Skip to content

Andri Þór til Gróttu – Barion Bryggjan bætist í hóp styrktaraðila

Hornamaðurinn Andri Þór Helgason skrifaði í dag undir 2ja ára samning við Gróttu.

Andri sem er 26 ára gamall kemur til liðsins frá Stjörnunni þar sem hann lék á síðastliðnu keppnistímabili. Þar áður lék Andri með Fram í þrjú tímabil og var þar fyrirliði liðsins. Andri fór með Fram-liðinu alla leið í undanúrslit íslandsmótsins og bikarúrslit.

Andri hefur af mörgum verið talinn einn af betri hornamönnum deildarinnar og er þrátt fyrir ungan aldur hokinn af reynslu úr efstu deild. Hann er mikill leiðtogi og fyrirmynd innan vallar sem utan en hann var m.a sæmdur háttvísisverðlaunum HSÍ árið 2017.

Auk þess að spila með meistaraflokki félagsins mun Andri taka að sér þjálfun 3.flokks karla á komandi keppnistímabili.

Það er okkur mikill fengur að fá Andra til félagsins og verður hann mikil styrking í ungt Gróttu-lið sem spilar í Olís-deildinni á nýjan leik eftir ársfjarveru.

Við sama tilefni skrifuðu handknattleiksdeild Gróttu og veitingastaðurinn Barion Bryggjan undir samstarfssamning sín á milli til næstu 3ja ára.

Með samningnum verður Barion einn af stærstu styrktaraðilum deildarinnar og munu handhafar heimaleikjakorta handknattleiksdeildar m.a njóta afsláttarkjara hjá staðnum en auk þess mun Barion m.a standa fyrir skotkeppnum í hálfleik á öllum heimaleikjum meistaraflokka í vetur.

Barion sem opnaði úti á Granda nú á ár er veitingastaður og sportbar sem býður upp á gæðamat og drykki fyrir hvert tilefni!

Á myndinni að ofan eru Sigmar Vilhjálmsson eigandi Barion, Lárus Gunnarsson formaður handknattleiksdeildar og Andri Þór við undirritun samningsins á Barion Bryggjan í dag.

Við þökkum Barion kærlega fyrir stuðninginn og hvetjum alla íbúa á Seltjarnarnesi og stuðningsmenn Gróttu að kíkja til þeirra út á Granda og gæða sér á frábærum mat og drykkjum.

Matseðil Barion má nálgast hér https://www.barion.is/matsedill

Áfram Grótta!

Hægt er að deila fréttinni, senda með tölvupósti og/eða prenta út hér fyrir neðan.

Facebook
Twitter
Email
Print