Skip to content

Hákon Bridde ráðinn yfirþjálfari

Hákon Hermannsson Bridde hefur verið ráðinn yfirþjálfari handknattleiksdeildar Gróttu til næstu 3ja ára. Hann mun einnig stýra 5.flokki karla og 7. og 8. flokki karla á næstkomandi keppnistímabili.

Hákon sem er 36 ára gamall á að baki langan þjálfaraferil sem nær aftur til ársins 2002 en þá byrjaði hann reyndar sem fótboltaþjálfari hjá HK og þjálfaði fótbolta í 2 ár. Árið 2004 snéri hann sé að handboltaþjálfun hjá HK þar sem hann þjálfaði í 14 ár, bæði sem yngri flokka þjálfari, styrktarþjálfari, meistaraflokks þjálfari og yfirþjálfari.

Árið 2018 hélt Hákon til Noregs þar sem hann hefur verið aðalþjálfari bæði meistaraflokks kvenna og karla hjá Florø SK auk þess að koma að yngri flokka þjálfun og kennslu í menntaskólanum í Flora.

Auk mikillar reynslu úr þjálfun er Hákon einnig gríðarlega vel menntaður á sviðum íþrótta en hann er með Bs gráðu í íþróttafræðum frá Háskólanum í Reykjavík og masters gráðu í þjálfun og kennslu frá sama skóla og auk þess hefur Hákon setið tugi námskeiða um þjálfun, bæði styrktarþjálfun og handboltaþjálfun.

Hákon hefur eins og áður segir skrifað undir 3ja ára samning sem yfirþjálfari við félagið og mun einnig sinna þjálfun 5.flokks karla og 7. og 8.flokks karla tímabilið 2020-2021. Hákon mun sem yfirþjálfari fá það verkefni að leiða þá uppbyggingu sem deildin stendur nú frammi fyrir í samvinnu við stjórn og aðra þjálfara deildarinnar en stjórnin stefnir í stórsókn í yngri flokkum félagsins sem hún sýnir í verki með ráðningu á jafn öflugum aðila og Hákoni.

Við bjóðum Hákon hjartanlega velkominn til félagsins og hlökkum til að fylgjast með honum í þessu krefjandi starfi sem hann tekur nú við!

Áfram Grótta!

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print