Fimmtudaginn 21. mars fór fram ársþing UMSK í veislusal golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.
Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ veitti fjórum starfsmerki UMFÍ og tvö af þeim fengu Bragi Björnsson og Kristín Finnbogadóttir.
Bragi er landsliðsmaður í félagsstarfi og hefur ástríðu sem fáir aðrir geta stært sig af. Hann hefur starfað innan skátahreyfingarinnar og var um skeið skátahöfðingi. Hann var formaður aðalstjórnar Gróttu um fjögurra ára skeið og á sinn þátt í uppgangi félagsins. Hann er duglegur til verka og stendur enn vaktina á öllum knattspyrnuleikjum meistaraflokks karla sem sjálfboðaliði. Á starfstíma hans hjá aðalstjórn réðst hann í metnaðarfulla stefnumótun og hafði gríðarlegan metnað til þess að lyfta félaginu upp í hæstu hæðir.
Kristínu þarf vart að kynna fyrir þeim sem hafa komið að starfi Gróttu undanfarna áratugi en hún á að baka ríflega tveggja áratuga starf hjá Gróttu. Hún var framkvæmdastjóri félagsins frá 2001 til 2015 og fjármálastjóri frá 2015 þar til hún lét af störfum nú um áramótin. Gitta hefur verið leiðarljós félagsins og lýst upp leið félagsmanna með óhagganlegum kærleika, takmarkalausri góðvild og gleði í yfir 20 ár. Nærvera Gittu hefur mótað sjálfan efniviðinn í Gróttu og fyllt félagið af hlýju, samúð og tilfinningu fyrir samfélagi sem á sér enga hliðstæðu.
Á ársþinginu voru fleiri heiðranir á vegum UMSK og þar má nefna íþróttafólk ársins og merki sambandsins. Þá voru einnig veitt merki ÍSÍ en einn af frumkvöðlum íþróttalífs á Seltjarnarnesi, Hilmari Sigurðssyni var afhent silfurmerki ÍSÍ. Hilmar var formaður knattspyrnudeildar Gróttu um 16 ára skeið og lagði grunn að öflugu starfi deildarinnar og velgengni. Hilmar er fylgin sér og öflugur liðsmaður sem alltaf er reiðubúin að leggja hönd á plóg og er öðrum sjálfboðaliðum innan Gróttu góð fyrirmynd.
Við óskum þeim innilega til hamingju með vel verðskuldaðar viðurkenningar.