir.

Annað af yfirmarkmiðum knattspyrnudeildar Gróttu er „Að knattspyrnudeild Gróttu búi að framúrskarandi yngri flokka starfi og meistaraflokki sem sé að mestu leyti skipaður leikmönnum uppöldum í félaginu.“ Í raun dreymir okkur um að það sé hvergi betra að vera á Íslandi sem ungur leikmaður en einmitt í Gróttu. Með öflugu og samstilltu þjálfarateymi, góðu skipulagi, dugnaði, jákvæðni og umhyggjusemi teljum við að það sé hægt. Og við erum búin að stíga mörg skref í rétta átt síðustu ár.

Staðreyndin er sú að líkamleg þjálfun er stór hluti af knattspyrnuþjálfun nútímans. Það er ekki bara nóg að vera leikin/n með boltann og vita hvert á spila heldur þarf líkaminn að geta höndlað þau átök sem eiga sér stað inni á vellinum í löngum leik. Sterkir vöðvar verja liði fyrir meiðslum, gott jafnvægi skiptir sköpum og sá/sú sem hleypur hratt og hoppar hátt er líklegri en aðrir til afreka. Líkamsstyrkur er ennfremur forvörn fyrir kvilla eins og beinþynningu og ýmis stoðkerfisvandamál á fullorðinsárum.

Á myndunum hér að neðan má sjá núverandi styrktarsal Gróttu ásamt aðstöðunni sem nágrannafélög okkar, KR og Valur, ráða yfir. Myndirnar tala sínu máli.

Í endurbættu íþróttahúsi verður glæsilegur lyftingasalur sem mun nýtast öllum deildum. Við í knattspyrnudeildinni getum ekki beðið eftir því að geta boðið iðkendum okkar upp á framúrskarandi styrktarþjálfun án þess að þurfa að leigja aðstöðu úti í bæ eða bíða eftir því að ungir leikmenn kaupi þjónustu einkaþjálfara í líkamsræktarstöð.

Hitt yfirmarkmið okkar í knattspyrnudeildinni er: „Að iðkendum líði vel og að það sé gaman að stunda fótbolta hjá Gróttu.“ Yfir hörðustu vetrarmánuðina sýna krakkarnir sem æfa hjá okkur ótrúlega þrautseigju og dugnað við æfingar í kulda og rysjóttu veðri. Þau eru tilbúin til að leggja mikið á sig og láta veðrið sjaldnast stoppa sig. Hins vegar hefur veðrið mest áhrif á yngstu iðkendurna en vegna fimleika- og handboltaæfinga í íþróttasölunum tveimur hefur knattspyrnudeildin takmarkaðan aðgang fyrir fótboltaæfingar innanhúss. Þegar framkvæmdum lýkur þurfa fimleikarnir ekki að nota íþróttasalina og því opnast tækifæri fyrir 7. flokk karla og kvenna til að æfa inni að miklu leyti yfir veturinn.

Framkvæmdirnar snúast ekki bara um fimleika heldur allar þrjár deildir Gróttu. Þar með stóran hluta fjölskyldna á Seltjarnarnesi enda er íþróttaþátttaka barna í bænum eftirtektarverð og við hljótum að vilja halda því þannig. Bæjarbúar ættu að fagna því að eiga metnaðarfullt íþróttafélag sem í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld gerir sitt besta til að vera í fremstu röð.

Látum ekki úrtöluraddir afvegaleiða okkur – áfram veginn, áfram Grótta!

Magnús Örn Helgason, þjálfari og stjórnarmaður hjá knattspyrnudeild Gróttu

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print